Hættar að fela óléttukúluna

Nýja meðgöngutískan fagnar líkama óléttra kvenna.
Nýja meðgöngutískan fagnar líkama óléttra kvenna. Samsett mynd

Það er óhætt að segja að meðgöngutískan hafi tekið miklum breytingum í ár þar sem djarfari fatnaður og bert hold hefur verið áberandi. Tískuna má rekja til söngdívunnar Rihönnu sem er þekkt fyrir að vera brautryðjandi í tískuheiminum og er meðgöngutíska hennar engin undantekning.  

Þegar Rihanna tilkynnti óléttu sína í myndatöku með kærasta sínum, ASAP Rocky, fyrr á árinu ruddi hún brautina fyrir nýrri og kynþokkafyllri meðgöngutísku þar sem kvenlíkamanum og þeim breytingum sem hann tekur á meðgöngunni er fagnað.

View this post on Instagram

A post shared by badgalriri (@badgalriri)

Í myndatökunni klæddist hún skærbleikri úlpu, ljósum gallabuxum, nóg af skarti og beraði óléttukúlu sína í fyrsta sinn. Í gegnum meðgöngu sína hélt Rihanna áfram að klæðast flottri tísku sem átti síðar eftir að verða einkennandi meðgöngutíska víða um heim.

Leyfa óléttum líkamanum að njóta sín

Fram að þessu hafði hin hefðbundna meðgöngutíska verið byggð á því að konur skammist sín og feli óléttukúlu sína og líkama. Þá voru teygjanlegar buxur, víðir bolir og kjólar áberandi meðgöngufatnaður.

„Hún er að breyta hugmyndinni um hvað getur verið í fataskáp óléttra kvenna. Hingað til hafa stuttir bolir, gallabuxur sem eru lágar í mittið og gegnsætt efni ekki verið uppistaðan í meðgöngufatnaði,“ útskýrði Ashlee Neuman sem sér um efni fyrir samfélagsmiðla á vefsíðu með meðgöngufatnað í samtali við The Guardian

Nú hafa verðandi mæður hins vegar tekið Rihönnu til fyrirmyndar og leyfa óléttukúlu sinni að njóta sín og klæðast fatnaði sem hefur ekki verið talinn „henta“ óléttum konum. Fram kemur á vef The Guardian að frá ársbyrjun hafi leitin að meðgöngutísku Rihönnu aukist verulega á leitarvefum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert