Gerðu þetta áður en þú ferð í frí

Gerðu þetta áður en þú ferð í frí.
Gerðu þetta áður en þú ferð í frí. mbl.is/Pexels

Maður getur eytt löngum tíma í að skipuleggja ferðalagið og hugsa um hvert einasta smáatriði. Það sem gleymist oft er að huga að því að koma heim. Það má ýmislegt gera til að búa þannig í haginn að það verði ekki ömurlegt að koma heim eftir gott frí eða skemmtilegt ferðalag. 

Lagaðu til

Það er fátt verra en að koma heim og allt er á rúi og stúi. Þú ert mun ólíklegri til að nenna að taka upp úr töskunum strax þegar allt er í drasli. Lagaðu til og þurrkaðu létt af áður en þú ferð að heiman. Þá líður þér mun betur þegar þú kemur heim. 

Skiptu á rúminu

Eftir nætur á hóteli eða gistihúsi er fátt betra en að skríða upp í sitt eigið rúm. Til að auka vellíðanina skemmir ekki fyrir að hafa sett hreint á rúmið áður en þú fórst.

Taktu til í ísskápnum

Það er hreint út sagt ekki gaman að koma heim og rotnunarlykt tekur á móti þér. Ef þú ert á leið í langt ferðalag, lagaðu þá til í ísskápnum og borðaðu eða gefðu þann mat sem þú veist að skemmist á meðan þú ert í burtu.

Farðu í búðina

Ef þú ert hins vegar að fara í stutt frí gæti borgað sig að passa að helstu nauðsynjar séu til svo þú þurfir ekki að fara beint út í búð þegar þú kemur heim. En ef þú ert að fara í langt ferðalag gæti verið sniðugt að taka bara til í ísskápnum og punkta það hjá sér að panta matvörur í heimsendingarþjónustu daginn sem þú kemur heim. Þá þarftu ekki að fara beint í búðina eftir heimkomu.

Taktu raftæki úr sambandi

Sum raftæki eyða rafmagni þótt það sé slökkt á þeim. Taktu allt úr sambandi sem má taka úr sambandi á meðan þú ert í burtu. Það getur lækkað rafmagnsreikninginn. 

Talaðu við nágranna

Ef þú ert á leið í lengra ferðalag er sniðugt að tala við nágranna sem þú treystir og láta hann fá lykil eða bara biðja hann að fylgjast með. Þá kemurðu ekki að kofanum tómum þegar þú kemur heim eftir fríið.

Að koma heim í hrein rúmföt er hreinn unaður.
Að koma heim í hrein rúmföt er hreinn unaður. mbl.is/Pexels
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert