Braut reglu fyrir dóttur sína

Sean Penn leikur á móti dóttur sinni Dylan Penn í …
Sean Penn leikur á móti dóttur sinni Dylan Penn í Flag Day. AFP

Bandaríski leikarinn og leikstjórinn Sean Penn segist hafa brotið eigin reglu þegar hann ákvað að taka að sér hlutverk í myndinni Flag Day. Penn hafði sett sér þá reglu að sinna ekki tveimur störfum í einu. Hann leikstýrði hins vegar og lék á móti dóttur sinni. 

Það var leikarinn Matt Damon sem fékk Penn til að endurskoða ákvörðun sína og íhuga að leika í myndinni að því er fram kemur á vef Indie Wire. „Um einum og hálfum mánuði fyrir tökur hringdi Matt Damon í mig, ekki til þess að segja að hann gæti ekki eða gæti leikið í myndinni heldur að ég væri hálfviti að taka grípa þetta tækifæri ekki og leika á móti dóttur minni,“ sagði Penn. „Það var síðasta hálmstráið. Þegar ég tók ákvörðunina leið mér betur.“

Framleiðendur myndarinnar höfðu lengi reynt að fá Penn til þess að taka hlutverkið að sér. Í myndinni leika feðginin Sean og Dylan Penn Vogel-feðginin. Dylan er dóttir fyrrverandi hjónanna Seans Penns og Robin Wright. Hún var hikandi við að taka hlutverkinu en hún las bókina sem myndin er byggð á fyrst þegar hún var 15 ára en í dag er hún þrítug. „Hann er pabbi minn. Við eigum í flóknu sambandi,“ sagði hún og bætti við að þau væru bæði sterkir einstaklingar.

Feðginin Dylan Penn og Sean Penn.
Feðginin Dylan Penn og Sean Penn. AFP
mbl.is