Það sem ekki má gera í Róm

Spænsku þrepin eru vinsæll viðkomustaður ferðamanna, og kannski eins gott …
Spænsku þrepin eru vinsæll viðkomustaður ferðamanna, og kannski eins gott að ekki sé verið að teppa umferð gangandi fólks með því að setjast þar niður. AFP

Ferðavefurinn fjallaði um það fyrr í sumar hvernig yfirvöld í Feneyjum beita háum sektum til að refsa ferðalöngum sem slæpast í kringum sögulega staði og spilla fögru borgarlandslaginu með nærveru sinni. Fyrir það að liggja í sólbaði, taka sundsprett í síki eða kjamsa á snarli þar sem ekki má hættir fólk á að sitja uppi með risasekt auk þess að vera rekið úr borginni og bannað að koma þangað aftur. Eiga þessar reglur, og mörg ný ákvæði af svipuðum toga, að stuðla að því að gera Feneyjar að vistlegri og umhverfisvænni stað.

Bannað að hvíla sig

En það er ekki bara í Feneyjum sem ferðalangar fá háar sektir fyrir tiltölulega sakleysislegt athæfi. Fyrr í mánuðinum ákvað borgarstjórn Rómar að fólk sem tyllir sér á Spænsku þrepin til að hvíla lúin bein skuli fá 400 evra sekt, jafnvirði 55.000 kr. Hingað til hefur það verið algeng sjón að sjá ferðamenn sitjandi á þessum lengsta og breiðasta tröppugangi álfunnar enda fallegur staður og ódýrt að slaka þar á í stutta stund og gæða sér á nesti eða sjoppusamloku, frekar en að skjótast inn á veitingastað.

Áður en sektum er beitt á lögreglan þó að stugga við þeim sem gera sig líklega til að setjast á þrepin. Ítalskir lögreglumenn eru þekktir fyrir að láta vel í sér heyra og ljóst að þarf því einbeittan brotavilja til að sitja uppi með sektina.

Er þessi sekt ekki miklu lægri en sú refsing sem beitt er á þá sem stíga fæti í Trevi-gosbrunninn, en sá sundsprettur kostar 450 evrur eða tæpar 62.000 kr.

Lögreglumaður hefur nánar gætur á ferðafólki á Spænsku þrepunum. Flauthljóðið …
Lögreglumaður hefur nánar gætur á ferðafólki á Spænsku þrepunum. Flauthljóðið heyrist örugglega langar leiðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert