Hvernig börn breyta foreldrum sínum

Rannsóknir sýna að það eru börnin sem ráða uppeldinu en …
Rannsóknir sýna að það eru börnin sem ráða uppeldinu en ekki öfugt. Unsplash.com/Colin Maynard

Uppeldi hefur ekki bara mótandi áhrif á börn heldur getur það að eignast börn breytt foreldrum heilmikið. 

„Ég hefði aldrei trúað því að þegar dóttir mín yrði fjögurra ára þá væri hún enn að vekja okkur á nóttunni. Jafnvel yngri bróðir hennar sefur alla nóttina. Ég reyndi einu sinni að útskýra fyrir henni að ef hún er sífellt að vekja foreldra sína þá verða þeir mjög þreyttir. Hún hugsaði sig um og sagði svo að það væri í lagi því við gætum bara fengið okkur kaffi til að hressast. Þarna rifjaðist upp fyrir mér hversu mjög líf mitt hefur breyst með tilkomu barnanna,“ segir foreldri og pistlahöfundur BBC.

„Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að börnin gætu verið að hafa áhrif á okkur á mun dýpri hátt. Þá benda rannsóknir einnig til þess að okkar aðkoma að uppeldinu sé ekki eins áhrifarík og við viljum trúa.

Getur minnkað álagið á fjölskylduna

Það að skilja hversu mjög börnin móta okkur og hversu lítið við mótum þau getur fengið okkur til þess að átta okkur á því að við erum síður en svo við stjórnvölinn. En þetta getur líka létt af okkur álaginu sem við setjum á okkur sem foreldrar. Hver ákvörðun sem við tökum mun ekki breyta miklu eða hafa óafturkræf neikvæð áhrif á þau. Svo getum við betur brugðist við okkar eigin hegðum ef við skiljum upptök hennar.

Persónuleiki barna ræður för

Börn byrja að móta okkur áður en þau fæðast. Við skipuleggjum komu þeirra og aðlögum okkar líf að þeim. Sem ungbörn þá breyta þau svefnmynstri okkar og um leið skapi okkar. Vitað er að óvær börn eiga mun stressaðri foreldra sem sofa minna og halda jafnvel að þeir séu slæmir foreldrar. Þetta sé vítahringur sem getur stuðlað að auknum kvíða og þunglyndi.“

Margar rannsóknir benda til þess að persónuleiki barna ræður því hvernig uppeldinu er háttað. 

„Þetta veltur allt á persónuleika barnsins,“ segir Anne Shaffer barnasálfræðingur. „Margir foreldrar koma til okkar og halda að þar sem þessar leiðir virkuðu fyrir eldra barnið þá eigi það að virka fyrir yngra barnið. En þetta er bara allt önnur manneskja og hefur allt aðrar þarfir.

Það að einblína á það hvernig við ölum upp börn setur foreldra undir mikinn þrýsting og skapar þá tálsýn að ef við gerum allt rétt þá sé hægt að móta börnin í hamingjusama einstaklinga sem vegnar vel í lífinu.“

Að vera meðvitað í samskiptum

Rannsóknir sýna að þegar barn er krefjandi þá eiga foreldar það til að verða lokaðri og sýna meira stjórnandi hegðun. Hið gagnstæða á við þegar barn er samvinnuþýtt og auðvelt í umgengni, þá verði foreldrið ástúðlegra með tímanum. Þetta gefur til kynna að það séu eiginleikar barns sem hafa áhrif á þær uppeldisaðferðir sem verða fyrir valinu frekar en öfugt. Að gera sér grein fyrir þessu samspili getur gert foreldra meðvitaðri um hvernig þeir bregðist við í samskiptum við börn sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert