Fyllist lotningu yfir fegurð Snæfellsness

Í sjónvarpsþáttunum Lambið og miðin matreiðir sjónvarpskokkurinn og læknirinn Ragnar …
Í sjónvarpsþáttunum Lambið og miðin matreiðir sjónvarpskokkurinn og læknirinn Ragnar Freyr dýrindismáltíðir í fallegu íslensku umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Kristján Kristjánsson, leikstjóri þáttanna, er sérstaklega hrifinn af Snæfellsnesinu, skiljanlega, og hafði hann ákveðna sýn á það hvernig við gætum kallað fram þetta einstaka landslag í gegnum matseld.

Við byrjuðum á bátsferð út frá Stykkishólmi með Símoni bláskeljakóngi, en eins og nafnið gefur til kynna þá ræktar hann bláskel í ísköldum sjónum rétt fyrir utan bæinn. Sú sjóferð galopnaði augu mín fyrir þessari ótrúlegu matarkistu sem Ísland er. Við veiddum bláskel, hörpuskel, þara, krabba og einstakt meðlæti sem Símon kallar hina íslensku trufflu, þaraskegg, en það er gróður sem vex í bergi eyjanna á Breiðafirði. Með þennan afla sigldum við svo í land, tilbúnir í matseld dagsins.

Viktor Örn og Ragnar Freyr elda saman ljúffenga bláskel.
Viktor Örn og Ragnar Freyr elda saman ljúffenga bláskel. Ljósmynd/Aðsend

Með bláskelina meðferðis ókum við yfir á Hótel Búðir þar sem landsliðskokkurinn Viktor Örn Andrésson bauðst til að kenna mér sína aðferð við að elda þennan einfalda veislumat. Það var kórónað með jurtum sem við tíndum úr nágrenni hótelsins. Fullur innblásturs fann ég svo einstaklega fallega fjöru rétt utan við Stykkishólm þar sem ég pönnusteikti hörpuskelina með tómötum og beikoni. Ég held svei mér þá að allir sjávarréttir smakkist betur séu þeir snæddir við sjávarsíðuna.

Lambið í sínu náttúrulega umhverfi.
Lambið í sínu náttúrulega umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Næsta kvöld ókum við til Grundarfjarðar og settum upp eldstæði við Kirkjufellsfoss og undir skínandi blóðappelsínugulu sólarlagi elduðum við einstaklega ljúffengt lambaprime fyllt með rjómaosti, sultu og borið fram á beði af íslensku byggotto. Þetta var svo snætt á meðan miðnætursólin skreið á bak við Kirkjufellið.

Og það er óhætt að segja að maður fyllist ákveðinni lotningu, þegar maður er staddur á jafnfallegum stöðum úti í guðsgrænni náttúrunni á íslenskri sumarnóttu að gæða sér á nýveiddu sjávarfangi sem og hinu einstaka íslenska lambakjöti. Það eru sannkallaðir töfrar.

Matreiðsluþátturinn Lambið og miðin er sýnt í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í kvöld en alla þættina má finna á Sjónvarpi Símans Premium. Uppskriftir úr þættinum er svo að finna á vefsíðunni Læknirinn í eldhúsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert