Fjölskyldan sameinaðist á 18 ára afmælinu

Stoltir foreldrar með 18 ára syni sínum.
Stoltir foreldrar með 18 ára syni sínum. Skjáskot/Instagram

Fyrrverandi leikarahjónin Reese Witherspoon og Ryan Phillippe komu saman til að halda upp á afmæli sonar síns, Deacons Reese Phillippes, um liðna helgi. 

Deacon fagnaði 18 ára afmæli sínu í faðmi kærustunnar, áhrifavaldsins Marine Degryse, og stórfjölskyldu sinnar um helgina. Hamingjuský var yfir fjölskyldunni þar sem þau sátu að snæðingi og virtist fara vel á með þeim Witherspoon og Phillippe.

„Til hamingju með 18 ára afmælið, glæsilegi, klári, hæfileikaríki og umhyggjusami sonur. Þú ert sannkallað ljós í þessum heimi og ert elskaður af öllum sem þekkja þig. Við erum heppin að vera mamma þín og pabbi,“ skrifaði Phillippe við afmæliskveðju til sonar síns sem hann deildi á Instagram ásamt myndum af Deacon þar sem hann sat á milli mömmu sinnar og pabba. „Ég myndi segja að okkur hefði tekist vel upp,“ bætti hann svo við og merkti fyrrverandi eiginkonu sína Reese Witherspoon í færsluna.

View this post on Instagram

A post shared by ryan (@ryanphillippe)

Svaraði hún skömmu seinna með því að segjast vera stolt móðir þessa fullorðna einstaklings en hún tryði því ekki hversu hratt tíminn hefði liðið. „Ég er svo stolt af litla stráknum okkar. Ég meina, fullorðna syni okkar!“

Miðað við allar færslurnar sem birtust á Instagram frá afmælisdeginum var Deacon dekraður í botn af sínum nánustu þar sem fram var reidd stór og girnileg afmæliskaka með kertum og öllu tilheyrandi. Fjölskyldan virðist mjög samheldin þrátt fyrir að það hafi slitnað upp úr hjónabandi foreldranna fyrir meira en áratug.

mbl.is