Hvernig kemstu hjá því að ala upp ofdekrað barn?

Pexels/Keira Burton

Öllum foreldrum finnst gaman að gleðja börnin sín og búa til ánægjulegar minningar. Mikilvægt er þó að fara ekki yfir strikið í þeim málum. Flestir foreldrar vilja að verslunar- og veitingahúsaferðir gangi smurt fyrir sig, auk þess er oft auðveldara að gefa eftir en að segja nei. Margir foreldrar fá líka samviskubit yfir því að eyða of miklum tíma frá börnum sínum. 

Þó það sé ekkert að því að gefa börnum sínum einstaka gjöf eða eða eitthvað góðgæti, þá eykur þú áhættuna á að ala upp ofdekruð börn ef þú notast við slíkt til að bregðast við stanslausu suði. Hlutverk þitt er að styrkja góða hegðun, ekki slæma.

Oft fara hlutirnir þó á annan veg en það er þó ekki orðið of seint að snúa slíkri hegðun við. Hvað er það samt sem einkennir ofdekruð börn? Hér eru nokkur af algengustu einkennunum.

  • Erfiðleikar við að hlusta og/eða vinna úr orðinu nei.
  • Óánægja með það sem þau hafa.
  • Að hegða sér á sjálfhverfan hátt, eins og að halda að heimurinn snúist um þau.
  • Ítrekuð frekjuköst.
  • Eiga erfitt með að tapa.
  • Byrja setningar reglulega á „ég þarf“.

Ofdekruð börn eiga líka erfitt með að fylgja reglum þar sem þau telja að þær eigi ekki við um þau.

Hér eru nokkur ráð til að koma í veg fyrir að ala upp ofdekrað barn.

Forðastu að biðjast afsökunar á einhverju sem veldur þeim vonbrigðum

Orðið fyrirgefðu á sinn stað í fjölskyldulífinu en það er engin þörf á að iðrast yfir því að geta ekki keypt nýtt glansandi leikfang eða ný merkjavörustígvél handa barninu þínu. Það getur verið gagnlegt að hafa samúð með vonbrigðum þeirra því það sýnir að þú virðir tilfinningar barnsins. Mikilvægt er þó að pæla ekki of mikið í því hvað olli vonbrigðunum.

Það getur verið góð lífslexía að hjálpa barninu að sætta sig við það að fá ekki allt sem það vill. Einnig er það gott að leyfa barninu að taka þátt í kaupum á því sem því langar í. Til dæmis getur þú boðist til þess að borga hluta af upphæðinni og barnið safnar sér fyrir restinni. Með þessu gefur þú barninu nokkra stjórn á ákvörðuninni og kennir því að það þurfi að vinna sér inn sérstaka hluti frekar en að fá þá einfaldlega upp í hendurnar.

Ekki rökræða húsreglurnar

Þegar kemur að reglum ættu ekki vera rök eða rökræður. Endalaust rifrildi er tilgangslaust, sérstaklega þar sem niðurstaðan er fyrir fram ákveðin. Börnin hafa rétt á því að verða fyrir vonbrigðum og fara í uppnám, en þú þarft ekki að taka þátt í rökræðum sem því fylgir.

Stattu fast á þínu og láttu þau vita að svona sé þetta gert í þessari fjölskyldu og haltu áfram. 

Náðu stjórn á frekjuköstum

Engu foreldri líkar við frekjuköst barna sinna. Það er þó verra að gefa alltaf eftir. Aðalástæðan fyrir því að börnin grípa til frekjunnar er sú að þau vita að þau bera árangur. Ekki taka því þátt í hegðuninni, hún hættir á endanum.

Ef þú ert heima skaltu einfaldlega hunsa það, svo lengi sem barnið þitt er ekki í hættu á að meiða sig eða aðra. Ef þú ert á almannafæri skaltu fara með barnið á rólegan stað, til dæmis í bílinn, þar sem barnið getur losað um reiðina án áhorfenda. Þegar börn átta sig á því að foreldrinu verður ekki stjórnað með þessum hætti er ólíklegra að þau reyni sömu aðferðir í framtíðinni.

Kenndu börnunum þínum þolinmæði

Ofdekruð börn telja sig eiga rétt á að fá ekki aðeins hlutina sem þeir vilja, heldur fá þá strax. Við lifum í stafrænum heimi sem er uppfullur af tafarlausri ánægju. Tæknin veldur því oft að börn þróa með sér óraunhæfar væntingar um að fá það sem þau vilja, þegar þau vilja.

Því er mikilvægt að kenna börnum þolinmæði. Að láta ekki alltaf undan duttlungum þeirra hjálpar barninu að þróa með sér sjálfsaga og kennir þeim að meta betur það sem barnið fær. Mikilvægt er að kenna börnum ákveðið aðhald með fordæmum. Sem dæmi, ef þú sérð gallabuxur sem þig langar í slepptu því að kaupa þær. Segðu frekar við barnið að gallabuxurnar sem þú átt nú þegar líti vel út og dugi til.

Veittu hvatningu í stað þess að gefa gjafir

Barn sem fær alltaf gjafir fyrir hvert lítið afrek mun á endanum missa náttúrulega hvata til að skara fram úr í einhverju. Ef þú gefur barninu hins vegar hrós mun það sitja lengur í huga barnsins og efla sjálfsálit þeirra. 

Það er þó ekkert að því að veita barninu viðurkenningu fyrir það sem barnið gerir, hvort sem það er í leik eða skóla, svo lengi sem þú lítur á viðurkenningu sem fagnaðarerindi frekar en verðlaun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert