„Mér líður eins og ég sé að klífa Kilimanjaro-fjall“

Leikkonan Gina Rodriguez á von á sínu fyrsta barni með …
Leikkonan Gina Rodriguez á von á sínu fyrsta barni með eiginmanni sínum, Joe LoCicero. TOMMASO BODDI

Leikkonan Gina Rodriguez undirbýr sig nú undir móðurhlutverkið, en það styttist óðum í að frumburður hennar og eiginmanns hennar, Joe LoCicero, komi í heiminn. 

Rodriguez tilkynnti óléttuna á 38 ára afmæli sínu í júlí síðastliðnum, en það voru mikil fagnaðarlæti hjá hjónunum þegar þau komust að því að þau væru að verða foreldrar. Leikkonan hafði barist við sjálfsofnæmissjúkdóminn Hashimoto sem hefur áhrif á skjaldkirtilinn og veldur breytingum á hormónastarfsemi. 

Endalaus námskeið

„Mér líður eins og ég sé á 72 mismunandi námskeiðum, allt frá námskeiðum um dáleiðslu, meðvitað uppeldi og fæðingarjóga, yfir í að finna út hvernig ég get undirbúið mig sem best undir fæðinguna. Mér líður eins og ég sé að klífa Kilimanjaro-fjall,“ sagði leikkonan í samtali við People

Rodriguez er þakklát fyrir stuðninginn frá fólkinu í kringum sig og segir hann hafa hjálpað sér mikið á meðgöngunni. „Allt fólkið sem hefur gert þetta á undan mér, ég vona að þau kenni mér og hjálpi mér þegar ég tek feilspor. Ég verð bara að komast í gegnum fæðinguna. Þegar ég kemst þangað þá held ég að ég byrji að sjá lengra,“ bætti hún við. 

Leikkonan fer nú með aðalhlutverk í nýjum þáttum Not Dead Yet. Hún segir það hafa verið krefjandi að finna jafnvægi á milli vinnunnar og meðgöngunnar. Leikkonan segist dást að öðrum leikkonum sem hafi haldið áfram að leika á meðan þær eru ófrískar og nefnir meðal annars leikkonurnar America Gerrera, Evu Langoriu og Zoe Saldana. 

mbl.is