Delta ekki lengur með vetrarflug til Íslands

Farþegaþota Delta Air Lines á Keflavíkurflugvelli. Flugfélagið mun ekki lengur …
Farþegaþota Delta Air Lines á Keflavíkurflugvelli. Flugfélagið mun ekki lengur bjóða upp á vetrarflug til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines virðist ætla að hætta vetrarflugi til Íslands nú í  haust. Frá þessu er greint á ferðavefnum Túristi.is, en Delta hefur boðið upp á áætlunarflug hingað frá JFK flugvellinum í New York frá því árið 2011.

„Þrátt fyrir brotthvarf WOW air þá lítur út fyrir að stjórnendur bandaríska flugfélagsins sjái ekki tækifæri í að halda áfram að fljúga hingað allt árið um kring frá New York,“ segir í fréttinni. Á heimasíðu flugfélagsins er í dag aðeins hægt að bóka ferðir til Íslands fram til tuttugasta október og svo ekki að nýju fyrr en þriðja mars á næsta ári.

„Að Delta bætist nú í hóp þeirra sem ákveðið hafa að hætta flugi til Íslands eru slæmar fréttir ofan á það sem á undan er gengið,“ segir Steinþóri Jónssyni hótelstjóri Hótel Keflavíkur, og stjórnarmanni í FHG (Félagi fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu) í skriflegri yfirlýsingu til mbl.is. Ný farþegaspá frá Isavia ætti að vera komin og í því óvissu ástandi sem nú ríki þurfi slík spá að koma á minnst mánaðar fresti. „Sömuleiðis þarf að rækta samskipti við risafélög á borð við Delta, stappa í þau stálinu og tryggja hámarksframboð sæta frá lykilstöðum,“ segir Steinþór.

Næstu mánuðir og ár erfið nýjum hótelum

„Hitt er að Delta mun vonandi koma aftur næsta sumar og þennan tíma verða stjórnvöld að nýta sérdeilis vel til að búa öllum sem vilja horfa til Íslands á ársgrundvelli nýja og jákvæða sýn.“

Hann segir næstu mánuði og ár verða nýjum hótelum erfið. „Við Íslendingar erum stundum of stórtæk og gleymum gjarnan að það sem fer upp kemur alltaf niður,“ segir Steindór og bendir á að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki, þ.m.t. hótel- og gistiþjónustufyrirtæki þurfi nú sem endranær að stóla sig á að stjórnendur Icelandair haldi sjó  á næstu misserum. Þannig verði New York flugið t.a.m. að langstærstum hluta fyrir tilstilli Icelandair. 

Einn af hverjum ellefu Bandaríkjamönnum með Delta

Þegar Delta Air Lines hóf fyrst að fljúga til Íslands var í fyrstu aðeins um sumarflug að ræða, en síðustu þrjá vetur hefur Ísland jafnframt verið hluti af áætlun félagsins. Á þessu rúmlega fjögurra mánaða tímabili flaug Delta nærri sjötíu áætlunarferðir hingað til lands síðastliðinn vetur samkvæmt talningum Túrista, sem segir nærri lagi að flugfélagið hafi þá flutt hingað 8-9.000  bandaríska ferðamenn.

„Það jafngildir um það bil einum af hverjum ellefu Bandaríkjamönnum sem hingað komu frá byrjun nóvember og fram í lok febrúar síðastliðinn.“ Auk þess að hafa flogið daglega frá New York til Íslands yfir sumarið hefur Delta Air Lines einnig boðið upp á tíðar ferðir frá Minneapolis yfir háannatímann í ferðaþjónustunni.

„Þessi niðurskurður Delta á Íslandsflugi er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að WOW air var mjög stórtækt í flugi til New York og flaug þegar mest lét bæði til Newark og JFK flugvallar. Framboð á Íslandsflugi frá New York hafði því dregist töluvert saman en engu að síður hafa forsvarsmenn Delta ákveðið að gera hlé á áætlunarferðunum hingað til lands í lok október. Þar með er útlit fyrir að Icelandair verði eitt um áætlunarflug milli Íslands og New York í vetur enda hefur það til dæmis komið fram í máli forsvarsmanna United flugfélagsins að þeir sjá ekki tækifæri í að hefja heilsársflug til Íslands frá New York,“ segir í frétt Túrista.

mbl.is