Opna á tengsl við eldri borgara

Undanfarin ár hefur Hjólakraftur farið með fjölmörg lið hringinn í …
Undanfarin ár hefur Hjólakraftur farið með fjölmörg lið hringinn í WOW-cyckithoni. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er snertiflötur Hjólakrafts um 300 krakkar á hverju ári, en í skoðun er að útvíkka þá starfsemi enn frekar og fá einnig að eldri borgara.

Hjólakraftur hefur undanfarin ár þróast mikið. Þorvaldur segir að hugmyndin hafi fyrst verið að ná til ungs fólks sem fyndi sig ekki í skólakerfinu. „Skólakerfið eins og það er í dag er ekki fyrir alla, enda ekki allir hannaðir til að sitja á rassinum heldur vilja frekar fá útrás eða sjá hluti fyrir sér myndrænt,“ segir Þorvaldur. Stór hluti hópsins hefur undanfarin ár tekið þátt í cyclothoninu og hafa vinsældir þessarar hugmyndafræði farið stigvaxandi. Þannig er Hjólakraftur nú í samstarfi við sex skóla á höfuðborgarsvæðinu og tvo á Reykjanesi.

Þorvaldur segir mun fleiri nú koma að starfinu en hann hafi upphaflega séð fyrir sér, en það sé frábært. Þannig hafi margir fundið sig innan hópsins þar sem þarna hafi verið vettvangur til að stunda útivist og íþrótt sem ekki sé hópíþrótt, eins og flestar stórar íþróttir eru í dag. „Menn eru að átta sig á að handbolti og fótbolti eru ekki fyrir alla og ekki heldur endilega hópíþróttir þótt fólk vilji oftast æfa saman í hóp,“ segir Þorvaldur.

Þessi hóphugsun, án þess þó að byggjast á hópíþróttahugmyndinni, var ein af ástæðum þess að Þorvaldur tók hugmyndina með Hjólakraft áfram á síðasta ári og sótti um styrk til Reykjavíkurborgar til að tengja Hjólakraft við eldri borgara líka. Einn hjólahópurinn byrjar hjólatúra sína tvisvar í viku frá Gerðubergi og þar fyrir utan sat hópur kvenna sem var að prjóna og sauma út. „Ég fór allt í einu að hugsa um þessa kynslóð sem er með svo mikla sögu og þekkingu og hefur frá svo miklu að segja. Mér þætti áhugavert að fá þetta fólk af stað með okkur, lýsa lífi sínu o.fl.,“ segir hann og bætir við að í dag sé ýmislegt í tísku hjá yngri kynslóðinni sem eldri kynslóðin geti vel deilt áfram, meðal annars prjónaskapur. „Svo eru þessar tvær kynslóðir, unga fólkið og það eldra, oft að kljást við sama heilsufarsvandamálið – einmanaleika og einsemd,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Daníelsson.
Þorvaldur Daníelsson. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að aldur eigi ekki að skipta máli og ef hægt sé að ná einhverjum með í hópinn sé í raun markmiðinu náð. Hvort sem það sé út að hjóla, labba eða jafnvel í aðrar tómstundir. „Þetta snýst um að búa til samfélag sem byggt er á einhverju jákvæðu og yngra fólkið getur líka lært af því eldra,“ segir hann. Þá geti þeir eldri séð orkuna í þeim yngri sem virkjar oft orku þeirra eldri í leik og starfi. Hugmyndin fékk góðar viðtökur hjá borginni sem styrkti verkefnið í tilraunaskyni nú í vetur. Þorvaldur segir að Hjólakraftur muni auglýsa þessa hugmynd meðal eldri borgara í Breiðholti núna í vor og svo muni þau sjá hverjar viðtökurnar verði og hvert verkefnið leiði þau.

Samhliða félagslegu hliðinni hefur Hjólakraftur einnig alið af sér nokkra af efnilegri hjólurum yngri kynslóðarinnar, en Þorvaldur nefnir að bæði Agnar Örn Sigurðsson og Natalía Erla Cassata hafi farið hringinn í cyclothoninu árið 2016 með Hjólakrafti. Í febrúar enduðu þau bæði sem sigurvegarar í RIG-brekkuspretti á Skólavörðustíg. Er þetta í annað skiptið sem Agnar vinnur keppnina, en bæði voru þau meðal yngstu keppenda í sínum flokki.

Þorvaldur segir rosalega gaman að sjá hvernig sumir hafi þróast út í mikla keppnishjólreiðamenn og þeim hafi verið beint áfram í hjólreiðafélögin þar sem þau hafi fundið frekari áskoranir. Þrátt fyrir nokkrar svona velgengnissögur segir hann hugmyndina með Hjólakrafti áfram vera þá að búa til hóp sem er fyrir alla þar sem unnið er með styrkleika hvers og eins. „Þetta er vettvangur fyrir hvern og einn til að láta ljós sitt skína,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert