Milla Ósk vill enga barnasturtu

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, á von á sínu fyrsta …
Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, á von á sínu fyrsta barni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, á von á sínu fyrsta barni í apríl. Hana dreymdi ekki alltaf um að verða mamma en þegar hún komst að því að hún væri með skemmd á öðrum eggjastokki og ætti hugsanlega erfitt með að eignast barn fór hana að langa í barn.

Ég hef alltaf verið mjög barngóð og haft mörg börn í kringum mig, en ég var mjög lengi að ákveða hvort mig langaði í barn yfirhöfuð. Ég á tvær stjúpdætur sem hafa gefið mér meira en ég hefði getað ímyndað mér og lengi vel fannst mér það bara nóg. Það var ekki fyrr en ég komst að því að ég væri með skemmd á öðrum eggjastokki og ætti hugsanlega erfitt með að eignast barn, að mig fór virkilega að langa það,“ segir Milla.

Milla og eiginmaður hennar Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamaður á Ríkisútvarpinu, kynntust þegar þau unnu bæði hjá Ríkisútvarpinu fyrir nokkrum árum. Þau gengu í hjónaband á síðasta ári en Einar átti tvær dætur úr fyrra hjónabandi, þær Auði sem er 15 ára og Soffíu sem er að verða 9 ára.

Hefur varla tíma til að vera ólétt

Milla vinnur nú undir Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra en áður var hún aðstoðarmaður Lilju Daggar Alfreðsdóttur í menntamálaráðuneytinu. Hún hefur því í nægu að snúast og grínast stundum með að hún hafi varla tíma til að vera ólétt.

„Fyrstu mánuði þessarar meðgöngu var allt á fullu í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar, með tilheyrandi stjórnarmyndunarviðræðum og ráðuneytisvinnu eftir kosningarnar. Svo fór ég yfir í heilbrigðisráðuneytið og þá birtist Ómíkron sem hefur sett mark sitt á síðustu vikur. En blessunarlega hefur þetta gengið ótrúlega vel og vonandi heldur það áfram.“

Hún segir að það sem hafi helst komið henni á óvart við meðgönguna sé samfélagsleg pressa á að kaupa allt milli himins og jarðar handa barninu, og svo hvað má borða, drekka og gera á meðan kona gengur með barn. „Og svo jú líka hvað það er erfitt að finna góðar óléttusokkabuxur – ég held að allir í kringum mig hafi fengið að heyra af raunum mínum við sokkabuxnakaup á síðustu mánuðum,“ segir Milla.

Bannaði barnasturtu

Það er ýmislegt sem hefur breyst á meðgöngunni hjá Millu, til dæmis er hún farin að skófla í sig skyri á hverjum degi, en áður gat hún varla borðað skyr án þess að kúgast. „Svo er ég búin að vera að borða alls konar ávexti sem hefur oft framkallað skrítna svipi á öðrum heimilismeðlimum,“ segir Milla.

Hún er frekar róleg yfir því að kaupa mikið handa nýja barninu og ætlar bara að kaupa það sem þarf þegar barnið kemur. Eins eiga þau margt gott fólk að, sem hefur gefið þeim fallega hluti og lánað þeim eitt og annað.

„Við keyptum eina franska sjóarasamfellu í léttu gríni í Frakklandi í ágúst, þegar ég var orðin ólétt en við vissum það ekki. Annars næstum ekkert. Ég hef lagt mikið upp úr því að kaupa sem minnst og harðbannaði til dæmis barnasturtuna góðu (e. babyshower), vinkonum mínum til mismikillar ánægju. Þetta er einhvers konar blanda af mótþróaröskun og hjátrú hjá mér, held ég.“

Barnið er væntanlegt um miðjan apríl en Milla segir þolinmæðina aldrei hafa verið sína sterkustu hlið. Því hefði hún ekkert á móti því að fá litla krílið aðeins fyrr í heiminn.

Mikil viðbrigði að verða stjúpmamma

Milla segir það hafa bæði verið mjög skemmtilegt og áhugarvert að verða stjúpmamma. Þau Einar fóru sér hægt fyrst um sinn og lögðu áherslu á að vanda sig eins mikið og þau gátu. „Tókum okkur góðan tíma í að sameina líf okkar og vorum búin að vera lengi saman þegar við loksins fluttum inn saman. Lásum okkur til og leituðum ráða þegar við töldum okkur þurfa. Fyrir vikið á ég tvær litlar bestu vinkonur sem gera lífið svo sannarlega betra, fyndnara og skrautlegra,“ segir Milla.

„Eins og allir foreldrar þekkja, stjúp eða ekki, þá er þetta auðvitað ekki alltaf dans á rósum. Það voru stór viðbrigði að þurfa allt í einu að hugsa um fleiri en sjálfa mig þegar ég var enn tiltölulega ung. Ég trúi því samt að opin og hreinskilin samskipti séu lykillinn og ég er líka einstaklega heppin með móður stelpnanna. Hún hefur verið algjör snilld í þessu öllu og saman berum við fullorðna fólkið mikla ábyrgð á að láta allt ganga vel svo stelpunum okkar líði sem best.“

Milla Ósk segist varla hafa haft tíma til þess að …
Milla Ósk segist varla hafa haft tíma til þess að vera ólétt vegna anna í vinnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert