Send í bráðakeisara án deyfingar

Ljósmynd/Pexels/Daniel Reche

Málsókn í Kaliforníu vekur nú mikinn óhug, en þar hefur kona nokkur og unnusti hennar kært sjúkrahús fyrir að framkvæma bráðakeisara á konunni án deyfingar. Að þurfa að gangast undir bráðakeisara getur verið afar streituvaldandi og jafnvel mikið áfall.

Fram kemur í dómskjölum að konan hafi verið gengin 41 viku þegar hún mætti á sjúkrahúsið. Eftir nokkra klukkutíma af rembing hafi læknarnir hætt að sjá hjartslátt fóstursins og því ákveðið að kalla eftir bráðakeisara. 

Konan hafði fengið mænudeyfingu kvöldinu áður og var flutt á skurðstofuna með hraði. Þar var kallað eftir svæfingalækni nokkrum sinnum án árangurs. Á þessum tímapunkti er mænudeyfingin þó sögð hafa haft „engin áhrif á svæðið sem framkvæma átti skurðinn á,“ í lögsókninni. 

„Grét og öskraði af öllum lífsins kröftum“

Reynist frásögn konunnar rétt á læknirinn að hafa ákveðið að framkvæma keisaraskurð á konunni án deyfingar. „Hún grét og öskraði af öllum lífsins kröftum að hún gæti fundið fyrir öllu sem var að gerast. Hún var líka að biðja um hjálp og að þau myndi hætta að skera hana upp,“ kemur fram í kærunni, en stuttu síðar hafi liðið yfir konuna. 

Í dag eru foreldrarnir afar lukkuleg með dóttur sína. Engu að síður hefur konan þurft að ganga í gegnum mikla erfiðleika, bæði líkamlega og andlega, í kjölfar atviksins. Í samtali við Parents segir fæðingarlæknirinn John Thopphil rétt að taka fram að það sé afar sjaldgæft að keisaraskurður sé gerður án deyfingar og því þurfi verðandi foreldrar ekki að hafa áhyggjur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert