Biður um frið frá fjölmiðlum

Gigi Hadid eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári og …
Gigi Hadid eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári og hefur aldrei birt mynd af andliti þess.

Fyrirsætan Gigi Hadid hefur beðið fjölmiðla, ljósmyndara og aðdáendur sína að virða friðhelgi einkalífs dóttur sinnar Khai. Hadid eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári með kærasta sínum Zayn Malik. 

Hadid hefur frá fæðingu dóttur sinnar lagt sig fram um að birta ekki myndir af andliti hennar. Hún biður fjölmiðla að gera slíkt hið sama og ef ljósmyndarar taki mynd af fjölskyldunni á götum úti verði myndir af andliti dótturinnar ekki birtar. 

„Nú þegar dóttir okkar er að vaxa úr grasi höfum við áttað okkur á að við getum ekki verndað hana eins og við hefðum viljað og gátum þegar hún var minni. Hún elskar að sjá heiminn. Og þótt hún fái mikið af því í sveitinni okkar fær hún að upplifa aðra staði, sem eru algjör forréttindi,“ skrifaði Hadid á Instagram.

Hadid rifjar svo upp nýafstaðna ferð fjölskyldunnar til New York þar sem Khai litla vildi lyfta upp skerminum á kerrunni sinni. Þá hafi bæði hún og Malik orðið óttaslegin um að ljósmyndarar myndu ná mynd af andliti dóttur þeirra. 

„Þið vitið að við höfum meðvitað ekki birt mynd af andliti dóttur okkar opinberlega. Okkar ósk er sú að hún geti fengið að velja hvernig hún leyfir heiminum að sjá sig, þegar hún er orðin nógu stór, og að hún geti átt eins eðlilega æsku og hægt er. Án þess að hafa áhyggjur af opinberri ímynd sinni,“ skrifaði Hadid. 

„Það myndi skipta okkur öllu heimsins máli ef þið birtuð ekki andlit hennar í fjölmiðlum, þegar og ef myndir nást af andliti hennar. Ég veit að það er aukavinna, en sem nýja móður langar mig bara að gera allt það rétta fyrir barnið mitt, eins og alla foreldra,“ skrifar Hadid. 

Hún lýkur færslunni á þakkarorðum til ljósmyndara fjölmiðla sem virtu friðhelgi einkalífs fjölskyldunnar í fyrstu ferð þeirra til New York.

skjáskot/Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert