Hæðist að gráti átta vikna sonarins

Anderson Cooper.
Anderson Cooper. Ljósmynd/Instagram Anderson Cooper

Fjölmiðlamaðurinn Anderson Cooper beitir óhefðbundinni uppeldisaðferð þegar hann reynir að skapa tengsl á milli sona sinna tveggja, Wyatts Morgans, 23 mánaða, og Sebastians Luke, átta vikna. 

Cooper var gestur í spjallþættinum The Late Show á sjónvarpstöðinni CNN á dögunum þar sem hann viðurkenndi fyrir þáttastjórnandanum, Stephen Colbert, að hann hefði í fyrstu haft áhyggjur af tengslamyndun bræðranna. Óttaðist hann það að Wyatt ætti erfitt með að venjast því að eignast yngra systkini. Hugsaði hann til barnæsku sinnar og hversu erfitt eldri bróðir hans, Carter Vanderbilt Cooper heitinn, átti erfitt með að aðlagast þegar hann fæddist. Fréttamiðillinn People greindi frá.

 „Ég hafði miklar áhyggjur af þessu. Bróðir minn var tveimur árum og fjórum mánuðum eldri en ég og allar myndir af okkur úr bernsku sýna hve ánægt lítið barn ég var en hann var ekki jafn ánægður með mig,“ sagði Cooper og hló. 

„Eftir að Sebastian fæddist hef ég farið öðruvísi að. Ég vildi ekki að líf Wyatts myndi breytast skyndilega. Þeir verja ekki öllum stundum saman, við Wyatt förum mikið út bara einir og svona,“ útskýrði Cooper sem hefur gert það að venju sinni og Wyatts að hæðast og hlæja að átta vikna gömul Sebastian í hvert skipti sem hann grætur.

„Ég er farinn að gera þetta með Wyatt. Við gerum grín að Sebastian,“ sagði hann og skellihló ásamt áhorfendum í sal sem virtist skemmt yfir þessu uppátæki Coopers. 

„Ég meina, ekki á slæman hátt samt. Nú er það orðið að vana að Wyatt horfir á mig þegar Sebastian fer að skæla, ég lít þá á hann í kjölfarið og við segjum saman: „Veeeeheee. Ég er lítið barn. Ég græt. Ég er að gráta,“ og hann er að taka vel í þetta,“ sagði Cooper og lék uppátækið með miklum tilþrifum svo greina mátti hæðnina. 

Cooper sagðist ætla að hætta þessu áður en synir hans yrðu altalandi svo hann færi ekki að búa til óvinasamband á milli sona sinna en þetta er heldur óhefðbundin uppeldisaðferð.

Anderson Cooper á synina tvo með sambýlismanni sínum, Benjamin Maisani, en þeir hafa verið par frá árinu 2009. Eignuðust þeir synina sína tvo með aðstoð staðgöngumóður.

mbl.is