„Ég vissi ekkert út í hvað ég væri að fara“

Hrafnhildur Hauksdóttir og Ágúst Elí Björgvinsson ásamt dætrum sínum tveimur,
Hrafnhildur Hauksdóttir og Ágúst Elí Björgvinsson ásamt dætrum sínum tveimur,

Lyfjafræðineminn Hrafnhildur Hauksdóttir og kærasti hennar, handboltamaðurinn Ágúst Elí Björgvinsson, fengu miklar gleðifregnir snemma árs 2021 þegar þau komust að því að þau ættu von á sínu fyrsta barni. Í fyrsta sónarnum fengu þau þó óvæntar fréttir þegar í ljós kom að þau ættu ekki von á einu barni heldur tveimur. 

Snemma morguns hinn 10. nóvember 2021 mættu dömurnar í heiminn, þær Guðmunda Hlíf og Kolfinna Laufey. Hrafnhildur segir það hafa verið stórt stökk að fara frá því að vera tvö yfir í að verða vísitölufjölskylda. Við fengum að skyggnast inn í fjölskyldulíf þeirra, en þar að auki sagði Hrafnhildur okkur frá meðgöngu og fæðingu stelpnanna þeirra á einlægan máta. 

Hrafnhildur og Ágúst kynntust árið 2017 á skemmtistað sem þá hét B5. „Vinkona mín hún Guðrún Heiða sem ég bjó með á þeim tíma þekkti Ágúst og úr varð þetta líka fína samband. Við reyndar gátum ekki annað en kynnst þar sem hann festist heima hjá mér sökum ófærðar, en kvöldið sem við kynntumst varð mesta snjókoma í Reykjavík síðan mælingar hófust. Við höfum verið saman síðan þá, það þurfti ekki nema einn snjóbyl til þess,“ segir Hrafnhildur og hlær. 

Í dag búa Hrafnhildur og Ágúst ásamt dætrum sínum tveimur í Esjberg í Danmörku þar sem Ágúst spilar handbolta með handboltaliðinu Ribe-Esjberg. „Við erum ótrúlega ánægð og eigum mikið af góðum vinum hérna úti. Það er mjög gott að búa hér í Danmörku og vel haldið utan um stelpurnar okkar sem veitir okkur mikið öryggi. Þó svo að endapunkturinn verði alltaf Ísland fyrir okkur þá erum við rosalega þakklát fyrir tímann sem við eigum hér saman sem fjölskylda,“ segir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur stundar nám við Háskóla Íslands í lyfjafræði og er …
Hrafnhildur stundar nám við Háskóla Íslands í lyfjafræði og er um þessar mundir að skrifa meistararitgerð sína sem fjallar um lyfjameðferðir við hjartabilun.

Grunaði fljótt að hún gengi með tvíbura

Í ársbyrjun 2021 komst Hrafnhildur að því að hún væri ófrísk. Henni fór fljótt að gruna að það væri möguleiki á að hún gengi með tvíbura, enda hafi hún upplifað mikil einkenni snemma og byrjað að sjást á henni fljótt. „Systir Ágústar á tvíbura og stóð okkur því ekki svo fjarri. Ágústi var búið að dreyma um tvíbura og vegna einkennanna sem ég upplifði þá vorum við búin að grínast aðeins með það,“ útskýrir Hrafnhildur. 

„Ágúst var í landsliðsverkefni þegar ég fór í snemmsónar og var á fundi á meðan ég fékk fréttirnar frá lækninum. Læknirinn spurði mig hvort ég hefði búist við þessu og ég svaraði bara játandi. Ég veit ekki hvað það var en þetta kom mér ekkert rosalega á óvart þó þetta hafi auðvitað verið aðeins sjokk fyrst, en við urðum fljótt spennt fyrir komandi tímum,“ bætir hún við. 

Falleg sónarmynd af stelpunum.
Falleg sónarmynd af stelpunum.

Hrafnhildur segir þau Ágúst vera afar lánsöm með fjölskyldu og vini sem hafi hvatt þau áfram í gegnum allt saman. „Við systkinin tókum fund í hádeginu eftir sónarinn og þau peppuðu mig upp eins og alltaf, en ég man að ég hringdi beint í þau. Við erum rosalega heppin með fólkið okkar sem hefur reynst okkur virkilega vel í öllu þessu ferðalagi. Ég veit ekki hvað við höfum fengið margar heimsóknir til okkar á þessu ári, það er alveg ómetanlegt,“ segir Hrafnhildur. 

Fann strax fyrir miklum breytingum á lífinu

Aðspurð segir Hrafnhildur meðgönguna hafa gengið vel, en þar sem fjölburameðgöngur séu flokkaðar sem áhættumeðgöngur hafi hún verið í reglubundnum skoðunum. „Fyrri hluta meðgöngunnar var mér frekar flökurt og kastaði mikið upp. Ég var virkilega heppin með samstarfsfólk, en það kom alveg fyrir að ég þurfti að bregða mér frá í miðri afgreiðslu og þá var gripið inn í fyrir mig,“ segir Hrafnhildur, en á þessum tíma starfaði hún í Apóteki Suðurlands á Selfossi með vinkonum sínum, mömmu sinni og öðru góðu starfsfólki.

Meirihluta meðgöngunnar bjuggu Hrafnhildur og Ágúst sitt í hvoru landinu, hún á Íslandi og hann í Danmörku. „Ég flutti svo út til hans í september. Við vorum því voða lítið saman á meðgöngunni, ég þurfti að klára skólann og vinnu, og hann var auðvitað mikið bundinn við handboltann í Danmörku. En þetta leystist,“ segir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur og Ágúst í skýjunum eftir að hafa komist að …
Hrafnhildur og Ágúst í skýjunum eftir að hafa komist að því að tvær dömur væru á leiðinni í heiminn.

Íþróttir hafa alltaf verið stór partur af lífi Hrafnhildar, en hún spilaði með Selfossi fyrstu árin sín í meistaraflokki og fór síðar út til Bandaríkjanna á fótboltastyrk þar sem hún spilaði fyrir University of South Florida. Þar að auki spilaði hún í Gautaborg þegar hún var þar í skiptinámi í lyfjafræði og hefur einnig leikið með íslenska landsliðinu í knattspyrnu. 

Hún segir það hafa komið sér mest á óvart á meðgöngunni hve mikil breyting hafi orðið á lífi hennar um leið og hún komst að því að hún væri barnshafandi. „Það er auðvitað mjög misjafnt eftir konum, en ég fann að ég átti strax erfitt með að æfa eins og ég er vön. Þannig breytingin var ekki um leið og maður fékk börnin í fangið heldur fannst mér þetta hafa langan aðdraganda,“ segir Hrafnhildur, en í dag stundar hún bæði Crossfit og hlaup úti í Danmörku. 

Lögð inn á spítala með meðgöngueitrun

Þegar Hrafnhildur var gengin 36 vikur á leið fékk hún meðgöngueitrun og var lögð inn á spítala. Tveimur dögum síðar var hún sett af stað, en hún missti vatnið sama kvöld og fékk strax mikla samdrætti. „Við áttum svo stelpurnar um klukkan fimm um morguninn, þannig þetta voru einhverjar átta klukkustundir. Það gekk samt allt eins og í sögu og ég fæddi báðar stelpurnar,“ útskýrir Hrafnhildur. 

„Ég fæddi Guðmundu fyrst og Ágúst fékk hana í fangið, og á meðan ég var að rembast við að eiga Kolfinnu segir hann við mig: „Þetta er Guðmunda Hlíf.“ Ég er mjög óákveðin týpa og var eiginlega á öskrinu og spurði hvort hann væri alveg viss, sem hann svaraði játandi. Kolfinna var svo um kílói léttari en Guðmunda þannig það gekk vel að fæða hana og tók ekki nema um 11 mínútur,“ bætir hún við. 

„Systir hans Ágústar á tvíbura sem eru að verða 3 …
„Systir hans Ágústar á tvíbura sem eru að verða 3 ára og svo á bróðir minn líka tvíbura sem eru 7 vikum yngri en stelpurnar. Systir mágkonu minnar á líka tvíbura, svo það er nóg um tvíbura í kringum okkur.“

Hrafnhildur og Ágúst höfðu sótt fæðingarfræðslunámskeið hjá Helgu Reynisdóttur, ljósmóður. „Ágúst var með allt á hreinu eftir námskeiðið og byrjaði með aulabrandarana á fyrsta samdrætti. Ég hefði aldrei getað þetta án hans, hann var stoð mín og stytta í þessu öllu saman,“ segir Hrafnhildur. 

Brjóstagjöfin krefjandi framan af

Fjölskyldan eyddi fyrstu átta dögunum á spítalanum, en Hrafnhildur segir starfasfólkið hafa verið yndislegt og stutt vel við þau. „Það var nóg að gera fyrstu vikuna. Stelpurnar fæddust léttar og ég þurfti því að gefa þeim að drekka á tveggja til þriggja klukkustunda fresti. Ég náði ekkert sérstaklega góðum tökum á að gefa þeim báðum í einu á þessum tíma þar sem þær voru svo litlar. Ég gaf því annarri í einu og pumpaði mig svo eftir hverja gjöf til að ná framleiðslunni upp fyrir þær báðar,“ útskýrir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur segir að hingað til hafi það einmitt verið brjóstagjöfin fyrstu tvo mánuðina sem hafi reynst henni mest krefjandi. „Ég hefði verið til í að vera betur undirbúin fyrir hana. Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta væri mikil vinna, en ég var með báðar stelpurnar á brjósti og því var ekki mikið annað sem ég gerði á þessum tíma. Eftir að þær urðu tveggja mánaða fóru þær svo að vera miklu fljótari að drekka og ég var orðin betri í að gefa þeim báðum í einu, og þá fór þetta að rúlla vel,“ útskýrir Hrafnhildur.

„Ég er svo ótrúlega þakklát mömmu fyrir að hjálpa mér og styðja mig í þessu verkefni, en þær eru enn á brjósti og una sér vel á því,“ segir hún. 

„Ég er mjög þakklát fyrir það að geta haft þær …
„Ég er mjög þakklát fyrir það að geta haft þær báðar á brjósti en það var mjög krefjandi til að byrja með.“

„Það varð allt í einu rosalega mikið að gera á heimilinu hjá okkur. Að fara úr því að vera bara tvö í að verða fjögurra manna fjölskylda voru mikil viðbrigði. Ég verð að viðurkenna að ég svaf ekki mikið fyrstu vikuna í lífi þeirra. Mamma kom út til okkar daginn eftir að við komum af spítalanum og var hjá okkur í þrjár vikur. Pabbi kom svo til okkar síðustu vikuna hennar mömmu og það var svo dýrmætur tími, það höfðu allir nóg að gera. Ég veit ekki hvað ég hefði gert án þeirra,“ segir Hrafnhildur og bætir við að mamma og systur Ágústs hafi svo komið út tveimur vikum síðar sem hafi verið dásamlegt.

Systurnar í góðum gír með ömmu sinni og afa.
Systurnar í góðum gír með ömmu sinni og afa.

Áttu hugguleg fyrstu jól í Danmörku

Þegar Guðmunda og Kolfinna voru rúmlega eins mánaða gamlar hélt fjölskyldan sín fyrstu jól saman úti í Danmörku þar sem Ágúst þurfti að mæta í leiki. Hrafnhildur segir fyrstu jólin þeirra saman hafa verið yndisleg. „Við borðuðum góðan mat og eftir kvöldmatinn komu vinir okkar í heimsókn og við fengum okkur eftirrétt saman. Stelpurnar voru mjög værar og góðar og við vorum í sannkölluðu „hygge“ eins og vinir mínir Danirnir kalla það,“ segir Hrafnhildur. 

„Við Ágúst höfðum tvisvar áður haldið jólin tvö saman, annars vegar í Svíþjóð fyrir tveimur árum og hins vegar á Íslandi í sóttkví í fyrra, þannig við erum orðin ágæt í að halda jólin saman,“ bætir Hrafnhildur við. 

Hrafnhildur segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hún varð mamma. …
Hrafnhildur segir lífið hafa gjörbreyst eftir að hún varð mamma. „Þetta gefur lífinu svo mikla fyllingu. Það er erfitt að lýsa þessu en við gætum ekki verið hamingjusamari.“

Það hefur verið nóg um að vera hjá Hrafnhildi og Ágústi síðasta árið, en Hrafnhildur hafði þó miklar áhyggjur af því að henni myndi leiðast í fæðingarorlofinu. Á meðgöngunni prjónaði hún peysu og ákvað að klára ekki aðra þar sem hún vildi tryggja að hún hefði eitthvað að gera í fæðingarorlofinu. „Ég var að klára þessa peysu núna, rúmu ári eftir að þær komu í heiminn, svo það hefur sem sagt ekki enn gerst að mér hafi leiðst með þessum dömum,“ segir Hrafnhildur og hlær. 

„Tíminn flýgur og það er alltaf eitthvað nýtt sem maður þarf að læra og kynna sér. Ég vissi ekkert út í hvað ég var að fara og ætlaði bara að skrifa meistararitgerðina mína samhliða fæðingarorlofinu. Ég er mjög fegin að hafa ekki gert það,“ bætir hún við. 

Feðginin alsæl saman.
Feðginin alsæl saman.

„Eftir að ég eignaðist stelpurnar sé ég hvað virkilega skiptir máli“

Hrafnhildur segist sjá heiminn í nýju ljósi nú þegar hún er orðin móðir. „Ég gat haft áhyggjur af svo ótrúlega ómerkilegum hlutum áður en ég varð móðir. Litlu hlutirnir sem skipta engu máli, láttu þig ekki um þá varða. Eftir að ég eignaðist stelpurnar sé ég hvað virkilega skiptir máli,“ segir hún. 

„Við höfum notið þess ótrúlega vel að vera saman með stelpurnar. Vinnudagarnir hjá Ágústi eru mislangir og við erum því mikið saman fjölskyldan. Við finnum bæði að þetta verður alltaf auðveldara og auðveldara, stelpurnar eru farnar að leika sér mikið saman sem er dásamlegt og við erum afskaplega heppin með þær,“ segir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur og Ágúst eru afar lukkuleg með dætur sínar tvær.
Hrafnhildur og Ágúst eru afar lukkuleg með dætur sínar tvær.
mbl.is