„Að vera einstæð móðir hefur gert mig sjálfstæðari“

Kristín Pétursdóttir með soninn Storm.
Kristín Pétursdóttir með soninn Storm. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Pétursdóttir leikkona á hinn tveggja ára gamla Storm. Hún nýtir sína eigin reynslu í leikritinu Mæður sem fer aftur á fjalirnar í kvöld en í Borgarleikhúsinu í þetta sinn. Kristín segir margt erfitt við móðurhlutverkið og fæðinguna en eins og amma hennar sagði alltaf þá er ekkert gaman nema það sé líka erfitt. 

Í leikritinu Mæður leikur Kristín móður sem á ýmislegt sameiginlegt með henni. Þrjár aðrar mæður eru í leikritinu og allar eiga þær sameiginlegt að vera að upplifa það að eiga barn í fysta skipti. „Þeirra upplifun er auðvitað ólík, börnin eru ólík og þeirra bakgrunnur er ólíkur,“ segir Kristín sem segir leikritið vera fyndið, sorglegt og erfitt.

Gast þú á einhvern hátt leitað í eigin reynslu á æfingum? 

„Já, alveg tvímælalaust. Lilja Nótt, meðleikkona mín, sem sá sýninguna í Danmörku og setti hópinn saman, setti það skilyrði að allar sem kæmu að sýningunni væru mæður. Til að við gætum deilt okkar reynslu, tilfinningum og skilið hver aðra og nýtt áfram í sýninguna okkar. Ég og karakterinn minn Júlí eigum margt sameiginlegt, vorum létt taugaveiklaðar í byrjun og ætluðum að gera allt svo fullkomið með misjöfnum árangri.“ 

Það er um ár liðið síðan leikritið var frumsýnt. Ert þú sama mamman eða hefurðu á einhvern hátt breyst og þroskast á þessu ári frá frumsýningu?

„Já, alveg klárlega, líf mitt og okkar hefur líka mikið breyst á þessu ári. Á þessum tíma vorum við barnsfaðir minn að slíta sambandi okkar og það tók auðvitað á okkur öll en var á sama tíma mjög þroskandi og lærdómsríkt – að vera einstæð móðir hefur gert mig sjálfstæðari og kennt mér að treysta mér og mínu innsæi. Það dýpkaði auðvitað tengsl okkar Storms, því þegar hann er hjá mér höfum við bara hvort annað og þá kemst ekkert annað að.“

Kristín ætlaði að gera allt fullkomið þegar hún varð móðir.
Kristín ætlaði að gera allt fullkomið þegar hún varð móðir. Ljósmynd/Aðsend

Fæðingin var löng

Hvernig var að eignast barn og bera allt í einu ábyrgð á annarri manneskju?

„Það er ólýsanlegt! Fæðingarferlið er allt í hálfgerðri móðu, ég var með hríðir í þrjá sólarhringa og var orðin virkilega uppgefin þegar hann loks fæðist. Það gekk þó allt vel þótt þetta hafi tekið svona langan tíma og svo hófst bara lífið með þessari litlu manneskju. Nokkuð sem enginn getur búið mann undir,“ segir Kristín. 

„Ég upplifði í fyrsta skipti á ævinni mikinn kvíða fyrir því að gera eitthvað vitlaust, að eitthvað myndi fara úrskeiðis. Ég var svo ósköp hrædd um þetta litla líf sem ég elskaði svo óendanlega mikið og bar ábyrgð á. Það hefur sem betur fer minnkað, við höfum lært inn á hvort annað saman og móðurhlutverkið er það besta sem hefur fyrir mig komið þótt það geti verið mjög krefjandi og erfitt oft og tíðum. Amma mín var vön að segja að það væri ekkert gaman að neinu nema það væri líka erfitt og ég skildi það ekki fyrr en ég eignaðist hann.“ 

Eins og Krístin nefnir þá var fæðingin mjög löng og tók á. Þrátt fyrir erfiðleikana var reynslan dásamleg og segist Kristín ekki geta beðið eftir að fæða barn aftur. 

„Það var svo mikil spenna í loftinu í aðdragandanum, þegar ég var send heim af spítalanum eftir tékk og átti að bíða eftir að hríðirnar ykjust komu mamma, amma og systir mömmu heim með bakkelsi og við áttum einstaka stund saman. Þarna vorum við nokkrir ættleggir komnir saman, allar mæður og sú yngsta við það að verða það. Þær straujuðu sængurver, þrifu, gáfu mér að borða og hvöttu mig áfram á meðan barnsfaðir minn tók tímann á milli hríða.

Ég prófaði síðan held ég allar verkjastillingar sem mér buðust, ég prófaði glaðloftið og fílaði vel, ég fékk nálarstungur, fór í bað, fékk morfín og hríðastoppandi lyf til að hjálpa mér að sofa og að lokum þessa dásamlegu mænudeyfingu. Ég gleymdi samt að pissa, ofreyndi blöðruna og fékk því þvaglegg sem var vægast sagt sérstök upplifun en þægilegt á sængurlegunni þegar ég þurfti ekki einu sinni að standa á fætur til að pissa, það var bara græjað. 

Tilfinningarússíbaninn sem ég upplifði, móðurástin sem mamma mín sýndi mér og ég drengnum mínum var ólýsanleg og ég kom sjálfri mér mikið á óvart. Ég hafði ekki hugmynd um þennan kraft sem ég bjó yfir og fannst ég hafa sigrað heiminn þegar hann kom loks í heiminn eftir 45 mínútna rembing, og var að sjálfsögðu fullkominn fyrir mér.“

Fæðingin var löng en á sama tíma dásamleg.
Fæðingin var löng en á sama tíma dásamleg. Ljósmynd/Aðsend

Mikil pressa á mæður

Hvernig mamma ert þú? 

„Ég held ég sé mjög tjilluð og skemmtileg mamma. Ég er alls ekki alltaf besta mamma í heimi og stundum er ég bara skítsæmileg mamma sem gef skvísu og poppkex í kvöldmat meðan hann horfir á Toy Story. Aðra daga dúlla ég mér við að gera broskalla úr berjum ofan á hafragrautinn og leikles Karíus og Baktus eftir á. 

Pressan á mæður er stórkostleg í nútímasamfélagi og það er endalaust verið að koma samviskubiti inn hjá þeim á öllum sviðum; hvort sem það er að vilja „break“ og fá pössun til að fara út að borða með vinkonum sínum eða rétta barninu sínu símann til að kaupa sér smá aukalúr klukkan hálfsjö á morgnana. Samanburðurinn kemur alls staðar að og alltaf getur maður gert betur, en stundum er líka bara hollt að staldra við og klappa sjálfri sér á bakið og hætta að tala niður til sjálfrar sín.“

Besta móðirin er móður sem líður vel.
Besta móðirin er móður sem líður vel. Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem þú hefðir viljað vita áður en þú varðst móðir?

„Ég hefði viljað vita meira um það sem kemur dagana á eftir fæðingunni. Ég fékk mikla hríðarverki þegar legið var að dragast saman og fannst þetta nú heldur ósanngjarnt eftir allt sem ég hafði þurft að þola. Eins kom mjólkin í brjóstin af svo brjálæðislegum krafti að ég fékk harkalegan stálma í bæði brjóstin og grét í sturtu við að reyna að nudda stíflurnar burt. Svo var það auðvitað þessi stórkostlega hræðsla um þennan litla unga, ég vakti í fleiri stundir og horfði á hann anda og bjó til senur í hausnum á mér þar sem lampinn af náttborðinu myndi fyrir töfra hoppa af náttborðinu og detta ofan á barnið og olli það mér miklu hugarangri. En þetta blessaðist allt, drengurinn braggaðist vel og ég settist betur í þetta nýja hlutverk.“

Samfélagsmiðlar sýna oft glansmynd af móðurhlutverkinu. Hefur þú fallið í þá gryfju að bera þig saman við aðrar mæður á samfélagsmiðlum? 

„Já heldur betur, og það hafa örugglega einhverjar borið sig saman við mig, en maður eitthvern veginn sýnir gjarnan frá stundunum sem maður er stoltur af en sjaldnar af þessum hráa raunveruleika sem ég vil þó vera duglegri að sýna frá. Maður verður að reyna eftir fremsta megni að forðast þennan samanburð því hann gerir engum gott.“

Besta ráð sem þú átt handa nýbökuðum eða verðandi mæðrum?

„Að vera þú sjálf og treysta þínu innsæi, þú veist best hvað hentar þér og þínu barni og þú þarft ekki að kaupa allt og eiga allt til að skapa þessa fullkomnu instagram-mynd. Eina sem barnið þitt þarf er þín nærvera og alúð og þú ert besta mamman þegar þér líður vel og ert slök.“

Leikritið Mæður fer aftur í sýningu þann 13. maí.
Leikritið Mæður fer aftur í sýningu þann 13. maí.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert