Þurfti að kaupa ný jakkaföt fyrir veisluna

Ljósmynd/Aðsend

Úlfur Esra Snorrason fermdist í Seltjarnarneskirkju 22. apríl 2021 en hélt almennilega fermingarveislu árið eftir. Faðir Úlfs er kokkur og eldaði hann uppáhaldsmatinn hans, naut og béarnaise, fyrir gesti. 

Hvernig var fermingardagurinn þinn?

„Þegar ég fermdist var kórónuveirufaraldurinn í gangi og fjöldatakmarkanir í kirkjunni og alls staðar annars staðar. Ég gat því ekki haldið veisluna á fermingardaginn. Ég gat boðið foreldrum mínum og ömmum og öfum í kirkjuna, svo fórum við saman og fengum okkur bröns á Bastard. Mér fannst smá skrýtið að geta ekki haldið veisluna, en á sama tíma var gaman að eiga hana inni.“

Kom eitthvað óvænt upp á?

„Athöfnin sjálf gekk vel en óvissan með veisluna var helst það óvænta. Við þurftum að fresta veislunni þrisvar sem endaði með því að hún fór fram á sumardaginn fyrsta árið eftir. Vegna þess hvað leið langur tími voru fermingarfötin orðin of lítil, svo það þurfti að kaupa ný jakkaföt fyrir veisluna.“

Hvernig var veislan?

„Veislan var í Sunnusal í Menntaskólanum í Kópavogi, en amma mín er kennari í skólanum. Við hjálpuðumst öll að með matinn og að skreyta. Ég bauð upp á naut og béarnaisesósu, sem er uppáhaldsmaturinn minn. Pabbi eldaði, en hann er kokkur. Það var líka hnetusteik fyrir þá sem borða ekki kjöt. Svo voru kökur í eftirrétt. Þetta var mjög skemmtilegur dagur, og gaman að geta loksins hist öll saman.“

Hvað fékkstu í fermingargjöf?

„Ég fékk peninga í fermingagjöf en svo fékk ég líka ferð á Arsenalleik í London. Það var mjög skemmtilegt, sérstaklega vegna þess að Arsenal vann 2-0. Ég keypti mér síma fyrir fermingarpeningana en lagði svo restina af þeim inn á læsta framtíðarbók í bankanum.“

Hvernig voru fermingarfötin?

„Ég var í bláum jakkafötum, í skyrtu og með bindi. Svo var ég í hvítum Nike-strigaskóm við.“

Hvað var skemmtilegast við allt fermingarferlið?

„Mér fannst eiginlega skemmtilegast að fá allar þessar gjafir. En svo var líka gaman í fermingarferðinni sem við fórum bekkurinn.“

Úlfur Esra beið í eitt ár með fermingarveisluna.
Úlfur Esra beið í eitt ár með fermingarveisluna. Ljósmynd/Dóra Dúna
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert