Eignuðust fjórða barnið fertug

Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir.
Bjarni Benediktsson og Þóra Margrét Baldvinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Þóra Margrét Baldvinsdóttir hönnunarráðgjafi eru búin að vera saman síðan þau voru unglingar. Saga þeirra nær svo langt aftur að Bjarni var í fermingarveislu Þóru en þau voru reyndar ekki byrjuð saman þá. Þau eru nýjustu gestirnir í þættinum, Betri helmingurinn með Ása, sem eru í umsjón Ásmundar Geirs Logasonar. 

Í þættinum ræða þau um ástarsamband sitt, pólitík og barnauppeldi en hjónin eiga fjögur börn. Þegar þau voru fertug eignuðust þau fjórða barnið en 20 ár eru á milli elsta og yngsta barnsins. Fæðing fjórða barnsins gekk mjög illa og þurfti að nota sogklukku til að koma barninu í heiminn. 

„Við vorum fertug þegar við eignuðumst fjórða barnið. Vorum mikið með hana á sjúkrahúsi. Fæðingin gekk mjög illa og hún var mjög slösuð þegar hún fæddist. Það komu tímabil þar sem ég var með hana á sjúkrahúsi á hverjum degi. Þetta var mjög erfitt,“ segir Þóra. 

Þau segja frá því að dóttir þeirra hafi verið með sár á hvirflinum sem vildi ekki gróa. Dóttirin fékk sárið eftir sogklukku sem notuð var í fæðingunni. Þóra segir að þetta hafi ekki litið vel út um tíma og það hafi komið drep í sárið á tímabili. Þau hafi hinsvegar fengið góða hjálp frá sérfræðingum. Bjarni segir að þau séu mjög þakklát sérfræðingum í brunasárum því þegar þau leituðu á náðir þeirra þá hafi sárið náð að gróa og dóttir þeirra sé alheilbrigð. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is