Ýlfraði í allar áttir

Bruce Willis.
Bruce Willis. AFP

Leikarinn Bruce Willis settist í helgan stein fyrir skömmu eftir að hafa opnað sig um sjúkdóminn málstol sem hann glímir við. Willis mun því ekki fara með fleiri aðalhlutverk í kvikmyndum framar en í stað þess nýtur hann lífsins með stórfjölskyldu sinni.

Eiginkona Willis, Emma Heming Willis, er dugleg við að gefa aðdáendum Willis-fjölskyldunnar innsýn í hversdaglegt líf hennar á Instagram. Nýverið deildi hún fallegu myndskeiði í sögu þar sem sjá mátti Willis og yngstu dóttur hans, Evelyn, 8 ára, ýlfra í kór við heimilishundinn sem er af tegundinni Siberian Husky. Fréttamiðillinn People greindi frá.

„Áhrifamikið væl allt um kring,“ skrifaði Emma við myndskeiðið sem fangaði yndislegt augnablik feðginanna. 

Veikindin reynst fjölskyldunni erfið

Willis hefur átt erfitt með að tala, skrifa og lesa og skilja allt sem honum er sagt síðustu mánuði en fjölskyldan hefur staðið þétt við hlið hans í gegnum þessa erfiðu tíma.

Vegna veikinda Willis eru augnablik sem þessi dýrmætari en allt annað fyrir fjölskylduna, enda eru það litlu hlutirnir í lífinu sem oft geta skipt sköpum.

Bruce Willis og Emma Heming Willis giftu sig árið 2009 og eiga saman dæturnar tvær: Mabel Ray, 10 ára, og Evelyn, 8 ára. Áður var Willis kvæntur leikkonunni Demi Moore til fjölda ára og eignaðist hann með henni þrjú börn; Rumer, 33 ára, Scout, 30 ára og Tallulah, 28 ára. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert