Með grænan safa í annarri hendi og ostasnakk í hinni

Ashley Graham verður brátt tvíburamamma.
Ashley Graham verður brátt tvíburamamma. AFP

Ofurfyrirsætan Ashley Graham tilkynnti fyrir skemmstu að hún og eiginmaður hennar, Justin Ervin, ættu von á tvíburum. Hvað sem því líður hefur Graham reynt að halda rútínu og hugað að heilbrigði sínu. Á Instagram í vikunni sýndi hún aðdáendum sínum teygjuæfingar sem hún gerir á gólfi til þess að liðka sig til ásamt því að drekka grænan safa. Enda þekkist það vel að óléttar konur stirðni upp á meðgöngu.

Tvíburabumban fer ört stækkandi, sem kann að hafa í för með sér ýmsa líkamlega kvilla fyrir Graham. Hefur hún verið ötul við að sýna aðdáendum sínum á Instagram frá meðgöngunni og hvað á daga hennar drífur á meðan fóstrin vaxa og dafna.

Jákvæð líkamsímynd

Það stingur þó í stúf við myndafærsluna að á milli þess sem hún hugar að sér með því að gera teygjuæfingar og drekka grænan safa sinnir hún ýmsum fyrirsætustörfum og borðar svo heilan poka af ostasnakki án þess að blikna. Kannski það kallist hið fullkomna jafnvægi eftir allt saman.

Ashley Graham er þekkt fyrir að vera baráttukona um jákvæða líkamsímynd og hefur hún talað fyrir mikilvægi þess að konum líði vel í eigin skinni öllum stundum. Því hefur hún verið óhrædd við að deila ýmsum myndum af sér á samfélagsmiðlum sem kunna að fanga fegurðina í ófullkomleikanum.

mbl.is