Áhrifaríkt og heillandi

Líkanið af Vasa, 1:10, sýnir vel liti og skreytingar á …
Líkanið af Vasa, 1:10, sýnir vel liti og skreytingar á degi jómfrúarferðarinnar. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Herskipið Vasa sem átti að vera flaggskip sænska flotans lagði upp í jómfrúferð sína síðdegis á fögrum sunnudegi, 10. ágúst 1628. Eftir 1300 metra siglingu sökk skipið á örfáum mínútum um 120 metra frá landi, rétt suður af Djurgården. Flestir björguðust, en um 30-40 manns fórust.

Líkan sem sýnir vel björgun skipsflaksins af hafsbotni á árunum …
Líkan sem sýnir vel björgun skipsflaksins af hafsbotni á árunum 1956-61. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Skipasmíðar á Blasieholmen

Í janúar 1625 gerði Gustav Adolf II. Svíakonungur samkomulag við Henrik Hybertsson, skipasmið frá Hollandi, um smíði fjögurra herskipa. Á þeim tíma tíðkaðist ekki að gera teikningar að skipum áður en smíði hófst, heldur var treyst á reynslu og þekkingu skipasmíðameistarans. Fyrsta skipið átti að heita Vasa til heiðurs Gustav Vasa konungi sem ríkti yfir Svíþjóð 1523-1560. Vasa átti að verða flaggskip sænska flotans. Hafist var handa að fella eikartré í nágrenni Stokkhólms. Ekki dugði minna en rúmlega eitt þúsund eikur fyrir glæsiskipið. Skógarhöggið þurfti helst að fara fram að vetri svo hægt væri að flytja trén á sleðum til skipasmíðastöðvarinnar sem var á Blasieholmen, skammt frá þar sem hið fræga Grand Hotel stendur nú. Um 400 manns af ýmsum þjóðernum störfuðu þar, margir smiðanna hollenskir.

Líkan af Vasa-skjaldarmerkinu sem var fyrir miðjum skut skipsins.
Líkan af Vasa-skjaldarmerkinu sem var fyrir miðjum skut skipsins. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Þegar smíði Vasa var hálfnuð lést yfirsmiðurinn Henrik Hybertsson og kom það í hlut Margrétar ekkju hans að hafa umsjón með að ljúka verkinu. Eftir að Vasa var sjósett var sjóhæfnin prófuð með því að láta 30 manns hlaupa samtímis á þilfarinu milli borðstokka. Eftir að mennirnir höfðu hlaupið þrjár ferðir í hvora átt var tilraunin stöðvuð. Vaggaði skipið svo að viðstöddum leist ekki á blikuna. Augljóst var að stöðugleikanum var verulega ábótavant. Enginn þorði þó að nefna þetta við konung né hans nánustu hirðmenn.

Flaggskip sænska flotans

Á þessum tíma var Svíþjóð orðin helsta stórveldið við Eystrasalt. Gústav Adolf II. konungi þótti við hæfi að sýna veldi sitt með hinu glæsilega og ógnvekjandi nýja flaggskipi Vasa. Það var með stærstu herskipum á sinni tíð, tæpir 70 metrar að lengd, þriggja mastra.

Aftur á voru káetur skipstjóra og næstu yfirmanna hans. Hermönnum …
Aftur á voru káetur skipstjóra og næstu yfirmanna hans. Hermönnum og almennum skipverjum var ætlað að sofa og hafast við á fallbyssuþilförunum. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Tvö fallbyssuþilför voru á skipinu. Vopnabúnaður samtals 64 fallbyssur og vógu flestar þeirra um hálft annað tonn. Fengnir voru margir af færustu tréskurðarmeisturum frá Þýskalandi til að skreyta skipið. Á skipinu voru um sjö hundruð styttur af listilega máluðum ljónum, hafmeyjum, englum og þekktum einstaklingum úr grísku goðafræðinni. Hinu nýja flaggskipi flotans var ætlað að leika stórt hlutverk í styrjöldinni við Pólverja, en einnig hugði konungur á þátttöku í þrjátíu ára stríðinu. Í þeim hildarleik mætti hann örlögum sínum í orrustunni við Lützen árið 1632.

64 fallbyssur voru um borð í Vasa. Þær þyngstu, sem …
64 fallbyssur voru um borð í Vasa. Þær þyngstu, sem vógu um hálft annað tonn, voru gerðar til að skjóta 10-11 kg járnkúlum. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Slysið

Eftir guðsþjónustu sunnudaginn 10. ágúst þustu allir sem vettlingi gátu valdið niður á hafnarsvæðið til að fylgjast með stolti sænska flotans leggja úr höfn í jómfrúferðina. Nokkrir fengu að taka með eiginkonur og börn í tilefni dagsins. Veður var svo stillt að skipverjar urðu að draga skipið á akkerunum út í sundin þar sem von var á gjólu. Fallbyssuhlerarnir voru opnir og skotið nokkrum heiðursskotum. Upp voru dregin fjögur segl af tíu þegar smá gustur kom af suðri. Skipið vaggaði í golunni. Þegar annar heldur hraustlegri gustur kom skipti engum togum að Vasa hallaði svo mjög að sjór fossaði inn um fallbyssulúgurnar á bakborðshliðinni.

Skipverjar saumuðu sjálfir föt sín. Hér má sjá dæmigerðan klæðnað …
Skipverjar saumuðu sjálfir föt sín. Hér má sjá dæmigerðan klæðnað undirmanna. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Skipun var gefin um að draga inn bakborðbyssurnar og loka hlerunum, en ráðrúm gafst ekki til þess. Skipið sökk á nokkrum mínútum á 32 metra dýpi. Af þeim 130-150 manns sem talið er að hafi verið um borð fórust um 30-40, flestir þeirra lokuðust inni neðan þilja.

Björgun eftir 333 ár

Fáeinum áratugum eftir slysið tókst að bjarga flestum fallbyssunum á land. Eftir að möstrin voru fjarlægð féll skipið flestum í gleymsku uns fornleifafræðingurinn Anders Fransén fann það árið 1956. Björgunaraðgerðir hófust fljótlega og reyndust afar erfiðar og hættulegar. Skipið lá í fimm metra þykkri botnleðju. Grafa þurfti fern 20 metra göng undir skipið til að koma fyrir stálköplum svo hægt væri að lyfta skrokknum frá sjávarbotni. Það var hættulegt verk, en engin slys urðu við framkvæmdina.

Málverk af hinu volduga Vasa-herskipi sem aldrei komst út á …
Málverk af hinu volduga Vasa-herskipi sem aldrei komst út á opið haf. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Um 8000 skrúfboltar höfðu haldið skipinu saman, en allir höfðu þeir ryðgað burt eftir 333 ár í sjó. Þurfti því að festa skipsflakið rækilega saman svo óhætt væri að lyfta því upp. Eftir vandlegan undirbúning var Vasa loks lyft upp á yfirborðið 24. apríl 1961. Var þá mikið verk óunnið við hreinsun og söfnun muna skipverja og skipshluta sem lágu á víð og dreif kringum flakið. Margra ára verk var síðan að setja allt saman og verja fyrir skemmdum. Höfðu menn á orði að hér væri stærsta púsluspil allra tíma. Skipið reyndist þó furðu heillegt eftir allan þennan tíma, en helsta ástæða þess að það varðveittist svo vel var að engir trjámaðkar eru í nánast ósöltum sjónum við Stokkhólm, en þeir þrífast einungis í söltum sjó.

Vasa-safnið

Vasa-safnið var opnað í Djurgården við hátíðlega athöfn 15. júní 1990. Yfir milljón manns heimsækja nú safnið árlega, flestir þeirra erlendir ferðamenn. Áhrifaríkt og heillandi er að virða fyrir sér ekta herskip frá sautjándu öld sem hvergi á sinn líka. Um 95% timbursins eru úr upphaflegri smíði skipsins. Hægt er að virða fyrir sér skipið frá fimm hæðum og pöllum. Eftirmynd er af skipstjórnarklefa og fallbyssuþilfari. Fallbyssur og ýmsir einkamunir skipverja eru til sýnis.

Vaxmynd af Hans Jonsson sem var hátt settur skipverji. Hægt …
Vaxmynd af Hans Jonsson sem var hátt settur skipverji. Hægt var að þekkja hann af dýrum fatnaðinum utan á beinagrindinni. Vitað var að hann hafði misst stórutá hægri fótar Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Einar sautján beinagrindur fundust í skipinu og eru nokkrar þeirra í hvíldarstellingum í glerkössum á neðstu hæðinni. Auk þess hafa verið gerðar vaxmyndir af nokkrum skipverjanna. Við hliðina á Vasa er nákvæmt líkan í hlutfallinu 1:10 sem sýnir vel hvernig skipið var málað í gylltum og skrautlegum litum þegar það lagði í jómfrúferðina. Í bíósalnum er rakin öll saga skipsins frá smíðum til björgunar og varðveislu. Kaffitería er í safninu þar sem hægt er að fá sér hvíld og hressingu. Óhætt er að mæla með að fólk taki frá 4-5 klukkutíma í heimsóknina.

Sporvagn S7

Þegar hægri umferð var tekin upp í Svíþjóð árið 1967 var rekstri sporvagna hætt í Stokkhólmi. En um svipað leyti og Vasa-safnið opnaði var enduropnuð sporvagnaleiðin S7 milli miðborgar og Djurgården og nýtur leiðin mikilla vinsælda ferðamanna. S7 leggur af stað framan við stórverslunina Åhlens City við Klarabergsgatan 50. Hentugust fyrir Vasa-heimsókn er stoppistöðin framan við Norræna safnið.

Nokkrar heillegar beinagrindur af skipverjum eru til sýnis á neðstu …
Nokkrar heillegar beinagrindur af skipverjum eru til sýnis á neðstu hæðinni. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Djurgården var fyrr á öldum helsta veiðisvæði konungs. Nú er þar vinsælt útivistarsvæði Stokkhólmsbúa. Auk Vasa-safnsins má þar finna ABBA-safnið, tívolískemmtigarðinn Gröna Lund og Skansen sem er hliðstætt Árbæjarsafni, en þó öllu stærra í sniðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »