„Ég er sjálf fósturbarn“

Soffía Ellertsdóttir er sérfræðingur í fjölskyldumálum en hún er sjálf …
Soffía Ellertsdóttir er sérfræðingur í fjölskyldumálum en hún er sjálf fósturbarn. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölskyldufræðingurinn Soffía Ellertsdóttir er fjögurra barna móðir sem hefur tekið um 20 börn í tímabundið eða varanlegt fóstur ásamt eiginmanni sínum, Tómasi Tómassyni.

Soffía segir að í dag sé leitast við að undirbúa fósturforeldra, fósturbarn og foreldra þess eftir því sem unnt er, áður en barnið fer í fóstur. Fyrirkomulagið er gott þegar vel tekst til en mikilvægt sé að hlúa vel að öllum sem að koma.

„Ég sjálf er fósturbarn. Þegar ég var sex ára lést mamma mín, þá einungis 32 ára að aldri. Pabbi minn, sem var mállaus og heyrnarlaus, var ekki talinn ráða við að vera einstæður faðir með þrjú börn. Þannig að ég fór í fóstur til móðursystur minnar sem þá var að nálgast fimmtugt og hafði alið upp sex börn. Albróðir minn fór til annarrar móðursystur og hálfbróðir minn sem er eldri fór til pabba síns, þannig að öll fjölskyldan tvístraðist. Við misstum í raun ekki bara mömmu okkar, við misstum pabba okkar og hvert annað. Pabbi missti ekki bara konuna sína heldur missti hann líka börnin sín. En þó ég hafi misst mína upprunafjölskyldu þá eignaðist ég nýja fjölskyldu og ég lít á fóstursystkini mín sem mín systkini þó við séum í raun systkinabörn,“ segir Soffía um sína reynslu.

„Í dag er alltaf leitast við að systkini séu höfð saman ef það er mögulegt en stundum getur það verið of krefjandi fyrir fósturfjölskylduna að taka að sér fleiri en eitt barn, til dæmis ef barn er með mikinn hegðunarvanda eða önnur vandamál,“ segir Soffía.

Sorg og missir fylgir því að setja barn í fóstur

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var en hvað hefur breyst á þessum tíma?

„Á þessum tíma var ekkert verið að pæla í eftirfylgni eða stuðningi, hvorki fyrir börnin, foreldra né fósturforeldra. Ef börnum var komið fyrir á öruggu heimili, þar sem þau fengu í sig og á, þá var það talið gott. Í dag þurfa þeir sem ætla að gerast fósturforeldrar að fara á námskeið, sem haldið er á vegum Barna– og fjölskyldustofu (áður Barnaverndarstofu). Einnig eru haldin sérhæfð námskeið fyrir fósturforeldra sem eru með börn innan fjölskyldunnar í fóstri,“ segir Soffía. Hún og Hildur Sveinsdóttir, félagsráðgjafi sem starfaði á Barnaverndarstofu, héldu fyrsta Foster Pride námskeiðið á Íslandi árið 2004. Námskeiðið á sér fyrirmynd erlendis frá.

Soffía segir að það þurfi að líta í mörg horn …
Soffía segir að það þurfi að líta í mörg horn þegar fósturforeldrar taka við fósturbarni. mbl.is/Árni Sæberg

Það þarf í mörg horn að líta þegar fósturforeldrar taka við fósturbarni. Mikilvægt er að undirbúa sig vel.

„Fósturbarn, sem er að koma í fyrsta skiptið til fósturfjölskyldu sem það þekkir ekki neitt, getur verið mjög óöruggt og alls konar tilfinningar geta verið að brjótast um hjá barninu. Barnið getur virkað lokað og jafnvel neikvætt eða það getur virkað spennt og kátt. Þessi fyrstu viðbrögð barnsins segja ekkert endilega til um hvernig barninu líður í raun og veru. Líklegast er það mjög óöruggt og hegðunin bara ein birtingarmynd óöryggisins. Fósturforeldrar þurfa líka að geta sett sig í spor foreldra fósturbarnsins. Það er mikil sorg og missir sem fylgir því að þurfa að setja barnið sitt í fóstur eða að þurfa að fara í fóstur. Þó er ekki sjálfgefið að fósturbarnið eða foreldrarnir geri sér grein fyrir því að þau séu að upplifa sorg. Þau eru bara allt í einu þátttakendur í ferli sem þau hafa enga stjórn á og bregðast kannski við með reiði, örvæntingu eða sektarkennd,“ segir Soffía.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að barn eigi að fara í fóstur er áhersla lögð á að hlusta á óskir barnanna sjálfra og reynt að koma til móts við þær eftir því sem hægt er. Ef barnið hefur til dæmis stundað ákveðna íþrótt og óskar eftir því að halda því áfram eða ef barnið óskar eftir því að vera áfram í sama skóla þá er reynt að haga því þannig að barnið geti haldið því áfram.

Ákveðinn línudans

Öll börn eru einstök. Því er engin ein töfraaðferð til að tengjast þeim. Sjálf segist Soffía enn lenda í krefjandi aðstæðum þrátt fyrir að vera með gríðarlega mikla reynslu og vinna sem sérfræðingur á sviði fósturfjölskyldna. „En þegar nýtt fósturbarn kemur í fjölskylduna reyni ég að vera vakandi yfir því hvaða þarfir þetta tiltekna barn hefur og koma til móts við þær þarfir eftir því sem við á. Þetta getur verið áhrifarík aðferð til að tengjast en er alltaf ákveðinn línudans og krefst oft mikillar þolinmæði,“ segir Soffía.

„Það er líka rosalega mikilvægt að fósturforeldrar fái mikinn stuðning og handleiðslu frá byrjun. Í raun og veru ættu fósturforeldrar að geta farið reglulega í handleiðslu til þess að getað speglað sig við hlutlaust fagfólk. Þetta eru málefni sem þú ferð ekki og ræðir við vinkonu eða ættingja.“

Fóstur flokkast í varanlegt fóstur, tímabundið fóstur og styrkt fóstur. Það er mikill skortur á fósturfjölskyldum og bendir Soffía til dæmis á að árið 2020 hafi komið 165 beiðnir um fósturfjölskyldur en aðeins hafi borist 59 umsóknir um að gerast fósturforeldrar.

Fósturbörnin órjúfanlegur hluti af fjölskyldunni

Þegar Soffía gerðist fósturforeldri sjálf varð það fyrir hálfgerða tilviljun. Síðan þá hefur málefnið verið henni afar hugleikið.

„Við bjuggum í sveit og á sumrin vorum við með sumardvöl fyrir börn. Ein áramótin var haft samband við okkur og við beðin um að taka systur, 12 og 14 ára. Við settumst niður og ræddum þetta og svo ákváðum við að slá til. Þær voru hjá okkur í eitt og hálft til tvö ár. Þær eru algjörlega orðnar hluti af okkar fjölskyldu núna og börnin þeirra kalla okkur ömmu og afa. Þetta finnst mér stórkostlega merkilegt og magnað. Það er eins og aldur eða tími skipti ekki máli, heldur bara hvernig tengslin verða,“ segir Soffía og bætir við að börnin hennar líti á þær sem systur sínar.

Hjónin eiga fjögur börn og voru fósturbörnin í tímabundnu fóstri oft á tíðum á svipuðum aldri og þeirra eigin börn.

„Það sem við höfum alltaf gert er að við höfum sest niður og rætt við þau og sagt þeim frá þessu. Ég var oft með samviskubit út af börnunum mínum. Oft komu mjög krefjandi einstaklingar til okkar. Börnin mín eru öll orðin fullorðin núna. Þau segja að stundum hafi þetta verið hundfúlt, eins og er oft á milli systkina, en oftast var þetta mjög gaman. Við bjuggum í sveit og þau voru bara kát með að fá fleiri leikfélaga. Þetta var ekki nærri því eins íþyngjandi og ég hélt. Það var rosalega gott að heyra það,“ segir Soffía.

„Góðu stundirnar eru margar og það geta verið lítil atriði. …
„Góðu stundirnar eru margar og það geta verið lítil atriði. Þegar maður sér að barninu líður vel, þegar barnið er farið að vera öruggt og farið að leita til manns og treystir manni. Það er góð tilfinning. Það að finna að maður er að gefa þessu barni eitthvað, það er alveg ótrúlega gott.“ mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að börn Soffíu og Tómasar horfi til baka og líti á fjölbreytt fjölskyldulífið með jákvæðum augum, þarf að hafa ýmislegt í huga þegar börn eru á heimilinu fyrir. Soffía bendir á að þegar nýtt barn kemur í fjölskylduna verður alltaf ákveðið ójafnvægi til að byrja með. Fósturforeldrar eru oft uppteknir af fósturbarninu sem gerir það að verkum að börnin sem fyrir eru á heimilinu fá ekki eins mikla athygli frá foreldrunum og áður.

„Þetta er atriði sem við erum farin að verða mun meðvitaðri um seinni árin en áður var. Börn fósturforeldra gegna ofsalega mikilvæga hlutverki. Fósturbörnin leita oft til okkar eigin barna. Oft trúa þau þeim fyrir einhverju sem þau eru ekki tilbúin að trúa okkur fósturforeldrunum fyrir. Þess vegna þarf maður að vera vakandi fyrir því að börnin okkar séu ekki að burðast með einhverja vitneskju sem þau hafa kannski ekki þroska til að vinna úr hjálparlaust.“

Góð samskipti við kynforeldra skipta máli

Fólk sem sækist eftir því að verða fósturforeldrar er alls konar fólk. Sumt fólk óskar sérstaklega eftir barni í varanlegt fóstur en aðrir óska eftir því að taka barn eða börn í tímabundið fóstur. Sumir eru opnir fyrir bæði varanlegu og tímabundnu fóstri. Þegar um tímabundið fóstur er að ræða taka fósturforeldrar að sér að vinna ákveðið verkefni fyrir barnavernd og í raun samfélagið í heild sinni. Börnin koma einnig úr ýmsum aðstæðum. Oft hafa þau verið vanrækt og eru málin tengd neyslu en einnig eru dæmi um að foreldrar veikist eða börnin orðið munaðarlaus.

Tímabundið fóstur getur verið í allt að tvö ár og er markmiðið að barnið fari aftur heim til sín. Þrátt fyrir aðeins stuttan tíma segir Soffía vel hægt að mynda góð tengsl við fósturbörnin.

„Barn, sem er búið að vera í tímabundnu fóstri í eitt til tvö ár, getur svo sannarlega verið búið að mynda góð tengsl við fósturfjölskylduna og þeim tengslum er alveg hægt að viðhalda og það er bara af hinu góða. Það fer eftir aldri barnsins en það er ekki óalgengt að þegar barn fer af fósturheimili og aftur til foreldra að fósturfjölskyldan verði stuðningsforeldrar, barnið kemur þá aðra hverja helgi eða eina helgi í mánuði. Þannig verður ekki algert rof á tengslum og bæði fósturfjölskyldan og barnið fá færi á að aðlagast nýjum aðstæðum.“

Í varanlegu fóstri er markmiðið að barnið eignist nýja fjölskyldu og fari ekki aftur til kynforeldra. Þá verður umgengni kynforeldra mun fátíðari en í tímabundnu fóstri. „Þetta er ofsalega viðkvæmt mál. Það eru margir fósturforeldra sem eru hræddir við of mikla umgengi og það á örugglega rétt á sér í einhverjum tilfellum. Þegar vel tekst til, og það gerir það mjög oft, þá getur regluleg umgengni í hófi verið bara af hinu góða. Bæði fyrir barnið, fyrir kynforeldra og fósturforeldra. Góð samskipti milli fósturforeldra og kynforeldra gagnast barninu langbest, hvort sem um er að ræða varanlegt fóstur eða tímabundið. Þegar barnið finnur að það er ekki togstreita á milli fósturforeldranna og kynforeldra slakar það á í staðinn fyrir að vera í hollustukrísu gagnvart báðum aðilum. Það er svo mikilvægt að sátt sé á milli allra.“

„Ég er alveg að springa úr stolti“

„Maður hefur enga innistæðu hjá þessu barni. Af hverju ætti barnið að treysta fólki sem það hefur bara þekkt í stuttan tíma? Hvað hefur fyrri reynsla kennt þeim? Það er ekki hægt að reikna með að barnið verði hoppandi kátt þó við teljum að það sé komið í öruggar aðstæður. Maður þarf að mæta þörfum barnsins og vera næmur á þær. Þegar þú nærð að mæta þörfum barnsins og á forsendum þess þá ertu byrjaður að leggja inn í tilfinningabankann. Stundum upplifir maður að ekkert hafi gerst þó svo barnið hafi verið hjá manni í þrjá, fjóra mánuði. Þá er rosalega gott að setjast niður og hugsa: „Bíddu nú við, hvernig var ástandið í upphafi og hvernig er það núna?“ Þá sér maður yfirleitt að það hefur heilmikið breyst.“

Hvernig eru góðu stundirnar?

„Góðu stundirnar eru margar og það geta verið lítil atriði. Þegar maður sér að barninu líður vel, þegar barnið er farið að vera öruggt og farið að leita til manns og treystir manni. Það er góð tilfinning. Það að finna að maður er að gefa þessu barni eitthvað, það er alveg ótrúlega gott.“

Sjálf veit Soffía vel hvernig er að upplifa þessa tilfinningu en nýlega kláraði fósturdóttir hennar stúdentspróf. „Fósturdóttur mín útskrifaðist sem stúdent núna í vor, ótrúlega vel gert og flott hjá henni. Ég er alveg að springa úr stolti. Ég er voðalega montin af börnunum mínum en ég held ég hafi sjaldan hafi verið jafn montin og þegar hún varð stúdent, þessi elska.“

Fósturdóttirin sem um ræðir er í varanlegu fóstri en hjónin ákváðu fyrir nokkrum árum að taka barn í varanlegt fóstur í fyrsta skipti. Nú eru þau með tvö börn í varanlegu fóstri. „Fósturdóttir okkar er búin að vera hjá okkur í fimm ár, kom 15 ára, og hitt fósturbarnið er búið að vera í rúmlega eitt og hálft ár og kom líka 15 ára. Það var nú bara út af þeirra aðstæðum. Þau gátu ekki farið aftur heim, segir Soffía um ákvörðunina.

„Hvort sem þetta eru börn í varanlegu eða í tímabundnu fóstri þá er þetta alveg eins og með þín eigin börn. Markmiðið er alltaf að koma þeim til manns, hjálpa þeim að verða sjálfbjarga og sjálfstæðir einstaklingar. Þau koma til okkar með misþungt farteski sem hefur áhrif á hversu greiðlega eða erfiðlega það gengur,“ segir fósturforeldrið Soffía sem segist ekki hafa meiri tíma né orku en annað fólk, hún njóti þess einfaldlega að vinna með fólki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »