Frá Tene til Gran Canaria á 20 evrur

Á leið til Tenerife. Það er tiltölulega ódýrt að ferðast …
Á leið til Tenerife. Það er tiltölulega ódýrt að ferðast á milli kanarísku eyjanna. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Áttu erfitt með að velja á milli Tenerife og Gran Canaria? Af hverju ekki að heimsækja báðar eyjarnar í einni og sömu ferðinni? Að fljúga á milli er nefnilega afar ódýrt. 

Ódýrasta flug á milli eyjanna er á 20 evrur, með innritaðri tösku, hjá Canary Fly en þá er lent á flugvellinum Tenerife Norte. Þeir sem vilja hins vegar frekar lenda á Tenerife Sur-flugvellinum geta valið flug með Binter Canarias en ódýrasti flugmiðinn hjá þeim er á 30 evrur. 

Það er líka hægt að komast með ferju á milli eyjanna. Fyrirtækin Armas og Fred Olsen sigla á milli. Farið er frá höfuðborginni Santa Cruz de Tenerife, annaðhvort til bæjarins Agaete á Gran Canaria eða til höfuðborgarinnar Las Palmas de G.C. Fyrir þá sem eru á leið með bíl á milli er þetta hentugur ferðamáti. Ferðatíminn er hins vegar aðeins lengri ef sjóleiðin er valin en ekki tekur nema hálftíma að fljúga á milli. 

Suðurhluti Tenerife séður úr lofti. Það er hlægilega lágt verð …
Suðurhluti Tenerife séður úr lofti. Það er hlægilega lágt verð á flugi milli Gran Canaria og Tenerife og því tilvalið að hoppa þar á milli. Ljósmynd/Snæfríður Ingadóttir

Ódýrara flug fyrir heimamenn

Þegar flug eða ferjumiðar eru pantaðir er mikilvægt að hafa í huga að það er tvöföld verðskrá í gangi á Kanaríeyjum. Þeir sem eru með fasta búsetu á Kanaríeyjum greiða mun minna fyrir innanlandssamgöngur en aðrir. Ferðamenn þurfa því að haka við „non resident“ til þess að fá rétt verð. Kanarísku eyjarnar eru alls átta talsins (áttunda eyjan Graciaosa var samþykkt sem sjálfstæð eyja ekki alls fyrir löngu) svo það er úr nægum möguleikum að velja fyrir þá sem eru að leita að nýjum upplifunum á þessum slóðum. Eyjahopp gæti því verið skemmtilegur kostur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert