Fjölskyldusport sem börn og fullorðnir geta notið saman

Jón Þór með glæsilegan lax sem beit á öngulinn á …
Jón Þór með glæsilegan lax sem beit á öngulinn á Nessvæðinu í Laxá i Aðaldal. Ljósmynd/Aðsend

Jón Þór Ólason þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hann er beðinn að lýsa hinum fullkomna degi stangaveiðimannsins: „Ekkert jafnast á við að vera með maka og börnum á fallegu vatnasvæði, þar sem maður getur flýtt sér hægt og notið tilverunnar úti í náttúrunni – vera ýmist einn eða í góðra vina hópi með augun á fagurgrænum hylnum og fuglasöng allt um kring,“ segir hann. „Stangaveiði býður upp á ánægjulega samveru og þar tengist maður um leið einhverri frumþörf mannsins fyrir að veiða, og upplifa spennuna af að eltast við fiskinn. Í þessu nútímavædda og hraða samfélagi okkar eru það forréttindi að geta aftengt sig um stund með hugann við ekkert annað en stöngina, línuna og fiskinn.“

Jón Þór er formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur og segir hann áhugann á stangaveiði síst fara minnkandi. „Hagfræðistofnun gerði nýlega könnun sem leiddi í ljós að um 60.000 manns hér á landi stunda stangaveiði í einhverri mynd.“

Að sögn Jóns Þórs hefur helst orðið sú breyting á stangaveiðisamfélaginu að vakning hefur átt sér stað um alls kyns tegundir veiðiaðferða. „Stangaveiði snýst ekki bara um laxinn heldur líka ánægjuna að veiða tegundir laxfiska á borð við urriða og sjóbirting; veiða í vötnum jafnt sem ám en einnig hefur sjóstangaveiði farið vaxandi. Með tilkomu Veiðikortsins varð stangaveiðin enn aðgengilegri en áður enda er það auðveld og ódýr leið til að svala veiðibakteríunni og fá að veiða í fallegum vötnum hringinn um landið.“

Arna Sif Jónsdóttir á Breiðunni í Elliðaánum, hreykin með sjóbirting …
Arna Sif Jónsdóttir á Breiðunni í Elliðaánum, hreykin með sjóbirting sem hún veiddi sjálf. Ljósmynd/Aðsend

Þarf ekki að kosta mikið

Margir hafa aldrei rennt fyrir fisk en dauðlangar að prófa. Jón Þór segir unnt að velja ýmsar leiðir til að byrja og yfir veturinn bjóði t.d. stangaveiðifélögin upp á kastkennslu. „Hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur erum við t.a.m. að undirbúa fluguveiðiskóla fyrir börn og leggjum með því sérstaka áherslu á að stangaveiðin sé ánægjulegt fjölskyldusport sem börn og fullorðnir geta notið saman.“

Jón Þór tekur sérstaklega fram að stangaveiði þurfi ekki að vera dýr tómstundaiðja. Þeir sem vilja geti vissulega varið háum fjárhæðum í fullkomnustu veiðistangir og hjól, komið sér upp stóru safni af litskrúðugum flugum og spónum, og alls kyns aukabúnaði sem gerir veiðiferðina um margt þægilegri, en það má byrja með einhverju einföldu og ódýru. „Margir eiga sinn fyrsta ánægjulega veiðitúr með stöng sem keypt var á bensínstöð, eða dorgandi niður við bryggju frekar en úti í laxveiðiá þar sem dagurinn kostar hundruð þúsunda. Það fer allt eftir því hvað fólk vill leggja mikið í áhugamálið hvort kostnaðurinn við að byrja í stangaveiði hleypur á nokkrum þúsundköllum eða nokkrum hundraðþúsundköllum.“

Þá segir Jón Þór að þeir sem hafa gaman af stangaveiði og vilja eiga ánægjulegt ferðalag innanlands geti oft gert mjög góð kaup. „Í Eldvatnsbotnum vestur í Skaftafellssýslu er t.d. unnt að kaupa veiðileyfi þar sem hús fylgir með, og er ekki dýrara en að leigja sumarbústað yfir sumartímann. Þar gæti stórfjölskyldan komið saman og átt eftirminnilega ánægjustund.“

Tryggvi Garðar Jónsson, sonur Jóns Þórs, kann réttu handtökin í …
Tryggvi Garðar Jónsson, sonur Jóns Þórs, kann réttu handtökin í fluguveiðinni. Hér kastar hann á Breiðuna í Hítará. Ljósmynd/Aðsend

Eitthvað fyrir alla

Aðspurður hvort stangaveiðifólk þurfi að fylgja tilteknum reglum, s.s. varðandi ábyrgar veiðar, segir Jón Þór að veiðifélög hverrar ár og hvers vatns setji sínar reglur. Þannig er t.d. breytilegt eftir vatnasvæðum hvort veiða má með spón, flugu eða maðki og stundum sé skylt að að sleppa fiskinum ellegar veiða aðeins tiltekinn fjölda. Íslensk vatnasvæði eru margbreytileg, segir hann, og hver og einn getur fundið eitthvað við sitt hæfi.

Veiðitímabilið er breytilegt eftir svæðum og tegundum laxfiska. Urriða- og sjóbirtingsveiði fer fyrst af stað og hefst 1. apríl ár hvert. „Þeir allrahörðustu halda þá til veiða jafnvel þó úti sé snjór og kuldi, og kippa sér ekki upp við þó að frjósi á línum og veiða þurfi fiskinn á milli klakastykkja,“ útskýrir Jón Þór. „Laxveiðitímabilið byrjar seinna, og opna fyrstu árnar yfirleitt í júníbyrjun. Flestar laxveiðiár eru opnar í 90 daga, en lengur á stöku stað. Í flestum laxveiðiám lýkur veiðinni í kringum 20. september.“

Fyrir marga setur það punktinn yfir i-ið að matreiða veislurétti úr þeim fiskum sem bitu á agnið. Segir Jón Þór afskaplega ánægjulegt að grilla t.d. vænan lax eftir langan veiðidag, eða þá geyma aflann og láta fagfólk gera eitthvað sniðugt við hann. „Margir fisksalar bjóða upp á þá þjónustu að gera að fiskinum og snyrta hann og geta jafnvel sett hann í alls konar sósu-maríneringu. Svo eru aðrir sem bjóðast til að reykja fiskinn eða grafa eftir kúnstarinnar reglum. Útkoman er alltaf ljúffeng enda leitun að betri og hollari mat en villtum fiski,“ segir Jón Þór sem kveðst sjálfur fá mesta ánægju af því að sleppa laxi aftur í ársvæðið og vita til þess að fiskurinn geti fært öðrum veiðimanni ánægju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert