Bauð dóttur sinni með í draumaferðina

Steingerður Sigtryggsdóttir, fjármálastjóri hjá Ferðafélagi Íslands, datt í lukkupott í leik Smartlands og Úrvals-Útsýnar þegar hún vann tvo flugmiða til Tenerife. Eyjan, sem er við Afríkustrendur, tilheyrir Spáni og hefur þá kosti að þar er hlýtt og notalegt allan ársins hring.

Steingerður verður 46 ára daginn sem hún kemur heim úr ferðinni og lítur svo á að þetta sé eins konar afmælisferð. Hún er mikið á ferð og flugi. Þegar hún er spurð út í persónulega hagi kemur í ljós að hún hefur ferðast með sama ferðafélaganum síðan í 9. bekk þegar hún hnaut um ástina í lífi sínu. 

„Ég er gift æskuástinni minni, Ólafi, en við byrjuðum saman í 9. bekkjar ferðalagi og erum enn saman á ferðalagi. Ég er alin upp á Ólafsfirði en við búum í Reykjavík ásamt börnunum,“ segir Steingerður þegar hún er spurð út í sjálfa sig. 

Þegar Steingerður er spurð að því hvernig henni hafi liðið þegar hún datt í lukkupottinn segist hún varla hafa trúað þessu. 

„Ég las fyrst póstinn og svo aftur til að átta mig á innihaldi hans. Ég ætlaði varla að trúa þessu! Ég hló upphátt og fór að velta fyrir mér hver ætti að koma með mér út. Með bros og kitl í maga af spenningi,“ segir Steingerður sem ákvað að bjóða dóttur sinni með sér í ferðina. 

„Ég bauð dóttur minni með sem er að verða 16 ára. Við höfum það þvílíkt huggulegt hérna á Tene í mæðgnaferð,“ segir hún. 

— Hefur þú komið til Tenerife áður?

„Já, ég var hérna í október með manninum mínum og vinahjónum.“

— Hvað ætlar þú að gera í fríinu?

„Markmið númer eitt er að slaka á og dæla í sig sól og D-vítamíni. Njóta stundarinnar með dóttur minni, versla, fara í dekur og í léttar fjallgöngur.“

— Hvað finnst þér skemmtilegast við Tenerife?

„Margt hægt að gera, sóla sig, fara í búðir, fara í alls konar ferðir, mjög þægilegt veður núna til útivistar, hægt að leigja sér hjól, bæði fjallahjól og götuhjól. Hlaupa eftir strandlengjunni, fara á jetski, það er sundlaugagarður hérna svo eitthvað sé nefnt,“ segir hún. Það passar algerlega við hennar áhugamál því Steingerður hefur mjög gaman af því að hreyfa sig. Þegar hún á frí labbar hún á fjöll, syndir, fer á skíði og gengur úti í náttúrunni. 

— Ertu dugleg að ferðast?

„Við erum nokkuð dugleg að ferðast, við höfum farið í nokkrar skíðaferðir og sólarlandaferðir, lengst farið til Dubai. Elska líka að ferðast innanlands og þar er Þórsmörk ofarlega í huga.“

— Hvert dreymir þig um að fara næst?

„Næst á dagskrá er ferð til Ítalíu þar sem við hjónin, ásamt fullt af öðrum Íslendingum, ætlum að taka þátt í hálfum Ironman, sem verður haldinn í september. En aldrei að vita hvað manni dettur í hug í millitíðinni, einhver ævintýri gætu dottið inn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert