Gerðu þetta svo taskan týnist ekki

Mundu að taka allt af töskunni áður en þú heldur …
Mundu að taka allt af töskunni áður en þú heldur í nýtt ferðalag. mbl.is/Pexels

Það er fátt leiðinlegra en að vera kominn á áfangastað og komast að því að taskan kom ekki með. Það er sjaldan eitthvað sem maður getur gert í því, en það er þó eitt sem þú getur gert til þess að minnka líkurnar á að taskan þín týnist. 

Það er að passa að taka öll strikamerki af töskunni áður en þú tékkar hana inn fyrir næsta flug. Við tökum flest stóra límmiðann af töskunni, sem yfirleitt er límdur á handfangið af töskunni. Þegar þú tékkar inn tösku er annað strikamerki límt á töskuna til öryggis. Mörgum yfirsést að taka það af þar sem það er mun minna en stóri límmiðinn.

Það strikamerki er auka strikamerki, sem er skannað ef stóri límmiðinn týnist. Stóri límmiðinn týnist þó sjaldan og aðeins 3% af týndum töskum týnast af því að stóri límmiðinn rifnaði af. Á stóra límmiðanum eru allar helstu upplýsingar um hvaðan taskan er og hvert hún er að fara. Litla strikamerkið gefur þessar upplýsingar einnig. 

Ef það eru önnur lítil strikamerki á töskunni geta þau strikamerki verið skönnuð í misgripum fyrir rétta strikamerkið. Þá getur það ruglað kerfið og taskan þín fer í annað flug eða það seinkar ferð töskunnar þinnar um flugvöllinn. Þar af leiðandi gæti taskan þín misst af tengifluginu þó að þú gerir það ekki. 

Flugvallarstarfsmenn eiga að taka allar gamlar merkingar af töskunni þinni áður en þeir setja nýjar merkingar á hana. Þeim getur hinsvegar yfirsést og því er mikilvægt að koma því inn í rútínuna, ef þú ferðast mikið, að muna að fjarlægja litlu strikamerkin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert