Gleðigöngur og hinseginhátíðir um heim allan

Gleðigangan í Amsterdam er raunar gleði-sigling, og farið á prömmum …
Gleðigangan í Amsterdam er raunar gleði-sigling, og farið á prömmum eftir síkjum borgarinnar. AFP

Fjölbreytileikinn og gleðin ræður ríkjum næstu vikuna þegar Hinsegin dagar fara fram í Reykjavík. Hátíðin breiðir núna úr sér yfir 9 daga af sýningum, fyrirlestrum og tónleikum, og nær hámarki í gleðigöngunni 17. ágúst.

En það þarf ekki að láta þar við sitja, því úti um allan heim eru haldnar jafnt stórar sem smáar hátíðir sem hampa litrófi mannlífsins og draga regnbogafánann að húni. Margir gera sér sérstaka ferð á þessa viðburði, enda fjörið miklu meira en hversdags, á meðan aðrir reyna að tímasetja borgar- og vinnuferðir þannig að megi líka fylgjast með – og jafnvel ganga í – risastórri gleðigöngu.

Hér eru nokkrar hátíðir sem enginn verður svikinn af: 

Sköpunargleðin fær að njóta sín í Madríd.
Sköpunargleðin fær að njóta sín í Madríd. AFP

Hinsegin dagar í Madríd

Gleðigangan í Madríd er sennilega sú stærsta í heimi og fer fram snemma í júlí. Miðstöð hátíðarinnar er í Chueca-hverfinu þar sem hinsegin fólk hefur átt samastað í gegnum árin og áratugina. Spánverjarnir kunna svo sannarlega að njóta lífsins og taka vel á móti gestum með tónlistarhátíðum, dragsýningum og villtu djammi. 

Hinsegin dagar í Amsterdam

Það leyfist engin flatneskja í helstu gleðigöngu Hollendinga og þykir gangan í Amsterdam einstaklega litrík. Hún er líka frábrugðin öðrum göngum að því leyti að ferðast er eftir síkjum borgarinnar á stórum prömmum. Viðburðurinn fer fram í byrjun ágúst ár hvert.

Í Mexíkóborg gengur fylkingin eftir aðalgötu borgarinnar, og fagnar ærlega …
Í Mexíkóborg gengur fylkingin eftir aðalgötu borgarinnar, og fagnar ærlega í hinseginhverfinu Zona Rosa. AFP

Hinsegin dagar í Mexíkóborg

Það er aldrei leiðinlegt að sækja Mexíkóana heim, og ferðin vel þess virði þó ekki væri nema til að fá smakka almennilegt takó. Hinseginsamfélagið í Mexíkóborg er risastórt, og hefur smám saman tekist að komast meira upp á yfirborðið í þessu rammkaþólska landi. Hátíðin er haldin seint í júní og liggur straumurinn í hinseginhverfið Zona Rosa miðsvæðis í borginni þar sem finna má aragrúa lítilla skemmtistaða og kaffihúsa fyrir alls konar fólk.

Hinseginhátíð New York er risastór, og við hæfi að fagna …
Hinseginhátíð New York er risastór, og við hæfi að fagna ærlega í borginni þar sem réttindabaráttan komst á skrið. AFP

Gleðigangan í New York

Öllum er hollt að fara í pílagrímsför til New York, á slóðir Stonewall-óeirðanna. Það var í þessari mögnuðu borg sem hinsegin fólk sneri vörn í sókn gegn fordómum og ofsóknum svo til varð hreyfing sem smám saman breiddi úr sér um allan heim. Gangan í New York er, vitaskuld, risastór og endar á sjálfum miðpunkti heimsins: Times Square.

Í dag dreifist hinseginsamfélagið um alla borgina en hjartað slær enn í Greenwich Village, á svæðinu í kringum Stonewall-barinn, og gaman að fá sé þar sopa af kaffi, bjór eða einhverju sterkara.

Hátíðin fer fram seint í júní.

Aðrar hátíðir til að skoða:

Nefna má margar aðrar hinseginhátíðir sem gaman er að sækja, en ekki er hægt að segja frá í smáatriðum vegna plássleysis. Þannig verður enginn svikinn af gleðigöngum helstu stórborga Evrópu, allt frá París og London til Berlínar og Rómar.

BDSM-hátíðin á Folsom Street í San Francisco fer fram seint í september og gleðigangan í Stokkhólmi í byrjun ágúst. Tel Aviv á líka heima á þessum lista, en þar fer hátíðin fram fyrri hluta júní og í Ríó er enn meiri gleði en venjulega í kringum mánaðamótin október-nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert