Hætti með DiCaprio því hann vildi eignast börn

Leonardo DiCaprio og Camila Morrone hættu saman fyrir skemmstu.
Leonardo DiCaprio og Camila Morrone hættu saman fyrir skemmstu. Samsett mynd

Mikið fjölmiðlafár var fyrir nokkru þegar Leonardo DiCaprio og Camila Morrone hættu saman. Margir vildu meina að DiCaprio hafði misst áhugann eftir að hún varð 25 ára en hann er þekktur fyrir að eiga aldrei kærustu eldri en það.

Nú segja heimildarmenn að samband þeirra hafi verið komið á endastöð þegar DiCaprio vildi ganga skrefinu lengra og eignast með henni börn. Morrone hafi hins vegar ekki verið tilbúin í að taka það skref með honum og ákvað því að binda endi á samband þeirra.

„Það var Camila sem hætti með Leo því hann vildi eignast börn en hún vildi frekar feta sig á framabrautinni. Hann er á þeim stað í lífinu þar sem hann langar til þess að stofna til fjölskyldu. Camila er búin að leggja hart að sér til að koma sér á framfæri sem leikkona en DiCaprio hefur ekkert aðstoðað hana. Hún er svekktust yfir því. Þau voru saman í fjögur ár og hann hefði getað kynnt hana fyrir fólki eða sett hana í myndirnar sínar. Hana hefur alltaf langað til að slá í gegn í Hollywood. Hann vildi það ekki því hann vill halda henni heima og eignast börn,“ segir vinur Morrone í viðtali við The Sun.

Nú er Leonardo DiCaprio sagður vera í sambandi við Gigi Hadid en hún á nú þegar eina dóttur. 

Leonardo DiCaprio er sagður tilbúinn til að stofna fjölskyldu.
Leonardo DiCaprio er sagður tilbúinn til að stofna fjölskyldu. AFP
mbl.is