Næsta skref er að kaupa fötin og taka til

Mæðginin Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Úlfur Sveinsson.
Mæðginin Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Úlfur Sveinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfur Þór Sveinsson fermist í Bústaðakirkju þann 26. mars. Hann segir stóran þátt í fermingarfræðslunni snúast um að vera góð manneskja og rækta góð gildi. Móðir Úlfs, Sveinbjörg Þórhallsdóttir, segir fermingar frábært tækifæri til að fagna unga fólkinu sem er að stíga inn í samfélag fullorðinna.

Úlfur Þór Sveinsson fermist í Bústaðakirkju þann 26. mars. Hann segir stóran þátt í fermingarfræðslunni snúast um að vera góð manneskja og rækta góð gildi. Móðir Úlfs, Sveinbjörg Þórhallsdóttir, segir fermingar frábært tækifæri til að fagna unga fólkinu sem er að stíga inn í samfélag fullorðinna.

Hvaða væntingar ertu með um fermingardaginn?

„Að fermingardagurinn verði skemmtilegur og eftirminnilegur. Ég hlakka til að vera með flotta veislu og njóta dagsins,“ segir Úlfur.

Fermist þú í kirkju eða borgaralega?

„Ég fermist í kirkju. Ég trúi á guð og er kristinn eins og fjölskyldan mín öll er.“

Hvernig veislu ætlið þið að halda?

„Við ætlum að halda veislu heima hjá okkur. Við bjóðum stórfjölskyldunni og bestu vinum í veisluna. Við ætlum að bjóða upp á alls konar smárétti klukkan tvö og amma mín og afi ætla að panta flotta kransaköku til að hafa með kaffinu.“

Hvernig langar þig að vera klæddur?

„Ég ætla að vera í jakkafötum og vera í „off-white“ Air Force-skóm.“

Hvað dreymir þig um í fermingargjöf?

„Mig langar mest í pening til að safna inn á framtíðarreikning.“

Færð þú að ráða öllu eða ráða foreldrar þínir?

„Ég má hafa skoðun á öllu, þau spyrja mig og ég samþykki. Ég treysti þeim nú bara alveg fyrir þessu.“

Hvað lærðir þú í fermingarfræðslunni?

„Ég lærði meira um Jesú og guð og hvernig fermingin fer fram. Svo snýst þetta líka um að vera góð manneskja og rækta góð gildi.“

Hvaða áhugamál hefur þú?

„Ég hef áhuga á fótbolta, skíðum og tísku og svo finnst mér skemmtilegt að ferðast með fjölskyldunni.“

Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Úlfur Sveinsson
Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Úlfur Sveinsson Kristinn Magnússon

Öllu var tjaldað til

Finnst þér eitthvað hafa breyst varðandi fermingar síðan þú varst ung stúlka eða hin börnin fermdust?

„Já, mér finnst margt hafa breyst síðan ég fermdist, enda 37 ár síðan. Samfélagið allt hefur þróast og breyst mikið og hugmyndafræði um trú þar með. Flestir fermdust í kirkju og hópurinn fylgdist að þegar ég var ung stelpa. Mikil tilhlökkun. Í dag kjósa margir að fermast borgaralega og aðrir aðhyllast aðra trú. Það var einhvern veginn allt einfaldara og meira gert úr einstökum viðburðum eins og fermingu. Ákveðin formlegheit. Það var mikið lagt í veislurnar á mínu æskuheimili þegar við systkinin fermdust. Öllu var tjaldað til. Rúm voru færð út af heimilinu til að búa til meira pláss og dýrindis veitingar með heimatilbúnum mat og tertum framreiddar. Svo mikið var lagt í allt og fólk hjálpaðist að. Mamma mín var snillingur í að halda góðar veislur líkt og amma mín líka. Í dag pantar fólk kannski mat og leigir sali og veitingar hafa breyst mikið,“ segir Sveinbjörg.

Hafið þið foreldrarnir lært eitthvað á því að fylgja syninum í gegnum fermingarfræðsluna?

„Hann er þriðja barnið sem við fermum og erum við því kannski komin með smá reynslu í þessu. Við þurfum að halda honum svolítið við efnið.“

Hvernig hefur undirbúningurinn verið?

„Úlfur hefur sótt fermingarfræðslu í kirkjunni og svo hefur hann farið í messur. Þau eiga að sækja að minnsta sjö messur. Við foreldrarnir erum búin að bjóða til veislu og eigum von á stórfjölskyldunni og nokkrum vinum. Svo erum við farin að skoða veitingar og pæla í hvað maður gerir sjálfur og hvað við ætlum að panta. Þetta verður svona sambræðingur af heimatilbúnu og aðkeyptum veitingum. Svo erum við að spá í að gefa honum upplifunargjöf. Næsta skref er að kaupa falleg fermingarföt á hann og kannski taka svolítið til heima.“

Svo miklu meira en staðfesting á trú

Fylgir því stress að sjá um fermingarveislu?

„Auðvitað er alltaf smá stress að halda stóra veislu. En mér finnst þetta hátíðlegur dagur og legg mikið upp úr því að hafa þetta skemmtilegt og heiðra fermingardrenginn. Systur hans, sem allar eru staddar erlendis, ætla að koma og gleðjast með honum, þannig að það verður hátíð í bæ. Þetta er svo frábært tilefni til að vera með sínum nánustu og gleðjast með stráknum.“

Hvað finnst þér mikilvægt að fermingarforeldrar hafi í huga?

„Fermingin er svo miklu meira en staðfesting á skírninni og trúnni. Þetta er ungmennavígsla þar sem börnin eru tekin inn í samfélag fullorðinna. Mér finnst svo fallegt að ungmennin fái athygli út á það að nú þurfi þau að bera meiri ábyrgð sem manneskjur. Þar sem athyglinni er beint að gildum samfélagsins og náungakærleik og mikilvægi þess að tilheyra fjölskyldu og vera góðar manneskjur. Svo er gott að stilla öllu í hóf,“ segir Sveinbjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert