Sáttari við líkamann á seinni meðgöngunni

Kylie Jenner segist rólegri yfir útliti sínu eftir fæðingu sonar …
Kylie Jenner segist rólegri yfir útliti sínu eftir fæðingu sonar síns í febrúar. Skjáskot/Instagram

Athafnakonan og raunveruleikastjarnan Kylie Jenner opnaði sig á dögunum um muninn á meðgöngu og fæðingu barnanna sinna tveggja, en hún eignaðist sitt annað barn í febrúar með kærasta sínum, rapparanum Travis Scott.

Fyrir eiga Kylie og Travis þriggja ára dóttur, Stormi. Í þáttunum The Kardashians segir Kylie fæðingar barnanna sinna hafa verið gjörólíkar og að í fæðingu sonar síns í byrjun árs hafi hún verið minna stressuð og meira til staðar. 

Erfiðara andlega

Kylie talaði um líkamsbreytingarnar sem fylgja meðgöngu, en það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að Kardashian-Jenner fjölskyldan er ansi upptekin að útliti sínu. „Þetta er svo áhugavert. Mér líður eins og að það sé meira áfall að sjá líkama þinn breytast svona mikið á fyrstu meðgöngunni. Í þetta skiptið líður mér alls ekki þannig,“ sagði Kylie. 

„Kannski er þetta erfiðara andlega, en það er ekki jafn erfitt að sjá líkamann breytast. Ég treysti bara ferlinu. Ég er miklu minna stressuð yfir þyngd minni og hvernig ég lít út,“ bætti Kylie við, en í sumar opnaði hún sig um fæðingarþunglyndi sem hún upplifði.

Kardashian-Jenner fjölskyldan stækkar hratt

Litli drengurinn er ellefta barnabarn Kris Jenner, en nú eru barnabörnin orðin tólf talsins þar sem Khloé Kardashian og Tristan Thompson tóku á móti sínu öðru barni saman á dögunum. 

Kardashian-Jenner fjölskyldan stækkar því hratt og er Kris hæstánægð með öll börnin og barnabörnin sín. Kylie á sjálf fimm systkini, en þau eiga nú öll börn nema Kendall Jenner.

mbl.is