„Ekkert stórkostlegra en vera viðstaddur fæðingu“

Stefanía Ósk og Sunna María eru með hlaðvarpsþáttinn Legvarpið.
Stefanía Ósk og Sunna María eru með hlaðvarpsþáttinn Legvarpið.

Vinkonurnar Stefanía Ósk Margeirsdóttir og Sunna María Helgadóttir kynntust þegar þær hófu ljósmæðranám fyrir þremur árum. Nú eru þær útskrifaðar ljósmæður, starfa meðal annars á fæðingarvakt Landspítalans, auk þess sem þær eru með hlaðvarpið Legvarpið saman. 

Legvarpið er fræðsluþáttur þar sem lögð er áhersla á ljósmæðratengd málefni á skemmtilegan hátt. Þær Stefanía og Sunna fá til sín aðrar ljósmæður, annað fagfólk eða jafnvel foreldra sem segja reynslusögur. „Til viðbótar við barneignarferlið kemur Legvarpið inn á ýmislegt sem tengist kynheilbrigði og kven- og karlaheilsu. En almennt höfum við mikinn metnað fyrir því að gera umræður og fræðslu aðgengilega foreldrum og öðru áhugafólki. Þegar við fórum af stað með Legvarpið sumarið 2019 fannst okkur akkúrat tímabært að fagfólk tæki þátt í hlaðvarps-sprengjunni. Á þeim tíma var enginn annar íslenskur hlaðvarpsþáttur eftir því sem við best vitum að fjalla um barneignarferlið. Það hefur breyst hratt enda gríðarleg eftirspurn,“ segja þær. 

Fengu ólæknandi fæðingabakteríu

Hvað var það sem kveikti áhuga ykkar á því að verða ljósmæður?

„Í grunninn erum við báðar miklar stemningarkonur og kunnum vel við okkur í gleðinni sem í flestum tilfellum fylgir okkar starfi. Það er auðvitað ekkert stórkostlegra en vera viðstaddur fæðingu barns og að fá að starfa við það eru ólýsanleg forréttindi. Við eigum það sameiginlegt að hafa verið viðstaddar fæðingu áður en við fórum í ljósmæðranámið og það má segja að ekki hafi orðið aftur snúið. Þessu hefur gjarnan verið lýst meðal ljósmæðra sem „fæðingarbakteríunni“, sem virðist ólæknandi. Gamla klisjan, en við getum staðfest það að hún er sönn. Í náminu sjálfu upplifðum við svo mikinn kvennakraft, bæði í gegnum ljósmóðurfræðin sem eru í eðli sínu mjög femínísk, frá hinum sterku ljósusystrum okkar og konunum sem tilheyra þessari lífseigu og mögnuðu stétt og ekki síst öllum þeim konum sem við fáum að sinna, hvort sem er í barneignarferlinu eða í tengslum við kvenheilsu almennt. Þar með víkkaði áhugasviðið út frá fæðingunum yfir í kynheilbrigði og kvenheilsu almennt.“

Stefanía og Sunna vilja leggja sitt af mörkum til að opna umræðuna um allt sem tengist kynheilsu.

„Í gegnum tíðina hafa verið mörg tabú í tengslum við kynlíf, fæðingar og kvenheilsu sérstaklega, þó að það sé nú vonandi að breytast. Hvað orðræðu varðar höfum við tekið eftir því að fólki finnst erfitt að nota orðið píka sem gæti talist ákveðið vandamál út af fyrir sig. Við erum miklar stuðningskonur þess að tala bara um píkuna án allra gælunafna og hvetjum alla til að gera slíkt hið sama og fræðast um hvernig hún lítur út og virkar, til dæmis með því að hlusta á píkupælingar Legvarpsins. Annað þessu tengt er aðkoma ljósmæðra að kynheilbrigði en nú útskrifast nýjar ljósmæður með hæfni og réttindi til að veita getnaðarvarnaráðgjöf og ávísa getnaðarvörnum og reyndari ljósmæður geta sótt sér þessa viðbótarmenntun. Þó að það eigi eftir að útfæra þetta innan kerfisins er þetta stórt skref sem býður upp á aukna aðkomu ljósmæðra að kynheilbrigði. Ljósmæður ættu jú að sinna konum á öllum lífsskeiðum og má þá nefna breytingaskeið kvenna sem dæmi um stórt tabú sem við höfum nýlega tekið fyrir í Legvarpinu.“

Ljósmæður til staðar fyrir þolendur

Önnur bylgja metoo-bylgjunnar er í fullum gangi á Íslandi núna. Þær Stefanía og Sunna segja áhrif kynferðisofbeldis hafa mikil áhrif á barneignaferlið. 

„Það eru þó því miður ekkert nýjar fréttir hve gríðarlegur fjöldi kvenna hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi en þegar umræðan verður jafnmikil og þessa dagana erum við kannski sérstaklega meðvitaðar um það. Þetta hefur verið talsvert í umræðunni meðal ljósmæðra síðastliðin ár og það er til að mynda skimað fyrir ofbeldi í meðgönguvernd. Við höfum tekið málefnið fyrir í Legvarpinu og vonumst til þess að umræðan um möguleg áhrif og bjargráð lifi áfram og að konur viti að ljósmæður hafi skilning og séu til staðar.“

Það er stutt síðan Stefanía og Sunna útskrifuðust og hefur starfið eðlilega litast mikið af kórónuveirufaraldrinum. 

„Við finnum það greinilega á okkar skjólstæðingum í barneignarferlinu að það hefur eðlilega verið mikill kvíði í tengslum við covid og má nefna takmarkanir á viðveru maka í fæðingu og bólusetningar sem dæmi. Það hafa einnig komið fram jákvæð áhrif eins og að heimafæðingum hefur fjölgað og fólk virðist hafa meiri ró og næði heima fyrir í sængurlegunni til þess að kynnast barninu, sinna brjóstagjöf og hvílast. Aftur á móti hafa mæður í fæðingarorlofi talað um aukna félagslega einangrun, svo þetta er margslungið og við ljósmæður verðum að vera með puttann á púlsinum til þess að geta komið til móts við þarfir skjólstæðinganna hverju sinni.“

Ljósmæðralíf úti í heimi

Starfsvettvangur ljósmæðra er fjölbreyttur og vilja Stefanía og Sunna vekja athygli á því í Legvarpinu. Þær segja ljósmæður gera svo miklu meira en að grípa börn við fæðingu. 

„Ljósmæður eru almennt einstaklega öflugar þegar kemur að því að afla sér þekkingar. Við höfum talað við ljósmæður um alls kyns málefni sem þær hafa bæði sérþekkingu á og reynslu af, til að mynda val á fæðingarstað, áhrif brjóstastækkunar með brjóstapúðum á heilsu kvenna, sársaukaupplifun kvenna í fæðingu, breytingaskeið kvenna, mænurótardeyfingu og einhverfar konur í barneignarferlinu.

Við höfum gert þætti um kven- og karlaheilsu sem nefnast Píkupælingar og Typpapælingar og hafa hlotið sérstaka athygli, enda tabú þar á ferð. Í typpaþættinum fengum við öflugan liðsauka frá honum Lalla sjúkraþjálfara sem leiðir hlustendur í allan sannleikann um neðanbeltiskarlaheilsu. Einnig höfum við gaman af því að skrásetja sögur af ljósmæðrastörfum utan úr heimi og frá því í gamla daga. Við fengum sagnfræðing í heimsókn sem ræddi um fæðingarhjálp fortíðar og meðal annars störf yfirsetukarla hér á landi.

Svo höfum við gert þáttaröð í samstarfi við Ljósmæðrafélag Íslands sem kallast Ljósmæðralíf þar sem við ræðum við ljósmæður sem hafa starfað á framandi slóðum, meðal annars á hamfara- og átakasvæðum. Má þar nefna Grænland, Norður-Kóreu, Eþíópíu, Súdan og Palestínu. Það er skondið að sjá að allar þær ljósmæður sem hafa rætt við okkur í þeirri þáttaröð eru hógværðin uppmáluð og sannfærðar um að þær hafi ekkert áhugavert að segja en þegar þær leysa frá skjóðunni reynast þær luma á mögnuðustu sögum sem við höfum heyrt.“

Hvert stefni þið í framtíðinni?

„Í Legvarpinu erum við með óendanlegan óskalista af viðmælendum sem væri gaman að spjalla við. Stefanía er að taka þátt í uppbyggingu á Fæðingarheimili Reykjavíkur, sem er að spretta upp á næstunni og verður góð viðbót við val kvenna í barneignarferlinu. Sunna á sér draum um að stofna kynheilbrigðismóttöku fyrir ungt fólk á Íslandi að hætti Svía, sem þyrfti að gerast helst í gær. Svo væri draumurinn að spreyta sig á ljósmæðrastörfum sem víðast og víkka sjóndeildarhringinn úti í heimi. En hver veit, kannski opnum við bara ísbúð!“

Hægt er að hlusta á Legvarpið á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert