„Mæður eru í alvöru að brenna út í foreldrahlutverkinu“

Erna Kristín Ottósdóttir er 36 ára gift þriggja barna móðir. Hún er með meistaragráðu í þroskasálfræði og hefur búið lengi erlendis ásamt eiginmanni sínum, Ara Frey Skúlasyni fótboltamanni. Þau kynntust fyrir 15 árum og eru búin að vera hjón í sjö ár. 

„Við eigum saman synina Henry Leo sem er tíu ára, Gabríel Elí átta ára og dótturina Camillu Ósk sex ára. Síðan eigum við fimm mánaða hvítan Schafer hund sem heitir Roxy,“ segir Erna.

Erna segir að þroskasálfræði nái ekki aðeins til barna og unglinga.

„Við þroskumst áfram eftir 18 ára aldur og göngum í gegnum breytingar allt lífið. Þroskasálfræðin nær því yfir öll æviskeið. Konur taka út mikinn þroska þegar þær verða mæður,“ segir Erna og hefur mikinn áhuga á að skoða það betur. Hún segir að óraunhæfar væntingar sé það erfiðasta sem mæður þurfa að fást við á hverjum degi. 

„Allt það sem okkur finnst við eiga að vera til þess að vera nógu góð mamma eða eins og mamman við hliðina á okkur. Samviskubitið sem við upplifum, þegar okkur finnst við ekki mæta þeim kröfum sem við sjálfar, umhverfið, fjölskyldan og samfélagið gera til okkar, verður til þess að konur brenna í alvöru út í móðurhlutverkinu. Mér finnst það ömurleg staða sem engin móðir á að þurfa að upplifa,“ segir Erna. 

Erna Kristínn og Ari eru búin að vera par í …
Erna Kristínn og Ari eru búin að vera par í 15 ár.

Konur setja á sig pressu

„Á meðan ég var í náminu kynnti ég mér sérstaklega mikið þroskann sem konur fara í gegnum við það að verða mæður og þær breytingar sem verða á lífinu og upplifun kvenna á þessu hlutverki. Ég komst að því að mikill meirihluti kvenna upplifir óraunhæfar væntingar bæði til sjálfra sín, barnanna og móðurhlutverksins almennt,“ segir Erna. 

Hún segir að þetta sé oft sprottið af samfélagslegum væntingum. 

„Konum finnst þær engan veginn standa undir þessum væntingum. Enda ekki skrítið þegar fólk skoðar þessar væntingar aðeins nánar. Það á allt að vera fullkomið, hvort sem það er útlitið, uppeldið, heimilið eða jafnvægið á milli vinnu og fjölskyldu, sem er ekki til. Þetta er algerlega óraunhæf glansmynd. Það er mjög sorglegt að alltof margar mæður brjóta sjálfar sig niður fyrir að standast ekki þessa ímynduðu staðla. Þeim finnast þær bregðast börnunum sínum, mökum og fjölskyldunni almennt í leiðinni. Ég hef ótal sinnum staðið sjálfa mig að svona samanburði síðustu bráðum 11 árin,“ segir Erna.

Erna Kristín Ottósdóttir
Erna Kristín Ottósdóttir

Fluttu með tveggja daga gamalt barn

„Það breyttist allt, algjörlega allt, við það að verða móðir. Fyrir það fyrsta, og klisjulegasta, þá er ástin sem maður upplifir til barnanna sinna nokkuð sem maður hélt að væri bara til í bíómyndum. Maður myndi fórna lífinu oft á dag fyrir þessi börn. Við fluttum erlendis áður en börnin fæddust og fundum vel hvað baklandið var takmarkað. Það hefur oft tekið á, sérstaklega á tímabilum með kveisubörn og eyrnabólgupésa. Þegar ég sat mánuðum saman með börnin í fanginu allan sólarhringinn án pásu. Okkur tókst líka alltaf að velja okkur „bestu“ tímana til að flytja milli landa. Í eitt skiptið gerðum við það með einn eins og hálfs árs og annan tveggja daga gamlan. Við byrjuðum lífið í nýju landi, í nýjum aðstæðum og án baklands. Ég mæli ekki sérstaklega með því. Ari hefur líka verið mjög mikið í burtu yfir árið, bæði með félagsliðunum sínum og svo landsliðinu, þannig að ég lærði ansi fljótt að gera flest allt með annarri eða hálfri hendi og með allavega eitt barn í fanginu. Við málum alls enga glansmynd af þessu lífi. Þetta hefur oft tekið rosalega mikið á,“ segir Erna.

Henry Leo, Gabriel Eli og Camilla Ósk með móður sinni …
Henry Leo, Gabriel Eli og Camilla Ósk með móður sinni Ernu Kristínu

Erna segist hafa öðlast mikla reynslu eftir að hún varð móðir. Hún hefur lært hvaða hlutir það eru sem skipta mestu máli. 

„Ég reyni að taka lífinu ekki of alvarlega og gera ekki meiri kröfur til barnanna en þau ráða við miðað við það þroskastig sem þau eru á. Ég reyni líka mikið að muna að hafa raunhæfar væntingar til sjálfrar mín, sem er nokkuð sem ég hef alls ekki átt auðvelt með,“ segir Erna. 

Gott samband á milli foreldra og barna

„Ég legg rosalega mikla áherslu á gott samband við börnin mín og að viðhalda góðum tengslum, líka þegar eitthvað gengur ekki alveg eins og ég myndi helst vilja. Ég reyni að muna að þau eru að gera eins vel og þau geta. Það er mitt hlutverk að leiðbeina þeim þegar þess þarf. Það er ég sem er fullorðin og hef reynsluna. Við leggjum líka mikla áherslu á góðmennsku, því það að vera góður við náungann og skilja það að allir eigi jafnan tilverurétt. Þetta er eitthvað sem okkur finnst oft vanta og mér finnst vanta að leggja meiri áherslu á svoleiðis hluti. Ég varð mjög glöð að sjá núna þegar skólarnir kláruðust á Íslandi, að allavega einhverjir skólar eru farnir að verðlauna börnin fyrir allskonar mannkosti í staðinn fyrir að verðlauna bara námsárangur. Það finnst mér frábært skref í rétta átt,“ segir Erna.

Camilla Ósk leikur sér við hundinn Roxy
Camilla Ósk leikur sér við hundinn Roxy

„Þegar ég var í náminu mínu fylltist ég löngun til þess að verða hluti af lausninni á því vandamáli sem óraunhæfar væntingar til foreldra eru. Sérstaklega mæðra. Markmiðin með Super Real Mama (@superrealmama), eru meðal annars að deila efni sem foreldrar geta tengt við. Ég stofnaði þennan reikning á Instagram til að fólk sjái að það er alls ekki eitt. Það getur verið svo ótrúlega einmanalegt að ganga í gegnum erfitt tímabil í barnauppeldi og finnast maður vera aleinn í heiminum,“ segir Erna.

Glansmyndir herja á alla 

„Nú er ég búin að ala upp börn í þremur mismunandi löndum í Evrópu, ásamt því að vera með annan fótinn í því fjórða og fimmta. Foreldar í öllum þessum löndum tengja mjög sterkt við þessa upplifun. Það er óháð menningarbakgrunni, ríkisfangi og fjárhagsstöðu. Draumurinn er að hjálpa foreldrum að sjá í gegnum glansmyndirnar og slaka á kröfunum til þess að geta notið foreldrahlutverksins og notið barnanna sinna betur. Það sýnir sig svo ótrúlega sterkt í rannsóknum að kröfurnar sem við setjum á okkur spilla fyrir okkur að njóta tímans sem við höfum með börnunum okkar og að skapa minningar með þeim. Fyrir utan það að ýta undir kvíða og þunglyndi meðal mæðra,“ segir Erna um glansímyndina.

Erna og krakkarnir
Erna og krakkarnir

„Svo er ég með heilu stílabækurnar fullar af alls konar hugmyndum, bæði af efni sem mig langar til að deila og skrifa um og rannsóknum sem mig langar til þess að vinna að. Það er líka ákveðin þjónusta sem mig langar til þess að veita og það er svo margt spennandi í gangi. Það er svo mikið að gerast í hausnum á mér að suma daga er ég að springa og veit bara alls ekki hvar ég á að byrja,“ segir hún, spennt fyrir komandi tímum. Hún valdi Instagram sem miðil því hann er í mestu uppáhaldi hjá henni. 

„Ég er mikil ljósmyndakona, elska bæði að skoða og taka fallegar og skemmtilegar myndir. Það eru margir reikningar að gera frábæra hluti með til dæmis alls konar fræðsluefni, sem mér finnst vega örlítið upp á móti dökku hliðunum, sem eru þá aðallega óraunhæfar glansmyndir af lífinu,“ segir Erna.

Krakkarnir hvetja pabba sinn áfram á vellinum
Krakkarnir hvetja pabba sinn áfram á vellinum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert