4 bjargað, 8 enn saknað

AFP

Fjórum breskum fjallgöngumönnum hefur verið bjargað úr snjóflóði í Himalajafjöllunum, samkvæmt upplýsingum frá indverskum yfirvöldum í dag, en átta er enn saknað.

Áhöfn björgunarþyrlu kom auga á fjórmenningana skammt frá grunnbúðum Nanda Devi í dag og kom þeim til bjargar. Fjölmennt björgunarlið leitar nú fótgangandi í hlíðum fjallsins en slæmt veður hefur hamlað leit undanfarna tvo daga.

Að sögn yfirvalda eru þeir sem var bjargað ekki tengdir hópnum sem er leitað að en hóparnir tveir höfðu samt verið í sambandi sín á milli til 26. maí er snjóflóð féll í fjallinu. Vegna þess hve mikið hefur snjóað og veðrið verið slæmt sátu fjórmenningarnir fastir við grunnbúðir Nanda Devi. 

Ekkert er vitað um átta manna hópinn sem hóf göngu á fjallið 13. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert