Skipti um starf til að vera meira með börnunum

Örn Árnason og Thelma Björk Jónsdóttir eiga þrjá drengi.
Örn Árnason og Thelma Björk Jónsdóttir eiga þrjá drengi.

Örn Árnason, starfsmaður hjá Kukli, segir lífið hafa breyst töluvert eftir að hann varð faðir þriggja drengja. Hann viðurkennir að það geti verið áskorun að brjótast út úr ásýnd eitraðrar karlmennsku. Hann er feginn að í dag er ekki tabú að líða illa og strákar eru með tilfinningar eins og stelpur. Stundum gráta strákar og pabbar líka.

Örn Árnason starfaði áður á sjó og síðan við kvikmyndagerð þar sem dagarnir voru langir og fjarveran frá heimilinu töluverð.

„Ég skipti um starf til að geta verið meira til staðar fyrir börnin mín, en ég og Thelma Björk Jónsdóttir konan mín eigum þrjú börn saman.“

Þegar Thelma og Örn kynntust fyrst átti hún soninn Skorra Ísleif sem nú er ellefu ára.

„Hann var á aldrinum fjögurra til fimm ára þegar ég kynntist Thelmu og á þeim tíma var ég mjög svo tilbúinn að verða pabbi. Ég gekk honum í föðurstað og svo eignuðumst við Thelma tvo syni saman, Krumma sem nú er þriggja ára og Jón Árna sem er átján mánaða.“

Vill geta bremsað þá af þegar þeir hlaupa fram úr sér

Hvernig lýsir þú því að verða pabbi?

„Það bara breytist allt. Það er mjög fallegt og náið sambandið mitt við Skorra Ísleif og gaf það mér smjörþefinn að því að verða faðir áður en við eignuðumst hina syni okkar tvo. Ég tók pabbahlutverkinu þannig að ég reyndi frá byrjun að gera mitt besta, og steig alveg inn í þetta hlutverk að vera pabbi, eins og flestir gera í kringum mig líka.

Ég held að yfir höfuð séum við pabbar á Íslandi mjög áhugasamir um hlutverk okkar og meðvitaðir um hversu miklu máli feður skipta í æsku barna sinna.“

Örn kennir sonum sínum að strákar gráta og pabbar líka.
Örn kennir sonum sínum að strákar gráta og pabbar líka.

Örn lýsir því sem mjög náttúrulegu ferli þegar hann steig inn í hlutverk fjölskylduföðurins.

„Ég er alinn upp með föður og fósturföður sem voru báðir góðir menn, en ekkert sérstaklega góðir pabbar. Þeir voru með gott hjarta en ekki til staðar fyrir mig, svo ég sæki fyrirmyndirnar mínar svolítið í andstæðu þess sem ég er alinn upp við.

Ég vil vera eins mikið til staðar fyrir börnin mín og ég get, til að geta fylgt þeim eftir, bremsað þá af þegar þeir hlaupa fram úr sér, ég vil taka þá upp þegar þeir hrasa og aðstoða við að stýra þeim réttu leiðina. Það er eitthvað sem mig vantaði sem barn og ungur maður.

Bróðir mömmu minnar var einnig kletturinn í okkar fjölskyldu og hef ég alltaf litið mikið upp til hans.“

Strákar gráta og pabbar líka

Örn trúir á mikilvægi tengsla allt frá upphafi í lífi barnanna en segir kerfið á Íslandi í dag ekki fullkomið frekar en önnur kerfi þótt það sé nokkuð gott.

„Ég var eins mikið heima og ég gat, en ætli allir pabbar fari samt ekki í gegnum það sama, að vilja vera heima en þurfa að láta enda ná saman fyrir fjölskylduna líka. Ég hefði viljað vera lengur heima en ég gerði eins vel og ég gat. Mér finnst gaman að vera í samfélagi með fleiri feður og er ég meðlimur á Pabbatips á Facebook og svo sækir maður ráð og dómgreind í sitt nánasta umhverfi.“

Hvernig er að eiga þrjá stráka?

„Ég er með fókusinn á að kenna strákunum mínum að við karlmenn megum hafa tilfinningar, við leyfum þeim að koma upp og föðmum þær. Strákar gráta og pabbar gráta. Ég viðurkenni alveg að það getur verið erfitt að brjótast alveg út úr ásýnd eitraðrar karlmennsku, en í dag er ekkert tabú að líða illa, en við þurfum að nota röddina okkar, eins og talað er um í Hjallastefnunni, sem er skóli strákanna.“

Bræðurnir eru ákaflega nánir og skemmtilegir saman.
Bræðurnir eru ákaflega nánir og skemmtilegir saman.

Hvað er átt við með því?

„Það er hægt að nota tungumálið á svo skemmtilegan hátt. Við tölum um að nota röddina og þegar maður ruglast, þá heldur maður bara áfram og lætur sér ganga betur. Það kemur nýr dagur á morgun og þá getur okkur gengið betur. Krakkar ruglast og foreldrarnir líka og það er allt í lagi. Það er svo mikilvægt að muna að fara ekki í að skamma eða setja skömm í lítil börn sem eru að reyna sitt besta. Mér finnst Hjallastefnan vera algjör guðs gjöf þar sem strákarnir fá að vera eins og þeir eru og unnið er með þá eiginleika sem hver og einn hefur.

Thelma er að kenna jóga í Hjallastefnunni, og stundum gerum við jóga heima eða ég spila á gítar og svo förum við með möntrur líka.“

Það er ekkert meira aðkallandi en börnin

Örn segir áhugavert að fylgjast með börnunum sínum og hann sjái margt líkt með sér og Krumma.

„Krummi er algjör orkubolti og amma hans benti mér á að nú væri ég kominn með einn lítinn mig í fangið sem er skemmtilegt að upplifa.“

Hann segir helstu breytinguna við að verða faðir þá að nú sé fókusinn allur á börnin og heimilið.

„Það er ekkert meira aðkallandi en börnin. Að sjálfsögðu hittir maður vinina en hjartað er þar sem fjölskyldan er hverju sinni. Svo er mjög gaman að gera alls konar hluti með börnunum. Að leika með þeim og að horfa á kvikmyndir sem dæmi.

Maður kann sem dæmi öll lögin í Sing 2, Frozen og Lion King og er farinn á fætur löngu áður en maður er vanur með þessum skemmtilegu orkuboltum sem vita fátt áhugaverðara en að vera saman og gera eitthvað gaman á daginn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert