Halsey saknað á Met Gala-hatíðinni

Halsey.
Halsey. JOHANNES EISELE

Margir glöggir aðdáendur Met Gala-hátíðarinnar, sem fram fór í New York í gærkvöldi, tóku eftir því að bandaríska söngkonan Halsey var fjarri góðu gamni.

Halsey var fljót að útskýra fjarveruna með færslu sem hún deildi á Twitter síðu sína.

„Ég er enn með barn á brjósti. Ég eignaðist barnið mitt fyrir aðeins sjö vikum síðan. Það er engin önnur tíska jafn mikið amerísk og það að mamma þurfi að fara aftur í vinnuna rétt eftir að hún hafi fætt barn,“ sagði hún og vísaði þar með í þema hátíðarinnar sem í þetta skipti var bandarísk tíska.

Söngkonan hefur sést í veislum síðan barnið fæddist og bjuggust aðdáendur hennar því alveg eins við því að sjá hana koma fram á hátíðinni. Miðað við Twitter aðgang söngkonunnar hefur hún þurft að útskýra fyrir aðdáendum sínum að mikill munur sé á því að vera frá ungabarni sínu í þrjá klukkutíma eða níu eða fleiri.

Þá hefur hún einnig deilt myndum á samfélagsmiðla af því þegar hún pumpar sig með brjóstapumpu til þess að eiga brjóstamjólk í pela fyrir barn sitt þegar hún þarf sjálf að bregða af bæ.

Skjáskot/Instagram
mbl.is