Íslendingar í Arizona blótuðu þorrann

Íslendingar skemmtu sér vel í Arizona um síðustu helgi.
Íslendingar skemmtu sér vel í Arizona um síðustu helgi. Ljósmynd/Aðsend

Um 150 manns skemmtu sér á þorrablóti í Arizona í Bandaríkjunum síðustu helgi. Þorrablót hafa verið haldin frá árinu 1992 í Arizona þegar félag íslenskra námsmanna við Arizona State University var stofnað. 

Halldóra Viktorsdóttir sem búsett er í Arizona segir að með árunum hafi Íslendingum í Arizona fjölgað og í dag eru 200 manns í félaginu. Síðustu ár hafa kokkar frá Íslandi komið með þorramatinn út. 

„Í ár lentum við í fyrsta sinn í því að ekki fékkst innflutningsleyfi fyrir þorramatnum þegar hann kom til Seattle þrátt fyrir öll tilskilin leyfi. Ákveðið var að halda eftir sem áður blótið og vona að úr þessu leystist sem það og gerði fyrir þrotlausa baráttu formanns Íslendingafélagsins, Davíðs Hill, og eiginkonu hans Susan, sem gáfust ekki upp og komu á endanum matnum til Arizona að morgni þorrablótsins. Kokkarnir stóðu sig frábærlega og snöruðu fram dýrindisblóti með öllu tilheyrandi,“ segir Halldóra. 

Davíð og Susan Hill voru í þorrablótsnefnd þetta árið ásamt Kristínu Ólafsdóttur og Önnu Ragnarsdóttur, en Anna bakaði meðal annars pönnukökur og kleinur fyrir blótið. 

„Við höfum verið svo heppin að fá einstaka sinnum góða skemmtikrafta að heiman eins og til dæmis Greifana og Haffa Haff sem hafa vakið mikla lukku. Íslendingurinn Gis Johannsson kemur líka á hverju ári frá Nashville og spilar bæði undir fjöldasöng og eins fyrir dansi. Við eigum líka marga velunnara sem hafa gefið okkur veglega vinninga fyrir happdrætti sem er einn af hápunktum kvöldsins,“ segir Halldóra.

Hún segir blótið alltaf vel sótt af Íslendingum í Arizona og það sé einnig vinsælt á meðal amerískra vina þeirra og hjá þeim sem eiga ættir að rekja til landsins og hafa mikla ánægju af því að spreyta sig á að tala íslensku og borða íslenskan mat. 

Íslendingafélagið heldur einnig 17. júní hátíðlegan og þess á milli hittast félagar þess í jólaglögg og á bjórkvöldum. 

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Þorramaturinn skilaði sér á endanum.
Þorramaturinn skilaði sér á endanum. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is