Á skautum á flugvellinum

TWA flughótelið býður upp á skemmtilega nýjung. Er ekki amalegt …
TWA flughótelið býður upp á skemmtilega nýjung. Er ekki amalegt að geta skellt sér á skauta á meðan beðið er eftir næsta flugi? Dreamstime.com//vkovalcik

Flugfarþegar sem millilenda á JF Kennedy flugvellinum í New York geta nú skellt sér á skauta á meðan þeir bíða eftir næsta flugi á glænýju skautasvelli á TWA hótelinu.

Skautasvellið mun opna þann 30. nóvember og verður opið alla daga vikunnar út febrúarmánuð. Þetta þýðir að millilendingin, eða seinkun á flugi í nokkrar klukkustundir, í New York getur orðið hin besta skemmtun. Það kostar 15 dollara að renna sér á svellinu og hægt að leigja skauta á 10 dollara í viðbót. Verðið er lægra fyrir börn yngri en 12 ára. Hótelið selur einnig húfur og trefla sem getur komið sér vel fyrir ferðalanga sem eru á leið á heitari slóðir en dettur allt í einu í hug að skella sér á skauta.

Koníakstofa í flugvél

TWA flugvallarhótelið opnaði í vor og er að mörgu leyti öðruvísi en önnur flugvallarhótel. Skemmtilegur retró fílingur er á öllu þar inni og til að mynda skífusími á hótelherbergjunum. Það er sundlaug og sólbaðsaðstaða á þakinu með útsýni yfir flugvöllinn og risastór líkamsræktaraðstaða. En það sem hótelið er kannski frægast fyrir er koníakstofan sem er staðsett í Connie, gamalli flugvél sem stendur við hótelið.  Það kemur því kannski ekki á óvart að hótelið bjóði nú upp á skautasvell ofan á allt hitt óvenjulega sem er þar í boði. 

mbl.is