Sagði að prinsinn myndi öfunda sig

Katrín og Vilhjálmur heimsóttu búgarð á Norður Írlandi í gær.
Katrín og Vilhjálmur heimsóttu búgarð á Norður Írlandi í gær. OWEN HUMPHREYS

Vilhjálmur Bretaprins sló á létta strengi í heimsókn hans og Katrínar hertogaynju á Norður-Írlandi í vikunni. Hjónin heimsóttu búgarð þar sem þeim gafst tækifæri til að skoða ýmis framandi dýr, þar á meðal kyrkislöngu. 

Börn þeirra Vilhjálms og Katrínar, Georg, Karlotta og Lúðvík eru mjög hrifin af framandi dýrum eins og fram kom þegar þau fengu að spjalla við sjónvarpsmanninn David Attenborough á síðasta ári. Börnin fengu þó ekki að fljóta með í ferð foreldranna, enda koma þau sjaldan með þeim í vinnuferðir á vegum krúnunnar.

„Georg verður svo fúll. Börnin munu ekki trúa því að ég hafi gert þetta,“ sagði Vilhjálmur þegar hann handlék eina slönguna. Hann hafði einnig orð á því hversu mjúk slangan væri. „Ég ætla ekki að spyrja þig hvernig þú veist að þetta er hún, við tölum um það seinna,“ sagði prinsinn þegar starfsmaður vísaði til slöngunnar í kvenkyni. 

Katrín fékk einnig að halda á tarantúlu en Karlotta dóttir þeirra er gríðarlega hrifin af köngulóm og spurði einmitt Attenborough hvort hann væri líka hrifinn af köngulóm eins og hún. 

Georg litli prins af Cambridge er mjög hrifinn af slöngum.
Georg litli prins af Cambridge er mjög hrifinn af slöngum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert