„Flutti til Edinborgar fyrir innblástur“

Hildur Erna flutti til Edinborgar nýverið frá London.
Hildur Erna flutti til Edinborgar nýverið frá London. Ljósmynd/Ragnheiður Kolka Sigurjónsdóttir

Hildur Erna Sigurjónsdóttir flutti nýverið frá London til Edinborgar. Hún hafði búið í London í þrjú ár en vildi skipta um umhverfi til að sinna listinni í rólegra umhverfi. Hún segir Edinborg áhugaverða rólega borg og á draumadegi sínum myndi hún eflaust sitja úti í sólinni og spila skák við borgarbúa.

„Það eru meiri læti í London og vildi ég einbeita mér að listinni minni og næstu skrefum á þeirri braut. Ég er einnig að reyna finna út til hvaða lands ég ætti að flytja til næst, en löndin á toppnum á listanum eru Suður-Afríka og Portúgal. En hver veit — ég gæti skipt um skoðun á morgun og farið eitthvað allt annað.“

Flutti til London vegna listarinnar

Hildur var í háskólanámi í Flórens á Ítalíu þar sem hún stundaði listnám með áherslu á notkun ljósmyndamiðilsins og nýja miðlun.

„Fjórum mánuðum eftir útskriftina fluttist ég síðan til London til að öðlast nýjan innblástur og reyna að koma mér á framfæri þar sem listamaður. Í London fékk ég að vera þátttakandi í nokkrum samsýningum og fékk ýmiss konar listtengd verkefni hér og þar. Ég vann síðan í aukavinnu á ljósmyndaverkstæði og svo á hinum rómaða Arcola Bar sem er leikhúsbar. Þar starfaði ég með listamönnum á öllu sviðum. Öðru hvoru kom þekkt fólk á barinn eins og Mick Jagger og Tom Hiddleston og fleiri sem krydduðu aðeins upp á vinnuna, haus og hjarta.
Ég gerði líka oft mismunandi verkefni til að fá aukapening og þannig kynntist ég fleira fólki í sama iðnaði og ég. Sem dæmi var ég ásamt um tíu öðrum listamönnum ráðin til að pakka niður hnappaverksmiðju fyrir listamanninn Ai Wei Wei. Sem var skemmtileg reynsla og sannarlega óvænt!“

View this post on Instagram

Limo lomo . . . . #hildurerna #london #icelandic #artist #photography #blackandwhite #pizza #oldie #me

A post shared by ☾ Hildur Erna (@hildurernaa) on Mar 2, 2018 at 8:48am PST

Hvað er efst á baugi í Edinborg?

„Ég er að einbeita mér að því að vinna að nýjum verkum og á sama tíma að vinna að sýningum. Ég er til dæmis með tvö verk á stórri samsýningu hér í Edinborg núna. Framtíðamarkmið mitt er að skjóta föstum rótum einhvers staðar, vinna við listina og spreyta mig í henni og svo til hliðar að reka mína eigin reiki-stofu.“
 
Hvað er áhugavert við borgina sem þú býrð í?

„Edinborg er allt öðruvísi en allar borgir sem ég hef farið til og búið í. Á meðan London er frekar erilsöm — mikið um að vera og alltaf hægt að finna eitthvað nýtt og skemmtilegt á öllum áhugasviðum — þá er andrúmsloftið í Edinborg frekar rólegt og afslappað. En Edinborg er ofboðslega sjónræn og skemmtileg og stemmningin yfir henni yndisleg. Ég finn mikið fyrir gömlum töfrum þegar ég geng hérna um. Það sem er mest áhugavert er náttúrulega þessi risastóri kastali uppi á hæð í miðri borginni, en í hvert skipti sem ég sé hann átta ég mig á hvar ég er og hvað ég er heppin að geta upplifað þessa mögnuðu borg á hverjum degi. Einhver sagði mér um daginn að kastalinn væri reistur á „tappa“ á 350 ára gömlu eldfjalli, sem jók enn á tilfinninguna fyrir sögunni. Svo er það líka gamli bærinn, sem er staðsettur fyrir neðan kastalann og einkennist af pínulitlum götum, allt of löngum stígum, æðislegum börum og öðru skemmtilegu. Sem Harry Potter-aðdáandi skil ég vel þann innblástur sem Edinborg var fyrir J.K. Rowling, höfund bókanna, en kastalarnir í borginni og umhverfið eykur sannarlega á töfra ímyndunaraflsins.“

Lifandi tónlist í miklu uppáhaldi 
 
Hvað er skemmtilegast að gera fyrir unga konu eins og þig í borginni?

„Í London er alltaf skemmtilegt að fara í einhverja af görðunum eins og Victoria Park, London Fields eða Hampstead Heath, og lesa bók, rölta um, eða vera með vinum. Svo fór ég á tónleika að minnsta kosti nokkrum sinnum í viku og var alltaf að kynnast nýjum hljómsveitum til að hlusta á.

Í Edinborg finnst mér gaman að ganga um, villast og kynnast nýjum hlutum af borginni. Að  finna svo hverfiskrárnar og fá mér einn kaldan þar. Þar er yfirleitt hægt að hlusta á gömlu karlana rausa og aldursbilið á þessum börum er algjörlega frá ungum upp í aldna. Svo
er lifandi tónlist í miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem það er í Usher Hall sem er eins og
Harpan heima í Reykjavík, eða klúbbur eða krá þar sem menn sitja og spila skosk þjóðlög. Fyrir þá sem hafa gaman af lifandi tónlist þá ættu menn að rölta á milli Captains Bar, The Royal Oak og enda svo á Sandy Bell, en þetta eru litlar krár sem bjóða upp á lifandi þjóðlagatónlist á hverjum degi. Það er oft mikið stuð á þessum stöðum — ekki síst um helgar.“
 
Hvernig er fólkið í borginni?

„Fólkið hérna í Edinborg er yndislegt og einstaklega þægilegt í allri viðkynningu. Eitt sem kom mér rosalega á óvart er að fólk bíður í röð í strætóskýlunum og gengur síðan inn í vagnana í halarófu. Í London var þetta öfugt; fólki fannst minnsta málið að troða sér fyrir framan mann til að komast á undan í vagninn. Hérna er það ekki tekið í mál og fólk lætur heyra í sér ef því finnst að maður hafi troðið því um tær. Fólkið hér í Edinborg er sem sagt mjög kurteist og ég held að besta dæmið um það sé að þegar fólk fer út úr strætisvögnunum þá þakkar það strætisvagnabílstjóranum fyrir sig með því að segja takk eða skál (e. thanks, cheers).“

Mikið að gerast í menningarlífi Edinborgar

Hvernig er menningin?

„Yfirbragð Edinborgar í menningarlegu tilliti er mjög rólegt. En maður má kannski ekki láta blekkjast af því. Allt árið um kring eru ýmsar hátíðir og hér er hægt að sækja viðburði af miklum gæðum, hvort sem það er á sviði tónlistar, leiklistar eða annarra listgreina. Fringe Festival er stærsta hátíð borgarinnar sem er á hverju ári í ágúst. Borgin umbreytist á meðan hún stendur yfir og það eru leikrit, sýningar, tónleikar og uppistand úti um allt í heilan mánuð. Ég mæli eindregið með því að fólk sæki þessa hátíð en þar er hægt að finna ótrúlega margt spennandi og skemmtilegt eins og sjá má af 500 blaðsíðna bæklingi hátíðarinnar sem prentaður er með afskaplega smáu letri. Íslendingar hafa líka tekið þátt í þessari hátíð og var til dæmis Ari Eldjárn með uppistand nú í ár.

Menningin í London er allt önnur, auðvitað er miklu fleira fólk þar. En hún er hröð og svolítið svona „go-go-go“-stemmning í gangi. Í Dalston, hverfinu sem ég bjó seinast í í London, var oftast brjálæðislega margt fólk, sérstaklega þar sem ég bjó fyrir ofan Ridley Road Market sem er risastór markaður með öllu mögulegu. En það var æðislegt að getað gengið út beint á markaðinn og vera umkringd alls konar fjölbreytilegu fólki og finna margvíslega staði.“

 
Áttu þér uppáhaldsstað að versla á?

„Ég er nú ekki mikið fyrir það að hanga í búðum; ég leita frekar uppi föt eða annað þegar ég þarf á þeim að halda, en þá verslaði ég í London, aðallega á mörkuðum eins og Brick Lane eða Broadway Market eða „second hand“-búðum eins og Traid. Broadway Market er alltaf á laugardögum og er með alls konar skemmtilega hluti. Brick Lane er mun stærri en er æðislegur fyrir skemmtileg „second hand“- eða „vintage“-föt.

Í Edinborg er rosalega mikið af „vintage“- og „second hand“-búðum sem selja notuð föt og ýmislegt annað sem fólk þarf til að reka sig. Yfirleitt eru þær búðir á vegum einhverra samtaka sem styrkja góð málefni. Ef ég ætti að velja búð til að mæla með að kíkja í myndi það líklegast vera Armstrongs Vintage, sem er hérna á nokkrum stöðum í borginni. Búðirnar eru með mjög flott föt á mjög lágu verði. Það er alltaf gaman að kíkja í hana. Af öðrum búðum í Edinborg þá eru auðvitað þessar klassísku; eins og Primark, Zara og fleiri af þeim toga og er þær allar að finna við aðalverslunargötuna hérna, Princess Street. Einnig eru aðrar sambærilegar verslanir á George Street sem liggur samhliða Princess Street. En maður reynir að halda sér frá þeim. Ég mæli eindregið með því að fólk fari aðeins út fyrir þessar hefðbundnu verslunargötur og gangi til dæmis St. Patrick Street og South Clerk Street. Þar eru litlar búðir og veitingastaðir og kaffihús sem gaman er að heimsækja. Ef menn hafa pening á milli handana er freistandi að fara á veitingastaði sem eru í kringum St. Andrews Square.“

Safnar vinum frá öllum stöðum
 
Ertu búin að eignast marga góða vini og kannski fyrirmyndir á staðnum?

„Ég hef eignast mjög marga og góða vini í London, þau vinabönd hafa gert mér kleift að kynnast nýjum stöðum í London eins og River Lea í Hackney Marshes sem er æðislegur staður til að fara á að sumri til og sprikla aðeins í vatninu með fallegu sólargeislana skimandi í gegnum trén. Fólk sem ég kynntist í Flórens hefur einnig komið til London í heimsókn og þá höfum við slett úr klaufunum saman eins og til dæmis á Barbican-safninu eða í BAPS Shri Swaminarayan Mandir sem er Hindúa-hof í Neasden; gullfallegur staður og gaman að fara þangað ef maður er tilbúinn í smá öðruvísi stemningu heldur en er í miðborginni. Ég gerði það að markmiði að reyna að halda mér frá félagslífinu hérna þegar ég flutti til Edinborgar og reyna að einbeita mér að öðrum hlutum. Ég á nokkra vini hérna sem er fínt að hitta einstöku sinnum þegar ég hef þörf fyrir að dansa aðeins. En mér finnst það nefnilega mjög gaman og gefandi. Í Flórens og London hef ég eignast yndislega vini sem ég tel vera hluta af minni fjölskyldu. Þeir eru allir rosalega skapandi, hvort sem er í tónlist, myndlist, tísku eða kvikmyndagerð. Þeir veita mér mikinn innblástur og stuðning. Ég hef verið rosalega heppin með að kynnast hinu besta fólki og já — ætli ég telji ekki bara mína allra nánustu vini vera einhvers konar fyrirmyndir!“
 
Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Í London væri uppáhaldsstaðurinn minn líklegast Bún Bún Bún, sem gerir ótrúlega góðan víetnamskan mat. Svo eru Lyle’s, The Barge House og Cafe Route líka æðislegir. Allir þessir staðir eru í Austur-London og frekar hagstætt að versla þar. Ég hef farið á nokkra góða veitingastaði í Edinborg. Til dæmis fór ég á spænskan tapas-stað hérna sem heitir Cafe Andaluz sem var rosalega góður og vel staðsettur í miðborginni. Svo er pizzastaðurinn Pizza Express (sem er líka í London) geggjaður, en hann er hægt að finna í miðborg Edinborgar og í Morningside-hverfinu þar sem ég bý. Á Morningside Road er fullt af góðum veitingastöðum og litlum sætum búðum sem gaman er að heimsækja. Annars er ég meira fyrir að elda bara heima og læra nýjar uppskriftir (eða henda öllu saman sem er í ísskápnum og sjá hvað gerist).“

Myndi spila skák í sólinni við Skota
 
Hvernig myndir þú eyða draumadegi þínum á þessum stað?

„Í London væri draumadagur minn líkur mjög mörgum þeim dögum sem ég nú þegar haft; ég myndi hitta vini mína snemma um morguninn og fara í eitthvert óvænt ævintýri. Slíkur draumadagur væri þá til dæmis að byrja á því að fara á einhverja listasýningu, rölta um hverfið sem hún er í, finna einhvern skemmtilegan stað til að borða á, og enda svo á því að fara í Sushi Samba-lyftuna upp og niður, (mér líður alltaf eins og ég sé að fljúga yfir borgina þar sem lyftan er alveg gegnsæ úr gleri) og mögulega fá einn eða tvo kokteila þar. Til að kóróna enn frekar daginn væri svo upplagt að fara á gott „reivi“ um kvöldið.
Draumadagurinn minn í Edinborg myndi byrja á því að taka mér göngutúr í miðbæinn og fá mér kaffibolla í Princess Street Gardens sem er beint fyrir neðan kastalann og mögulega spila skák þar í sólinni við einhvern Skota (Chess in the Park, eru á Facebook). Síðan að fara á einhvern viðburð sem væri í gangi þann daginn og upplifa eitthvað nýtt. Svo myndi ég kannski ganga upp á Arthurs Seat eða Blackford Hill, horfa yfir borgina og sólsetrið og enda svo daginn með lifandi tónlist einhvers staðar í nágrenni við þessar skemmtilegu gönguleiðir.“
 
Saknarðu Íslands?

„Ég sakna fjölskyldunnar og vinanna mjög mikið. Sá söknuður hellist yfir mig annað slagið. Það væri aldeilis fínt ef þau gætu farið með mér hvert sem ég fer. En ég slæ þá á þráðinn til þeirra eða fæ einhvern til að heimsækja mig eða ég hoppa þangað í nokkra daga. Ég get nú ekki sagt að ég sakni veðursins á Íslandi. Hér í Bretlandi er veðráttan frekar mild og þó að það geti orðið kalt, og ekki síst inni í húsum, þá er auðvelt að halda á sér góðum hita með kyndingu eða hlýjum fatnaði.“ 

mbl.is