Íhugar tæknifrjóvgun eftir fimm fósturlát

Jamie Oliver ásamt eiginkonu sinni, Jools Oliver.
Jamie Oliver ásamt eiginkonu sinni, Jools Oliver.

Jools Oliver er sögð íhuga tæknifrjóvgun til þess að eignast sjötta barnið. Oliver er 47 ára og hefur lengi reynt að bæta við fjölskylduna og misst fóstur fimm sinnum. 

„Ég hef rannsakað málið og finnst þetta vera það rétta fyrir konu á mínum aldri,“ sagði Jools í viðtali við Life&Soul. „En þetta er erfitt því ég á maka og þarf að virða óskir hans. Ég er ekki viss um að hann sé tilbúinn í þetta,“ sagði Jools en hún er gift Jamie Oliver matreiðslumanni.

„Kannski verð ég fegin þegar ég fer á breytingaskeiðið og sé að þetta er ekki lengur möguleiki. Þá get ég haldið áfram með líf mitt og slakað á. Vandinn er að þetta er alltaf þarna í undirmeðvitundinni.“

Jamie segist virða óskir eiginkonu sinnar. „Ég hef ekkert val í þessum málum. Ég veit að þeir segja að það þurfi tvo til að dansa tangó en ekki heima hjá mér. Hún hefur bara svo sterka móðurlega þörf og svo mikla ást að gefa. Hvað getur maður sagt?“

Jamie og Jools Oliver með þrjú af fimm börnum sínum.
Jamie og Jools Oliver með þrjú af fimm börnum sínum. skjáskot/Instagram
mbl.is