Enn einn fósturmissirinn

Whitney Port missti fóstur í þriðja sinn.
Whitney Port missti fóstur í þriðja sinn.

Sjónvarpskonan Whitney Port greindi frá því fyrr í vikunni að hún hefði misst fóstur. Er þetta þriðja fóstrið sem Port missir á síðustu þremur árum. People greinir frá.

„Mér þykir það svo sárt að segja ykkur þetta en við misstum barnið,“ ritaði Port við færslu sem hún deildi á Instagram þar sem hún tilkynnti um fósturlátið. Aðeins eru tvær vikur liðnar frá því að Port og eiginmaður hennar, Tim Rosenman, sögðu frá væntanlegum erfingja. 

Port hafði deilt áhyggjum sínum af þessari meðgöngu opinberlega en hún sagðist óttast það mjög þurfa mögulega að ganga í gegnum enn einn fósturmissinn. En hún varð vör við mikla heilsubresti strax í upphafi meðgöngunnar. 

Port tilkynnti um fósturmissinn í story á Instagram.
Port tilkynnti um fósturmissinn í story á Instagram. Skjáskot/Instagram

„Í síðustu læknisheimsókn fann læknirinn engan hjartslátt. Allt leit vel út þar til þá,“ sagði Port.

Ekki er vitað hvað veldur þessum endurteknu fósturlátum hjá Port en þau hafa öll verið snemmkomin, eða átt sér stað á fyrsta þriðjungi meðgöngutímans.

Fyrir eiga hjónin soninn Sonny, sem kom í heiminn árið 2017. 

mbl.is