Hefur eignast vini víða um heim með heimilaskiptum

G. Pétur á góðri stund í Berlín.
G. Pétur á góðri stund í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

G. Pétur Matthíasson er fyrrverandi blaðamaður og nú forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar. Hann hefur áralanga reynslu af heimilaskiptum erlendis 

Á ferðalögum sínum hefur G. Pétur meðal annars farið til Parísar, Berlínar, Bordeaux og Buenos Aires. Hann segir heimilaskipti hafa fleiri kosti en að spara útgjöld þar sem allt fríið verði mun afslappaðra. Þar að auki hefur hann eignast vini víða um heiminn í gegnum heimilaskiptin, sem eru mun persónulegri heldur en hótelgisting.

Af hverju ákvaðstu að prófa heimilaskipti til að byrja með?

Ég hafði átt í einum húsaskiptum í Danmörku seint á síðustu öld og það reyndist mjög vel í alla staði. Fyrir nokkrum árum sló ég svo til í að reyna aftur og þá í gegnum síðu á vefnum enda hafði ég bara heyrt góðar reynslusögur frá vinum mínum. En tilgangurinn er í grunninn að spara útgjöld en það verður ekki aðalatriðið þegar frá líður. En hugsunin var líka sú að geta verið heldur lengur á hverjum stað og t.d. hafa aðgang að bíl til að komast um án þess að það þyrfti að kosta hálfan annan helling. Þegar maður er tvær til þrjár vikur á einum stað nær maður miklu betur að slappa af á sama tíma og ná að sjá allt sem mann langar til á svæðinu. Það er miklu meira frelsi en að vera á hóteli.

Á Tiger-ánni.
Á Tiger-ánni. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig gekk fyrsta skiptið? Lærðirðu eitthvað mikilvægt á því?

Fyrsta skiptið var í raun á Jótlandi í Danmörku og þar lærði ég að það er mikilvægt að sá sem er gestur geti leitað sér aðstoðar, enda lenti ég í því að bíllykillinn brotnaði í svissinum. Gestgjafinn var hins vegar búinn að útlista á greinargóðan hátt hvað gera þyrfti ef eitthvað kæmi upp á og var sjálfur með þjónustu. Þannig að ég þurfti ekki annað en að hringja eitt símtal og við og bíllinn vorum sótt, við keyrð „heim“ og bíllinn í viðgerð. Þannig að það var aldrei neitt stress. En fyrsta skiptið núna upp á síðkastið var til Parísar í gegnum Intervac-síðuna og það gekk dáyndisvel. Við gátum reyndar ekki fengið bíl á móti okkar en það kom ekki að sök þar sem það er ástæðulaust að vera á bíl í París. Gestgjafar okkar náðu í okkur á flugvöllinn og þar sem þeir komu líka um morguninn til Parísar, daginn sem við áttum far heim, þá fengum við líka skutl á flugvöllinn. Frábært alveg. Og að vanda voru þeir hæstánægðir með Íslandsdvölina. 

Á búgarðinum í Buenos Aires.
Á búgarðinum í Buenos Aires. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hafa skiptin eftir það gengið?

Hin skiptin í Berlín, Bordeaux og Buenos Aires í Argentínu hafa öll gengið algerlega snurðulaust fyrir sig. Í Berlín og Bordeaux hittum við okkar gestgjafa þegar við fórum út og er það nokkuð þægilegra að hitta fólk í upphafi. Í Argentínuferðinni hittum við ekki fólkið en áttum í góðum samskiptum á WhatsApp auk þess sem við fengum fjölskyldumeðlimi hér heima til að taka á móti þeim og aðstoða. Það er mikilvægt að hafa góð tengsl þótt fólk hittist ekki. Í gegnum samtal á WhatsApp sá ég t.d. að hugsanlega ætluðu þau að aka suður Sprengisand, þannig að ég spurði hvort þau gerðu sér grein fyrir hvað þau væru að fara út í og hvort þau ætluðu að aka yfir óbrúaðar ár, minn bíll væri kannski ekki sá öflugasti í það verandi bara slyddujeppi. Þau jesúsuðu sig því að það stóð náttúrulega ekki til. Það þarf að vara fólk við því að treysta bara á Google Maps. Þannig að þau umsvifalaust breyttu ferðatilhögun sinni og sáu ekkert eftir því.

Á búgarði fyrir utan Buenos Aires.
Á búgarði fyrir utan Buenos Aires. Ljósmynd/Aðsend
Í sveitunum í kringum Bordeaux í Frakklandi.
Í sveitunum í kringum Bordeaux í Frakklandi. Ljósmynd/AðsendHvaða kosti sérðu helst við heimilaskipti?

Kostir eru ótvíræðir, þeir að spara umtalsvert fé, það er t.d. ekki ódýrt að dvelja í hálfan mánuð í París á hóteli. Stór kostur er að með þessu móti þá býr maður í íbúðahverfi og kemst miklu nær daglegu lífi heimamanna, með því að fara í búðina og bakaríið og allt það sem venjulegt fólk gerir. Það er miklu skemmtilegra að sköndra út í bakarí eftir volgu croissant en setjast að þreyttu morgunverðarborði á hóteli eða fara út á einhvern morgunverðarstað. Með því að skipta á bíl er maður líka frjáls að því að skjótast hitt og þetta þegar manni hentar eða þegar mann langar til. Í Bordeaux skutumst við t.d. til San Sebastian á Spáni til að hitta spænskan kunningja og þaðan ókum við svo upp í Pýreneafjöllin á slóðir Hemingways, sem var ekkert mál.

Á götum Bordeaux.
Á götum Bordeaux. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig fannst þér að bjóða fólk velkomið á heimili þitt í fjarveru þinni? Var vel gengið um?

Fólk gengur ótrúlega vel um, betur en við sjálf. Við höfum þann háttinn á að hver þrífur hjá sér, þannig að maður þarf þá ekki að standa í þrifum rétt áður en maður fer og þrífur sjálfur heima hjá sér, ekki að það sé nein sérstök þörf vegna gestanna. 

Hvernig hafa húsakostirnir verið?

Maður spáir náttúrulega í húsnæðið á Intervac-síðunni en þetta hefur allt verið frábært og staðsetningar stórkostlegar. Svo var ekki verra eins og í Bordeaux að hafa einkasundlaug í garðinum.

Hvað er það erfiðasta við heimilaskipti? Eru einhverjir gallar?

Mér finnst ekkert erfitt við þessi skipti, þetta er mjög auðveldur máti til ferðast. En ef maður skiptir á bíl má manni ekkert þykja allt of vænt um bílinn sinn. Ísland er stórt land, og þeir sem hingað koma í heimsókn koma til að sjá náttúruna, fjölbreytileikann og allt það. Flestir fara hringinn enda líta þeir ekki á það sem stórmál, komandi frá löndum þar sem mikið er ekið og langt. Þannig að maður verður að vera búinn undir það að bílnum sé ekið nokkur þúsund kílómetra. 

Blómin vökvuð í París.
Blómin vökvuð í París. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hafa samskipti við hina fjölskylduna/einstaklingana verið?

Samskiptin hafa verið frábær svo vægt sé til orða tekið. Enda höfum við eignast vini í gegnum þetta, við t.d. heimsóttum aftur gestgjafa okkar í Berlín og rétt misstum af vinum okkar í París sem voru því miður ekki heima en hefðu svo viljað hitta okkur. Við skildum þar eftir skilaboð á bar á horninu þar sem við bjuggum. Jafnvel í París var þar í raun þorpssamfélag. Listakonan sem við skiptum við í Bordeaux var svo hrifin af Íslandi, birtunni og litunum að hún varð að koma aftur árið eftir með sonum sínum og þá fengum við þau öll í mat. Facebook gerir manni svo kleift að vera í áframhaldandi samskiptum. 

Hvaða ráð getur þú gefið þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í heimilaskiptum?

Vera frekar lengur en styttra, passa upp á að skilja eftir mat og vín í þínu húsi þannig að ef fólk kemur á skrítnum tíma verði það ekki hungurmorða. Best er að hitta hitt fólkið í upphafi, sérstaklega í fyrstu heimilaskiptum. Gott er að taka saman upplýsingar fyrir fólk um Ísland, um nágrennið, hvar hægt er að fara í búð, hvar er ódýrt að versla og hvar á ekki að versla. Við höfum líka fengið ættingja til að taka á móti okkar fólki og sýna þeim húsakynni, þvottavél og allt það og nágrennið. Kanna líka á hverju fólk hefur áhuga. Við t.d. fengum að vita að Parísarvinir okkar vildu komast út í náttúruna og bentum þeim á að ganga á Glym sem var svo einföld en ótrúlega mikil lífsreynsla fyrir þá.

Donostia í San Sebastien á Spáni.
Donostia í San Sebastien á Spáni. Ljósmynd/Aðsend
Kaffisopi í Buenos Aires.
Kaffisopi í Buenos Aires. Ljósmynd/Aðsend
París.
París. Ljósmynd/Aðsend
Spegillinn í Bordeaux.
Spegillinn í Bordeaux. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is