Mariah Carey allt annað en sátt við barnsföður sinn

Söngdívan Mariah Carey og fyrrverandi eiginmaður hennar, Nick Cannon, eiga …
Söngdívan Mariah Carey og fyrrverandi eiginmaður hennar, Nick Cannon, eiga saman tvíbura sem komu í heiminn árið 2011. Skjáskot / Elle

Söngkonan Mariah Carey er sögð hafa orðið alveg æf þegar barnsfaðir hennar og fyrrverandi eiginmaður, uppistandarinn Nick Cannon, ákvað að gefa tvíburunum sem þau eiga saman snjallsíma í afmælisgjöf. Sagði Cannon áhorfendum sínum söguna af því þegar hann fór og keypti símana í nýjasta spjallþættinum sem ber sama nafn og hann sjálfur.

Tvíburarnir Moroccan og Monroe fylltu fyrsta tuginn síðasta vor og hafði þau lengi langað til að eignast snjallsíma.

„Ég gaf þeim ekki síma þegar þau urðu átta ára. Ég bar virðingu fyrir skoðunum barnsmóður minnar þá og sagði að ég skyldi gefa þeim snjallsíma þegar þau yrðu tíu ára. Er það ekki annars hæfilegur aldur?“ spurði Cannon. Svar Mariuh Carey við þeirri spurningu var: „Æ, nei. Ég vil ekki að þau fari að gúgla okkur og komist þannig að ýmsu, til dæmis um öll systkinin sem þau eiga úti um allt.“ En eins og frægt er orðið á Cannon sjö börn með fjórum konum. 

Þrátt fyrir þetta svar gerði Cannon sér lítið fyrir og fór gegnt skoðunum Carey; keypti sinn snjallsímann handa hvoru barni í tíu ára afmælisgjöf og stóð þar með við orð sín.

„Við héldum geggjaða afmælisveislu, allir vinir þeirra mættu. Þetta var svo gaman. En svo var kominn tími til þess að opna gjafirnar. Ég sagðist bara ætla að skilja gjafirnar eftir og lét mig svo hverfa,“ sagði Cannon og lék atvikið með miklum tilþrifum. „Mariah hefur ekki enn fyrirgefið mér þetta,“ sagði hann svo í gríni.   

Stikluna úr spjallþættinum má sjá hér að neðan.


 

mbl.is