Átta ára sonurinn sefur enn uppi í hjá mömmu

Leikkonan Christina Ricci.
Leikkonan Christina Ricci. AFP

Leikkonan Christina Ricci segir að níu mánaða dóttir hennar sé farin að sofa í sínu eigin rúmi en átta ára sonur hennar sefur enn uppi í hjá henni. Hún veit því vel að engin tvö börn eru eins.

Ricci á tvö börn, en fyrra barnið á hún með fyrrverandi unnusta sínum, James Heerdegen. Ricci sótti um skilnað í byrjun júlí 2020 eftir að lögreglan var kölluð á heimili þeirra vegna tilkynningar um heimilisofbeldi. 

Dóttir Ricci kom í heiminn í desember 2021, en hana á Ricci með núverandi eiginmanni sínum, Mark Hampton.

Svefnþjálfunin gekk betur með seinna barnið

„Að ég skuli geta lagt dóttur mína niður í rúmið sitt og hún fer bara að sofa þegar átta ára sonur minn sefur enn uppi í er ótrúlegt,“ sagði Ricci í samtali við People. Hún segir svefnþjálfun sonar síns ekki hafa gengið vel þegar hann var yngri. „Hann öskraði þar til hann varð hás og barði höfðinu í rúmið sitt,“ útskýrði Ricci. 

Hún segir upplifunina hafa verið allt aðra með dóttur sína. „Hún vældi í um það bil sjö mínútur og lagðist síðan niður, greip litla einhyrninginn sinn og fór að sofa,“ sagði Ricci. „Það var eins og hún væri tilbúin.“

Hjálpsamur með litlu systur

Ricci segir fjölskyldulífið ganga afar vel. „Það hefur ekki verið mikið um afbrýðisemi, sem var mikill léttir,“ útskýrir hún. Ricci segir son sinn afar hjálpsaman með litlu systur, og að hún borgi honum fyrir að fylgjast með systur sinni í 20 mínútur í leikgrindinni sinni svo hún geti sinnt húsverkunum. 

mbl.is