Halda styrktarmót fyrir afrekskonu

Kristrún á framtíðina fyrir sér í skíðagöngu.
Kristrún á framtíðina fyrir sér í skíðagöngu. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Hún tók fyrir skemmstu þátt í heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Seefeld í Austurríki þar sem hún endaði í 65. sæti af 110 í undankeppni í sprettgöngu, það dugði þó ekki til að komast í undanúrslit þó að það hafi einungis vantað 10 sekúndur upp á að svo hefði farið. Í kjölfarið á keppninni í Austurríki flaug hún beinustu leið til Kína þar sem hún tók þátt í undirbúningskeppni fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 en Kristrún er einmitt með það að markmiði að komast á Ólympíuleikana sjálfa og miðað við áræðnina eru góðar líkur á að svo verði.

Kristrún byrjaði að æfa skíðagöngu þegar hún flutti til Noregs, mekka skíðagönguíþróttarinnar, þá 11 ára gömul. Fyrir þann tíma hafði hún alltaf æft íþróttir og þótti ansi góð í fótbolta og á svigskíðum. Okkar kona er enn búsett í Noregi en þar stundar hún háskólanám auk þess sem hún æfir skíðagöngu með einu sterkasta liði Noregs, Lyn.

Aðspurð hvernig hún nái að fjármagna keppnisferðir og æfingar segist hún lifa á námslánum en þjálfi svo 12 ára stelpur í skíðagöngu. „Ég fjármagna einnig iðkun mína með styrkjum frá fyrirtækjum, foreldrum mínum og svo frá Skíðagöngufélaginu Ulli, sem er mitt félag á Íslandi, fyrir þetta er ég mjög þakklát.“ Næstkomandi laugardag verður Skíðagöngufélagið Ullur einmitt með styrktarmót til heiðurs okkar konu þar sem allur ágóði rennur til skíðaiðkunar Kristrúnar. „Þetta mót er haldið í Bláfjöllum og er fyrir alla aldurshópa, það er engin tímataka en keppt verður í 1 og 5 km skíðagöngu. Þátttökugjald er 1.000 krónur en einnig verður selt kaffimeti í skála félagsins.“ Allir þeir sem styðja vilja við bakið á þessari frábæru íþróttakonu nú og hitta hana eru hvattir til að mæta í fjallið um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert