Meghan hafði samband eftir missinn

Meghan hertogaynja af Sussex er í góðu sambandi við stjörnuna …
Meghan hertogaynja af Sussex er í góðu sambandi við stjörnuna Chrissy Teigen. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen opnaði sig um samband sitt við Meghan hertogaynju af Sussex í spjallþætti Andys Cohens á dögunum. Teigen fæddi andvana barn síðastliðið haust en Meghan hafði samband við hana eftir áfallið, sjálf missti Meghan fóstur í fyrrasumar. 

Teigen opnaði sig um fæðingu barnsins á samfélagsmiðlum og líðan sína en Jack, sonur hennar og Johns Legends, fæddist andvana eftir um það bil 20 vikna meðgöngu. 

„Hún hefur verið svo góð við mig síðan við kynntumst,“ sagði Teigen í þættinum. Hún sagði Meghan hafa skrifað sér vegna Jacks og um sorgina að missa. Sjálf hafði Meghan misst fóstur nokkrum vikum áður og þekkti tilfinninguna. 

Teigen bætti því við að Meghan væri yndisleg manneskja og skildi ekki hvað væri að fólki sem talaði illa um hana. Teigen sagðist einnig hafa talað við Meghan eftir að hún horfði á viðtalið umdeilda við Opruh Winfrey. 

mbl.is