Fór sárkvalin heim af spítalanum með gat á mænuhimnunni

Báðir drengir Sirrýjar voru teknir með keisara.
Báðir drengir Sirrýjar voru teknir með keisara.

Fyrir rúmum þremur árum mætti hárgreiðslukonan Sirrý Huld Friðjónsdóttir upp á spítala til að eignast sitt fyrsta barn með kærasta sínum, Inga Guðna Garðarssyni. Fæðingin gekk ekki áfallalaust fyrir sig, en nokkrum dögum síðar var Sirrý mætt aftur upp á spítala, sárkvalin með gat á mænuhimnunni. 

Í dag eru Sirrý og Ingi að stíga sín fyrstu skref sem vísitölufjölskylda, en þau tóku á móti yngri syni sínum í maí síðastliðnum. Sirrý segir síðustu mánuði hafa einkennst af hlátri og gráti til skiptis, en hún er þó afar hamingjusöm með drengina sína tvo og myndi endurtaka allt og meira en það fyrir þá. Sirrý leyfði okkur að skyggnast inn í fjölskyldulíf þeirra og sagði frá átakanlegum atburðum síðustu ára á einlægan hátt. 

Óléttan óvænt en kærkomin

Sirrý er menntuð hárgreiðslukona og starfaði við það í 11 ár, en í dag er hún í fæðingarorlofi með yngri son sinn. Hún er mikill adrenalínfíkill, en áður en hún varð móðir þeyttist hún um á mótorhjólum og kleif hvert fjallið á eftir öðru. Hún segir þann lífsstíl þó tímabundið hafa farið í pásu. 

Sirrý hefur skipt fjallabrölti og mótorhjólaferðum út fyrir göngutúra um …
Sirrý hefur skipt fjallabrölti og mótorhjólaferðum út fyrir göngutúra um IKEA og í kringum Urriðavatn í bili.

Þegar Sirrý varð fyrst ólétt segir hún það ekki beint hafa verið í plönum hennar og Inga. „Þegar við Ingi höfðum verið saman í nokkur ár, búin að kaupa íbúð saman og ferðast um heiminn, þá vissi ég að hann yrði góður barnsfaðir. Þegar ég komst að því að ég væri ólétt þá var ég innst inni tilbúin og óléttan því kærkomin,“ segir Sirrý. 

„Ég varð ólétt á sama tíma og besta vinkona mín, en þremur mánuðum áður hafði systir mín líka komist að því að hún væri ólétt. Það voru því virkilega spennandi og skemmtilegir tímar framundan og mikil tilhlökkun að fá að vera samferða bæði vinkonu minni og systur í gegnum meðgönguna,“ útskýrir Sirrý. 

Heimurinn hrundi á sjöttu viku

Sirrý fór í snemmsónar þegar hún var komin sex vikur á leið. „Allt leit vel út og mikil hamingja tók við næstu daga. Heimurinn hrundi svo nokkrum dögum síðar þegar við komumst að því að ég hefði misst fóstrið. Þetta var hræðileg upplifun og mikið áfall fyrir okkur bæði þar sem við fundum hvað við vorum tilbúin fyrir þennan nýja og spennandi kafla lífi okkar,“ segir Sirrý. 

Þrátt fyrir að barneignir hafi ekki verið í plönunum hjá Sirrý og Inga ákváðu þau að reyna aftur. „Við gerðum í raun ekki ráð fyrir öðru en að ég yrði ólétt fljótt þar sem það hafði nú þegar gerst einu sinni og þá alveg óvart. En það var hins vegar ekki raunin.“

Við tóku krefjandi ár og mörg neikvæð þungunarpróf. „Að það hafi tekið eitt ár að verða ólétt er kannski ekkert svo langur tími, en í ljósi þess að við höfðum stuttu áður farið í gegnum fósturmissi fylgdi þessum tíma mikil hræðsla og álag á sálina. Það sem gerði þetta svo enn erfiðara voru allar spurningarnar og ummælin hvort ég ætlaði ekki að vera samferða systur minni og vinkonu, sem setti enn meiri pressu á okkur,“ segir Sirrý. 

Sirrý segir þetta gott dæmi um að aðgát þurfi að hafa þegar kemur að spurningum varðandi barneignir fólks. 

Gleðifréttir komu ári síðar

Í desember 2018 komst Sirrý að því að hún væri aftur ólétt. „Um leið og seinni línan birtist hljóp ég fram með buxurnar á hælunum til að deila gleðifréttunum með Inga. Litlu fagnaðarlætin sem það voru,“ segir Sirrý. 

Ingi og Sirrý eiga tvo syni og hundinn Polly sem …
Ingi og Sirrý eiga tvo syni og hundinn Polly sem að sögn Sirrýjar lifði draumalífi hundsins þar til bræður hennar komu í heiminn.

Aðspurð segir Sirrý meðgönguna hafa gengið vel enda hafi henni liðið ágætlega allan tímann. „Á 38. viku var ég send í vaxtarsónar, en þá kom í ljós að ég var komin með meðgöngueitrun og mældist með lítið legvatn. Eftir að þessar upplýsingar komu í ljós var tekin ákvörðun um gangsetningu,“ útskýrir hún. 

Gangsetningin hafði lítil áhrif á Sirrý og engin merki voru um að fæðing væri farin í gang. „Það endaði því þannig að mér var gefið dripp og fljótlega eftir það komu miklir samdrættir og hríðar. Þegar samdrættirnir og hríðarnar höfðu staðið yfir í nokkra klukkutíma fékk ég svo mænudeyfingu,“ útskýrir Sirrý. 

Stungin sex sinnum á 40 mínútum

Sirrý hafði heyrt af nokkrum reynslusögum um mænudeyfingu, en atburðarásin var eitthvað sem hún hefði aldrei geta búið sig undir. „Þeir sem voru viðstaddir inni í herberginu lýstu þessum atburði eins og atriði úr hryllingsmynd. Svæfingalæknirinn sem stakk mig var greinilega ekki í stakk búinn til þess að framkvæma þessa aðgerð, en hann sýndi öll möguleg einkenni þreytu,“ segir Sirrý.

„Ég var stungin sex sinnum og stóðu stungutilraunirnar yfir í um 40 mínútur. Þessi fjöldi stungna átti eftir að hafa miklar afleiðingar í för með sér,“ segir hún. Þegar verkirnir höfðu minnkað var ákveðið að Sirrý færi í keisara, sem hún segir hafa gengið vel. 

Með gat á mænuhimnunni

Daginn eftir keisarann ákvað Sirrý að standa upp þar sem henni leið vel, en byrjaði þá að upplifa mikinn höfuðverk ásamt sjón- og heyrnartruflunum vegna verkja. „Það var farið með mig beint upp í rúm og mér fór að líða betur. Svæfingalæknirinn kom svo og útskýrði fyrir mér að ég væri með gat á mænuhimnunni og að mænuvökvi væri að leka út, en það voru afleiðingar mænudeyfingarinnar. Til að stöðva lekann og þar með verkina varð ég að vera liggjandi,“ útskýrir hún. 

Sirrý segir það hafa tekið mikið á, bæði andlega og líkamlega, að vera orðin rúmliggjandi þar sem henni þótti keisarinn ganga svo vel. Af þeim sökum gat hún ekki setið með nýfæddan son sinn í fanginu og þurfti hann að liggja þvert yfir bringu hennar til þess að fá að drekka.

„Ég fékk þrisvar sinnum lyf í æð sem átti að hjálpa við að loka gatinu, en hver skammtur tók 10 mínútur og á meðan leið mér eins og ég væri á tíunda glasi á þjóðhátíð. Herbergið snerist, hugurinn var sljór og ég átti erfitt með að tala eðlilega,“ segir Sirrý.

Þegar Sirrý fékk þriðja skammtinn var henni tjáð að ef hann myndi ekki virka þyrfti hún að fara í blóðbót seinna um daginn. „Það hafði í för með sér að við myndum missa réttinn á heimaljósu þar sem við værum búin að vera of lengi á spítalanum í kjölfar fæðingar,“ segir Sirrý sem furðar sig á því, enda teldi hún enn meiri ástæðu til að fá ljósmóður heim þar sem hún hefði verið alveg óhæf til að sinna barninu á spítalanum, en hún gat hvorki gefið honum almennilega á brjóst né skipt á honum. 

Kvalafull heimferð

„Daginn eftir taldi ég mig vera orðna nógu góða til að dröslast heim. Við settum guttann í heimferðarsettið, tókum mynd og fórum heim. Ég fann samt höfuðverkinn koma aftur, en ákvað að fara heim og svo gæti ég bara komið aftur, því þá fengi ég allavega heimaljósu,“ segir Sirrý. 

Heimferðin var kvalafull, en þegar heim var komið lagðist Sirrý beint upp í sófa. „Ég hágrét því mig langaði svo að fylgja barninu okkar inn í herbergi, leggja hann í vögguna sína, klæða hann úr og skipta á honum. Brjóstin mín voru stútfull og systir mín þurfti að pumpa mig á meðan ég lá á hlið,“ segir Sirrý.

Daginn eftir var Sirrý mætt aftur upp á spítala, en hún þurfti að fara upp á skurðstofu til að laga gatið. „Blóðbót virkar þannig að blóð er tekið úr þér og því síðan sprautað þar sem gatið er svo það lokist þegar blóðið storknar,“ útskýrir Sirrý. 

Svitnaði og skalf af stressi í seinni fæðingu

Sirrý segir reynslu sína án efa hafa haft áhrif á seinni fæðingu sína, en hún tók á móti yngri syni sínum í maí síðastliðnum. Hún segir meðgönguna hafa tekið á, enda hafi yngri strákurinn verið stærri en sá eldri og hún með mikinn bjúg.

Sirrý var skráð í keisara í byrjun mars, en þar sem drengurinn var ekki búinn að snúa sér varð ekkert úr þeim keisara. Fljótlega mældist svo eggjahvítuprótein í þvagi Sirrýjar og fór hún því í gangsetningu 9. maí. 

„Ég vildi vissulega ganga úr skugga um að sá sem myndi mænudeyfa mig fyrir keisarann vissi 100% hvað hann væri að gera og væri með mikla reynslu. Ólíkt fyrri keisaranum þá svitnaði ég og skalf af stressi þegar ég var sprautuð, en það þarf mikið til að koma mér úr jafnvægi,“ segir Sirrý. 

Sirrý og Ingi á leiðinni heim af spítalanum með yngri …
Sirrý og Ingi á leiðinni heim af spítalanum með yngri son þeirra.

Hefði viljað klóna sig fyrstu vikurnar

Sirrý segir fyrstu vikurnar eftir fæðingu yngri sonar síns hafa verið erfiðar. Hún þurfti að bíða í sex vikur með að halda á eldri stráknum sínum sem þótti erfitt að vera orðinn stóri bróðir. „Við reyndum að gera allt til að aðstoða hann í gegnum þessar miklu breytingar og til að halda rútínunni hans. Ef ég hefði getað klónað mig fyrstu vikurnar hefði ég gert það,“ segir Sirrý.

Sirrý Huld Friðjónsdóttir og Ingi Guðni Garðarsson og synir þeirra …
Sirrý Huld Friðjónsdóttir og Ingi Guðni Garðarsson og synir þeirra tveir.

„En þegar sex vikur voru liðnar fór þetta allt að koma. Þá var ég orðin nógu góð til að lyfta eldri stráknum og hreyfa mig að vild. Sá litli var farinn að sofa betur og sá eldri farinn að líkjast sjálfum sér aftur, en hann breyttist í lítinn óútreiknanlegan varg fyrstu vikurnar, sem er samt svo fullkomlega eðlilegt,“ segir Sirrý. 

„Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tvö heilbrigð börn …
„Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tvö heilbrigð börn í heiminn og myndi gera þetta allt aftur fyrir þá og meira.“

Rútínan mikilvæg

„Okkur líður best í rútínu. Þegar rútínan okkar er í lagi þá gengur allt frekar smurt fyrir sig. Ég tek sérstaklega eftir því að þá er oft auðveldara að takast á við ný vandamál sem koma upp hjá þessum litlu tilfinningaverum okkar,“ segir Sirrý. Aðspurð segir hún mikilvægt að uppeldið fari eftir hverju barni, enda séum við öll ólík og mikilvægt að finna taktinn með hverju barni.

„Ég hef fylgst með Kristínu Maríellu á Instagram og finnst hún oft koma með góða punkta, sérstaklega eftir að eldri strákurinn minn eignaðist lítinn bróður og mikið af tilfinningum í gangi sem er stundum svo erfitt að skilja. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir, en þá snýst þetta um að vera til staðar og leyfa þeim að losa allar þessar tilfinningar, fá fullt af knúsum og minna þá á að það sé í lagi að gráta. Mamma og pabbi eru alltaf til staðar fyrir knús og fullt af ást,“ segir Sirrý. 

„Besta uppeldisráðið er að gera það sem þér finnst henta …
„Besta uppeldisráðið er að gera það sem þér finnst henta þínu barni best og ekki taka það inn á þig ef eitthvað virkar ekki. Það eru til svo margar leiðir til þess að ala upp barn.“
mbl.is