Var mánuð á leiðinni frá Englandi til Kína

Roger Tyers á leið sinni til Kína.
Roger Tyers á leið sinni til Kína. Ljósmynd/Roger Tyers

Félagsfræðingurinn Roger Tyers, 37 ára, ferðaðist á milli Southampton á Englandi til austurhluta Kína á heldur óvenjulegan máta. Tyers ferðaðist með 24 lestum, í gegnum níu lönd og var ferðin samtals 21.726 kílómetra löng. 

Tyers var mánuð á leiðinni á áfangastað og kostaði ferðin rúmlega 2.500 Bandaríkjadali, eða rúmlega 300.000 krónur, sem er þrisvar sinnum það sem flugmiði hefði kostað. Áfangastaðurinn var hafnarborgin Ningbo, en þangað fór hann til að sinna rannsóknarvinnu í maí síðastliðnum. 

Tyers segist hafa valið þennan ferðamáta vegna loftlagsbreytinga, en honum er mjög umhugað um að minnka kolefnisfótspor sitt. 

Í samtali við CNN segir Tyers að hann hafi fundið sig knúinn til þess að láta af flugsamgöngum á síðasta ári þegar loftlagssérfræðingar Sameinuðu þjóðanna vöruðu við því að heimurinn hefði aðeins 11 ár til þess að koma í veg fyrir hörmulegar afleiðingar hlýnunar jarðar. 

Tyers ferðaðist með lest frá Southampton til London. Þaðan fór hann til Brussel í Belgíu, þaðan til Cologne í Þýskalandi og þá til Berlín. Frá Berlín fór hann til Varsjá í Póllandi, til Kíev í Úkraínu, til fjögurra mismunandi áfangastaða í Rússlandi og þá komst hann loks til Peking í Kína. Frá Peking fór hann til Shanghai og þaðan til Ningbo. 

Tyers segist hafa reiknað út að loftmengun vegna lestarferðalagsins hafi verið 90% lægri en ef hann hefði ferðast með flugvél. 

Kolefnisspor flugfarþega reiknast út frá mörgum þáttum, meðal annars hve löng flugferðin er og hve margir farþegar eru um borð í vélinni. Kolefnisfótspor einstaklinga sem ferðast með lestum ræðst meðal annars af því hver orkugjafi lestarinnar er. 

Í dag eru flugsamgöngur ábyrgar fyrir um 2% af útblæstri mannkynsins. Samkvæmt CNN mun það hlutfall verða 22% árið 2050 að öllu óbreyttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert