Algengara að fólk fari á minna þekkta staði

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn.
Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrval Útsýn.

Þegar Þórunn er spurð að því hvað sé spennandi við ferðabransann nefnir hún aðallega það hvað það séu örar breytingar í þeim bransa og hann kalli stöðugt á ný tækifæri. Spurð hvernig ferðalög fólks séu að breytast segir hún að fólk fari víðar en áður.

„Það sem hefur breyst er að fólk hefur meira þor til að fara á staði sem eru minna þekktir. Einnig að nú fer fólk oftar í bæði styttri og lengri ferðir,“ segir Þórunn.

Hefur það komið niður á ferðaskrifstofum að fólk panti ferðir sjálft á netinu?

„Ég get ekki sagt að það hafi komið niður á ferðaskrifstofunum þar sem ferðaskrifstofur hafa boðið þá þjónustu að fólk bóki á netinu. Við erum stöðugt að efla okkar þjónustu og úrval fyrir okkar viðskiptavini á netinu.“

Hvað græðir fólk á því að láta ykkur bóka fyrir sig ferðina?

„Ég myndi ekki nota orðið græða enda keppumst við við að hafa hagstæðustu kjörin á hverjum tíma. Það sem skiptir máli er að þegar ferð er keypt hjá okkur þá erum við með fararstjóra á okkar sólaráfangastöðum, 24 tíma vaktsíma ef eitthvað kemur upp á meðan á dvöl stendur. Einnig ef þarf að gera breytingar á ferðalaginu þá erum við sérfræðingar í að leiðbeina með þær breytingar og finna hagkvæmasta kostinn hverju sinni,“ segir hún.

Hver er þinn uppáhaldsáfangastaður?

„Einn af uppáhaldsáfangastöðum mínum er St. Martin, sem er eyja í Karíbahafinu. Þar hef ég átt mitt besta frí með fjölskyldunni. Eyjan er lítil og þar er vingjarnlegt fólk.“

Í hvernig frí finnst þér best að fara?

„Mér finnst best að fara í frí þar sem ég næ að spila smá golf, þar sem er líflegt mannlíf og líka afslappað umhverfi.“

Hvað drífur þig áfram í vinnunni?

„Það sem drífur mig áfram eru nýjungarnar í okkar umhverfi og að ná að gera betur á hverjum degi. Hafa gaman af því sem ég er að gera á hverjum tíma.“

Hvernig mun ferðabransinn breytast á næstu árum?

„Hann mun halda áfram að þróast í þá átt að það heldur áfram að verða fjölbreytileiki í því sem er verið að bjóða upp á á áfangastöðunum, flugi og tækni.“

St. Martin í Karabíska hafinu er í miklu uppáhaldi hjá …
St. Martin í Karabíska hafinu er í miklu uppáhaldi hjá Þórunni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert